Anna Dóra Þorgeirsdóttir fæddist 17. janúar 1962. Hún lést á krabbameinsdeild 11EG á Landspítalanum 7. október 2024.

Foreldrar hennar voru Anna Sigurjónsdóttir, f. 7.6. 1925, d. 28.7. 2003, og Þorgeir Pétursson, f. 3.5. 1922, d. 3.8. 1997.

Systkini Önnu Dóru: Guðrún, f. 7.5. 1947, d. 12.9. 2013, Ágúst, f. 30.8. 1949, Auður, f. 8.4. 1955, Kolbrún, f. 21.3. 1957, og Halla, f. 7.7. 1965.

Synir Önnu Dóru eru: 1) Sturla Már Hafsteinsson, f. 13.7. 1984, giftur Grace Agacita Tagaloguin, f. 31.10. 1994, dóttir þeirra er Sabrína Líf, f. 12.9. 2024. 2) Óðinn Atlason, f. 27.10. 1991, í sambúð með Gustavo Juan Cairo, f. 18.8. 1993.

Anna Dóra fæddist í Hvítárvallaskála (veitingaskálanum við Hvítárbrú) í Borgarfirði og bjó þar fyrsta æviár sitt en þá fluttist fjölskyldan til Reykjavíkur.

Anna Dóra starfaði á ýmsum stöðum; Útvegsbanka Íslands, Pósti og síma, Kennarasambandi Íslands og síðustu 17 ár hjá SFR, síðar Sameyki, og vann við orlofsheimilamál og hjá Sameyki sem bókari.

Útför Önnu Dóru fer fram frá Háteigskirkju í dag, 21. október 2024, og hefst athöfnin klukkan 13.

Elsku Dóra systir mín er fallin frá langt fyrir aldur fram eða aðeins 62 ára gömul.

Hún greindist með illvígt lungnakrabbamein um miðjan desember í fyrra og höfðum við hana í tæpt ár hjá okkur.

Hún sýndi ótrúlegt hugrekki og æðruleysi í kvalafullum veikindum sínum svo aðdáun og undrun vakti. Hún tók öllum áföllum sem verkefni sem þyrfti að takast á við og lét aldrei hugfallast.

Sjö ár eru á milli okkar Dóru og ég passaði hana mikið þegar við bjuggum uppi í Hvítárvallaskála því foreldrar unnu langan vinnudag ásamt eldri systkinum okkar, Rúnu og Gústa.

Við Dóra skemmtum okkur vel þegar ég flengdist með hana um alla móa á hjólagrind undan stórum barnavagni sem á var lögð tréplata sem Dóra sat á og brosti hringinn.

En okkur til sárra vonbrigða ákváðu foreldrar okkar að panta barnakerru frá Reykjavík. Við urðum þá að hætta að nota gripinn með stórum hjólum og í stað þess kom dökkgræn kerra með svuntu, himni og pínulitlum hjólum sem engin leið var að keyra nema þá helst á malbiki en slíkt var auðvitað ekki í boði. Hægt var að keyra löturhægt í rauðamölinni sem var á stóru plani við veitingaskálann.

Svo liðu árin og alltaf var mikið samband á milli fjölskyldna okkar. Fjölskyldan stækkaði ört með mökum og börnum.

Dóra eignaðist tvo yndislega syni, Sturlu og Óðin, og helgaði líf sitt uppeldi þeirra og velferð.

Undanfarið ár hefur verið afar erfitt en alltaf reyndi Dóra að sjá bjartari hliðar og nefni ég sem dæmi þegar hárið byrjaði að losna. Þá sagði hún við mig: Ég nenni ekki að eltast meira við þessar hárflyksur um alla íbúð og lét skafa restina af. Hún sendi mér svo myndir af öllu saman og að lokum var mynd sem tekin var af henni í fangi pabba þar sem hún er nokkurra mánaða gömul og nauðasköllótt og var myndaröðin því látin heita: Aftur til fortíðar. Þetta lýsir Dóru best, hvað hún tók öllu mótlæti sem verkefni sem þyrfti að sinna.

