Aldína Snæbjört Ellertsdóttir (Alda) fæddist í Holtsmúla á Langholti, í fyrrverandi Staðarhreppi í Skagafirði, 13. maí 1926. Hún andaðist á hjúkrunardeild HSN á Sauðárkróki 1. október 2024. Foreldrar hennar voru hjónin Ingibjörg Sveinsdóttir, f 11. júní 1891 á Hóli í Sæmundarhlíð, Skag., d. 28. sept. 1982 og Ellert Símon Jóhannsson, f. 14. okt. 1890 í Þorsteinsstaðakoti í Tungusveit, Skag., d. 19. feb. 1977. Alda var yngst sex systkina en þau voru: Jón Svavar, Sveinn, Jóhann, Sigurður og Hallfreð. Uppeldissystir Hafdís.
Þann 21. febrúar 1947 giftist Alda Friðriki Margeirssyni, f. 28. maí 1919 á Ögmundarstöðum, Staðarhr., Skag., d. 12. júní 1995. Foreldrar hans voru Helga Pálsdóttir og Margeir Jónsson, bóndi Ögmundarstöðum. Stjúpmóðir Helga Óskarsdóttir.
Afkomendur Öldu og Friðriks eru alls 60 (59 á lífi) en alls urðu börnin sjö talsins: 1) Helga Ingibjörg, maki Kristinn Hauksson. Börn þeirra: a) Alda Snæbjört, maki Jón Daníel Jónsson og eiga þau eina dóttur og tvo syni og tvö barnabörn; b) Steinunn, maki Ingiberg L. Baldursson og eiga þau saman einn son en Steinunn á tvo syni með fyrri maka, Ómari Arnari Ómarssyni; c) Friðrik, maki Bjarnhildur Hrönn Níelsdóttir og eiga þau tvær dætur. 2) Heiðrún, maki Sveinn Rúnar Sigfússon. Börn þeirra: a) Hólmfríður, maki Stefán Friðriksson og eiga þau tvo syni og eina dóttur; b) Ingibjörg, maki Ingólfur Ingólfsson og eiga þau eina dóttur; c) Rúnar, maki Efemía Rún Sigurbjörnsdóttir og eiga þau tvo syni og eina dóttur; 3) Hallfríður, maki Sigurður Jón Þorvaldsson. Börn þeirra: a) Jóhann Þröstur, maki Marthe Kristin Rekdal og eiga þau tvær dætur; b) Davíð, maki Renate Kvamme og eiga þau tvær dætur. 4) Jóhann, maki Hildur Sigríður Sigurðardóttir. Börn þeirra: a) Ellert Heiðar, maki Aníta Björk Sveinsdóttir og eiga þau þrjá syni og eina dóttur; b) Hrannar Örn, maki Dagbjört Ólöf Sigurðardóttir og eiga þau tvo drengi saman en áður átti Hrannar son með Önnu Rún Austmar Steinarsdóttur. 5) Friðrik Margeir, maki Sigurlaug Hrönn Valgarðsdóttir. Börn þeirra: a) Helgi Freyr, maki Margrét Helga Hallsdóttir og eiga þau tvo syni og eina dóttur; b) Vala Hrönn; c) Maríanna. 6) Valgerður, maki Sigurfinnur Sigurjónsson. Börn þeirra: a) Heiðar Örn, maki Jakobína Hólmfríður Árnadóttir og eiga þau einn son og eina dóttur. 7) Páll, maki Guðný Hólmfríður Axelsdóttir. Börn þeirra: a) Snæbjört; b) Hugrún; c) Eyvör.
Á námsárum Friðriks hófu þau Alda búskap í Reykjavík en árið 1948 flutti Alda norður í Skagafjörð, ófrísk að sínu fyrsta barni, og Friðrik ári síðar. Upp frá því bjuggu þau nánast alla sína tíð að Hólavegi 4 á Sauðárkróki. Alda stundaði ýmis störf um ævina en lengst af sem saumakona á Sjúkrahúsi Skagfirðinga. Nokkrum árum eftir fráfall Friðriks tókst mikill vinskapur milli Öldu og Friðriks Jens Friðrikssonar, sem varði í um áratug eða þar til hann lést 11. júní 2011.
