Þorsteinn Þorgeirsson
Undanfarin ár hefur dr. Ravi Batra, prófessor við Southern Methodist University í Dallas í Texas, þróað nýjar hugmyndir á sviði efnahagsmála sem varða grundvallarþætti efnahagslífsins, þ.e. sköpun og skiptingu verðmæta og hvaða áhrif það getur haft á þróunina ef jafnvægis er ekki gætt á milli þessara þátta.
Nýjar hugmyndir
Dr. Batra hefur sett fram nýja kenningu, sem felur í sér að hægt sé að útskýra næstum öll þjóðhagsleg fyrirbæri með launaframleiðnibili þjóðar. Það má skilgreina sem hlutfall vinnuaflsframleiðni og raunlauna, og kalla einfaldlega launabilið.
Launabilið tengist bæði framboði og eftirspurn, og útskýrir það ástand heimshagkerfisins í dag.
Tvær hugmyndir eru ráðandi í samtímanum, framboðshliðar hagfræði og eftirspurnarhliðar hagfræði. Launabilskenningin felur þær báðar í sér, af því að heildareftirspurn á uppruna sinn í raunlaunum og heildarframboð kemur af vinnuaflsframleiðni.
Ef launabilið eykst er það af því að framleiðni eykst meira en raunlaun, en það þýðir að framboð er að aukast hraðar en eftirspurn. Af því leiðir að of mikið er framleitt og fólki er sagt upp störfum. Hægt er að komast hjá uppsögnum ef gervieftirspurn er búin til með auknum ríkisútgjöldum, lægri sköttum eða með auknu peningamagni. Þetta eru hinar svokölluðu þensluhvetjandi ríkisfjármála- og peningastefnur, en þær skapa aðeins gervieftirspurn. Þegar þær eru kallaðar stefnur hverfa allar mótbárur. Þetta útskýrir af hverju heimurinn er umvafinn skuldum og peningasköpun.
Á þennan hátt er hægt að útskýra næstum öll þjóðhagsleg fyrirbæri með launabilskenningunni. Jafnvel sú skoðun að óheyrilegur ójöfnuður framkalli samdrátt og kreppur er ekki lengur ráðgáta.
Tengdar uppgötvanir
Þá hefur greinarhöfundur uppgötvað þrjú atriði á grundvelli kenninga Ravis Batra.
Í fyrsta lagi er ný kenning um að langvarandi hækkun launabils í Bandaríkjunum – með auknu framboði af sparnaði og aukinni eftirspurn eftir lánum – sé ástæðan fyrir aukinni fjármálavæðingu efnahagslífs þróaðra ríkja á síðustu hálfri öld, þannig að kapítalisminn, eins og hann var þekktur á síðustu öld, er núorðið oft nefndur fjármálakapítalismi (e. financial capitalism).
Í öðru lagi var íslenska bankakreppan innflutt. Á meðan launabilið í Bandaríkjunum jókst mikið minnkaði það á Íslandi. Af því má draga þá ályktun að uppgang íslensku bankanna megi útskýra öðru fremur með auknu aðgengi þeirra að erlendu lánsfjármagni og að hrun þeirra hafi orðið þegar það aðgengi hvarf í alþjóðlegri fjármálakreppu.
Í þriðja lagi er ný kenning um hvaða áhrif breytingar á launabili hafa á framleiðslugetu hagkerfisins og þar með verðbólguhneigð þess. Þetta er mikilvægt atriði við að útskýra aukna verðbólguhneigð hagkerfisins þegar launabilið minnkar, eins og það hefur gert mörg undanfarin ár, með hækkun raunlauna umfram framleiðni. Við það minnkar framleiðslugetan og framleiðslubilið eykst, en það gerir Seðlabankanum erfiðara fyrir að koma verðbólgu á markmið eða halda henni þar.
Sterk alþjóðleg áhrif
Ofangreint dregur fram mikilvægi þess fyrir stöðugleika hér á landi að fylgst sé með slíkum grundvallaratriðum í efnahagsþróun í nágrannaríkjunum, ekki síst Bandaríkjunum en einnig Evrópusambandinu, en þau eru með hagkerfi sem eru þúsund sinnum stærri en það íslenska og rannsóknir benda til að íslenskar fjármála- og viðskiptasveiflur séu undir sterkum áhrifum frá þeim.
Réttlátt efnahagslegt viðmið
Með launabilskenningu dr. Batra og tengdum uppgötvunum má segja að komið sé efnahagslegt viðmið sem tryggir vinnandi fólki réttláta þátttöku í aukinni framleiðni. Um leið er áhersla á öfluga verðmætasköpun. Markmiðið er að halda launabilinu óbreyttu til að viðhalda stöðugum hagvexti með góðu atvinnustigi og lítilli verðbólgu ásamt sjálfbæru fjármálakerfi. Það er jafnframt til þess fallið að útrýma fátækt. Um þetta efni fjallar dr. Batra ítarlega í bókinni Þjóðhagfræði almennrar skynsemi sem Almenna bókafélagið hefur nú gefið út. Er þetta fyrsta íslenska kennslubókin í þjóðhagfræði í um aldarfjórðung. Greinarhöfundur þýddi bókina og skrifaði inngang og viðaukakafla um Ísland en einnig er í bókinni kafli fenginn úr annarri bók höfundar með fræðilegu efni tengt grunnhugmyndum hans. Bókin er skrifuð á aðgengilegan hátt og er því á færi áhugafólks um hagfræði.
Höfundur er hagfræðingur.