Körfuboltinn
Jóhann Ingi Hafþórsson
johanningi@mbl.is
Nýtt tímabil á Íslandsmóti kvenna í körfubolta fór af stað í gærkvöldi með þremur leikjum í úrvalsdeildinni. Heimavöllurinn reyndist liðunum vel, því heimaliðið fagnaði sigri í öllum leikjunum.
Njarðvík lék sinn síðasta leik í Ljónagryfjunni fyrir flutninga í Stapagryfjuna, nýtt íþróttahús í bænum. Liðið fagnaði áfanganum með því að sigra granna sína í Grindavík, 60:54.
Brittany Dinkins fór á kostum fyrir Njarðvík, skoraði 31 stig og tók 12 fráköst. Emilie Hesseldal skoraði 11 stig og tók tíu fráköst.
Hulda Björk Ólafsdóttir var stigahæst í jöfnu liði Grindavíkur með 13 stig. Ragnheiður Björk Einarsdóttir og Katarzyna Anna Trzeciak komu næstar með 11 hvor.
Valur vann endurkomusigur á meisturum meistaranna í Þór frá Akureyri á Hlíðarenda. Þór byrjaði betur og náði mest tólf stiga forskoti í fyrri hálfleik, en níu stigum munaði á liðunum í hálfleik í stöðunni 50:41 fyrir Þór.
Valskonur voru hins vegar sterkari í seinni hálfleik og sigldu sætum sigri í höfn.
Alyssa Cerino skoraði 34 stig fyrir Val og Dagbjört Dögg Karlsdóttir bætti við 19. Esther Fokke gerði 24 stig fyrir Þór og þær Amandine Toi og Eva Wium Elíasdóttir gerðu 13 hvor.
Mögnuð í fyrsta leik
Þá unnu Haukar sigur á nýliðum Hamars/Þórs í Ólafssal á Ásvöllum. Haukar voru með eins stigs forskot eftir hnífjafnan fyrri hálfleik, 48:47. Haukarnir unnu þriðja leikhlutann 25:19 og sigldu nokkuð sannfærandi sigri í höfn í lokin.
Lore Devos átti stórkostlegan leik fyrir Hauka, skoraði 41 stig og tók 10 fráköst. Hún kom til Hauka frá Þór frá Akureyri fyrir tímabilið. Tinna Guðrún Alexandersdóttir bætti við 16 stigum. Abby Beeman skoraði 25 stig og gaf 12 stoðsendingar fyrir nýliðana.