Útför Öldu fer fram frá Sauðárkrókskirkju í dag, 21. október 2024, klukkan 14. Hlekk á streymi má nálgast á
https://www.mbl.is/andlat
„Sæl elskan, ert þetta þú, mikið ertu sæt/ur í dag.“ Svona tók amma á Hóló yfirleitt á móti okkur.
Amma var einstaklega jákvæð og þakklát kona, með svo fallega sýn á lífið þrátt fyrir mörg áföll yfir langa ævina.
Við erum mörg ömmu- og langömmubörnin sem vorum spennt að kynna vini og vinkonur okkar fyrir hressu og skemmtilegu ömmu á Hóló sem oftar en ekki bauð upp á pönnsur eða jafnvel snafs af Captain Morgan, eða Hólavegsræningja eins og hann kallast í okkar fjölskyldu, ef aldur gesta leyfði.
Amma var afskaplega dugleg og til að mynda heklaði hún kærleiksteppi, eins og hún nefndi þau, handa öllum börnum, barna-, barnabarna- og barnabarnabarnabörnunum sínum, sem okkur þykir svo óendanlega vænt um að eiga.
Að muna eftir kærleikanum var hennar boðorð til okkar, hann er grunnurinn að því að láta sér líða vel og að hafa húmor – líka fyrir sjálfum sér. „Mikið á maður gott að hafa húmor,“ sagði hún og grét af hlátri.
Amma fylgdist ávallt vel með, spurði frétta og var ákaflega stolt af fólkinu sínu, við vorum öll einhvers konar sigurvegarar í hennar augum. Hún var dugleg að tala um hvað hún væri rík og lánsöm að eiga allt þetta fallega fólk.
Amma lagði mikið upp úr því að við fjölskyldan myndum öll hittast, kynnast og skemmta okkur saman, helst spila, syngja og dansa. Það eru ómetanlegar minningar og tengingar sem verða til þegar fólk gefur sér tíma til að vera saman. Elsku amma – drottningin okkar – takk fyrir allt sem þú hefur gefið og kennt okkur.
Við vitum að það er vel tekið á móti þér og sjáum við fyrir okkur fagnaðarfundinn.
Við hjúfrum okkur í kærleiksteppin frá þér sem mun ylja okkur ásamt minningunum um þig um ókomna tíð
Kveðjum þig með þinni kveðju,
Guð veri með þér og láttu þér líða vel.
Þín,
Helgi Freyr, Margrét Helga, Vala Hrönn, Maríanna, Hallur Atli, María Hrönn
og Hólmar Daði.
Elsku amma (á Hóló), drottningin okkar og fyrirmynd, það er sárt að þurfa að kveðja þig og vita til þess að við munum ekki heyra í þér aftur. Þú hefur alltaf verið stór partur af okkar lífi og allar góðu minningarnar munu lifa áfram í hjörtum okkar. Óteljandi heimsóknir á Hólaveginn þar sem alltaf var svo gott að koma, á yngri árum að spila kúluspilið og lönguvitleysu, lesa þjóðsögur og ærslast og í seinni tíð að rabba um heima og geima, fá kaffi og með því, jafnvel smá „ræningja“ í staup. Það sem einkenndi þig var þessi mikla lífsgleði, jákvæðni, húmorinn og allur kærleikurinn sem þú hafðir að leiðarljósi í hvívetna og við munum tileinka okkur og taka með út í lífið. Við vorum alltaf spenntar og stoltar að tala um ömmu á Hóló og kynna fyrir vinum okkar, amman sem var alltaf svo fín til fara og lét ekki sjá sig öðruvísi en á hælum! Amman sem lék og spilaði við krakkana, ræddi ættfræði og fann út hvernig við vorum skyldar öllum, hló og grínaðist með okkur, prjónaði leista og heklaði kærleiksteppi handa öllum afkomendum.
Elsku amma, takk fyrir allt og góða ferð í sumarlandið.
Snæbjört, Hugrún og Eyvör Pálsdætur.