Dóra átti afskaplega fallegt heimili og lagði sjálf mikla áherslu á að vera vel til fara. Eftir hármissinn kom hún sér upp fallegu húfusafni í ýmsum litum. Hún sagðist raunar vera guðs lifandi fegin að þurfa ekki lengur að hugsa um klippingu, litun og strípur heldur bara að vera með fallega húfu.

Dóra var lögð inn á krabbameinsdeild LSH miðvikudaginn 2. október sl. Hún sagðist vilja vera fín á spítalanum og neglurnar væru orðnar alltof langar og líka þyrfti að lakka þær. Hún bað um fund með Ölmu sem sá um neglur og hár 6.10. daginn áður en hún lést og ósk hennar var uppfyllt.

Þótt sorgin nísti okkur getum við þakkað fyrir að Dóra lifði að hitta langþráða sonardóttur sína sem kom í heiminn 12.9. og naut samvista við hana í 25 daga. Hún var staðráðin í að vera lífsins megin þar til Sabrína fæddist því hún þráði að verða amma.

Við þökkum líka fyrir að hafa haft góða aðstöðu á spítalanum til að vera með henni síðustu dagana. Verið mörg saman en skipt okkur svo þannig að tveir færu inn til hennar í stutta stund.

Nú er lífshlaupi þínu lokið elsku systir og þrautir allar að baki.

Guð blessi þig og minningu þína.

Þín systir,

Auður.

Elsku Dóra vinkona okkar og samstarfskona er látin langt fyrir aldur fram. Við viljum minnast hennar með nokkrum orðum.

Dóra var hlý og frábær samstarfskona, skemmtileg, hnyttin og alltaf stutt í hláturinn. Í hjarta hennar sló taug réttlætis og má með sanni segja að hún hafi staðið föstum fótum gegn hvers kyns óréttlæti á vettvangi stéttarfélagsbaráttunnar og lét í sér heyra ef henni var misboðið. Dóra var hugrökk, hæfileikarík, nákvæm og samviskusöm og var mikið í mun að standa sig vel í öllu sem hún tók sér fyrir hendur. Það var okkur áfall þegar Dóra sagði okkur frá veikindum sínum, að hún hafi greinst með krabbamein sem hafði dreift sér um líkamann. Hún barðist af miklu hugrekki við veikindin, sagði okkur frá nýjustu tíðindum úr læknarannsóknum og stundum urðum við bjartsýn með henni og fögnuðum – stundum leið. Þannig er sú barátta. Við minnumst síðustu heimsóknarinnar á heimili hennar í Breiðholti. Hún sagði hlæjandi og full af tilhlökkun að hún væri að fara að eignast sitt fyrsta barnabarn. Hún ljómaði. Við samglöddumst Dóru og þegar Sabrina Líf Sturludóttir kom í heiminn 12. september sl. sagði hún: „Brína er fullkomin. Ég er svo glöð og stolt,“ þegar ömmugullið hennar fæddist.

Dóra var mikil „prjónakerling“ og hver lykkja sem hún prjónaði handa skyldfólki sínu var ofin með umhyggju og gleði. Hún var smekkmanneskja í klæðaburði og vandi sig á að vera ekki í „neinum druslum, jeminn eini,“ eins og hún átti til að taka til orða og hló með sínum dillandi og smitandi hlátri.

Jafnvel undir lokin var Dóra bjartsýn og stutt var í hláturinn. Svo sterk var hún allt fram á hinstu stundu. Við munum sakna kærrar vinkonu.

Við vottum fjölskyldu hennar okkar dýpstu samúð.

Axel Jón Ellenarson, Jóhanna Þórdórsdóttir, Stefanía Jóna Níelsen.