Björn Leví Gunnarsson
Björn Leví Gunnarsson
Eini flokkurinn sem heldur prófkjör eru Píratar. Sextíu og sjö eru að bjóða fram krafta sína. Um helgina voru frambjóðendakynningar sem sýndu hversu fjölbreyttur flokkur Píratar eru – því miður fleiri frambjóðendur en þingsæti sem eru í boði

Eini flokkurinn sem heldur prófkjör eru Píratar. Sextíu og sjö eru að bjóða fram krafta sína. Um helgina voru frambjóðendakynningar sem sýndu hversu fjölbreyttur flokkur Píratar eru – því miður fleiri frambjóðendur en þingsæti sem eru í boði. Valið verður því mjög erfitt fyrir grasrót Pírata í prófkjörinu sem lýkur á morgun.

Í kynningum frambjóðenda kom skýrt fram að sýn Pírata er að leysa stóru málin – með meira lýðræði og meiri mennsku. Kerfishugsunin sem afgreiðir fólk með stimplum er ekki lausn við samfélagslegum vanda sem birtist okkur í húsnæðisskorti, geðheilbrigðismálum, mannréttindamálum, umhverfismálum, menntamálum, málefnum eldra fólks, málefnum öryrkja og að sjálfsögðu heilbrigðismálum almennt.

Athygli allra hinna flokkanna er á efnahagsmál. Vexti og verðbólgu. Og jú, á meðan það er mikilvægt að ná niður vöxtum og verðbólgu þá gerum við það með því að hafa heilbrigt og sjálfbært samfélag. Þegar það er húsnæðisskortur þá hækkar verðbólgan – sem er efnahagsmál. Þegar fólk getur ekki leitað sér aðstoðar þá týnist það úr vinnu – sem er efnahagsmál. Þegar fólk er í mínus um hver mánaðamót – þá er það efnahagsmál. Öll mál Pírata eru efnahagsmál. Þau eru mannlegi hluti hagkerfisins sem við verðum að passa að sé í lagi.

Háir vextir og verðbólga eru sjúkdómseinkenni þess veika hagkerfis sem við búum við. Verðtrygging og pínulítill gjaldmiðill eru beinlínis uppskrift að agaleysi í efnahagsstjórn landsins. Stjórnvöld þurfa ekki að passa upp á hagstjórnanlegar ákvarðanir þegar reikningurinn skellur bara sjálfkrafa á lán fólks eða gengisfall – sú sjálfvirka leiðrétting sem er innbyggð í hagkerfið með verðtryggingu og krónu býr til efnahagslega óstjórn.

Nú eru tvö og hálft ár síðan ríkisstjórnin kom með fyrsta aðgerðapakkann gegn verðbólguhækkunum. Nú loksins segja þau að allt sé að koma. Eftir að verðbólgan fór yfir 10% og stýrivextir í 9,25%. Þrátt fyrir „aðgerðapakka“. Nei, þetta er loksins allt að koma af því að verðtryggingin og stýrivextirnir eru búnir að kremja hagkerfið í tvö ár. Það voru ekki ákvarðanir eða hagstjórn stjórnvalda sem „eru alveg að koma“. Það eru handrukkarar kerfisins sem eru búnir að sjá um hagstjórn landsins undanfarið. Verðbólga og stýrivextir.

Við verðum að gera betur og ég hef trú á frambjóðendum Pírata til þess að leysa málið á komandi kjörtímabili. Þar sé ég fólk sem horfir ekki bara á sjúkdómseinkennin heldur á sjúkdóminn sjálfan. Við þurfum skaðaminnkandi aðgerðir fyrir íslenskt samfélag. Ekki bara í vímuefnamálum heldur líka í flokkapólitíkinni. Við þurfum aðskilnað milli lýðræðis og flokkaræðis – meira lýðræði, minna flokkaræði. Komdu og vertu með eina flokkinum sem gefur ekki afslátt af lýðræðinu.

Höfundur er þingmaður Pírata. bjornlevi@althingi.is

Höf.: Björn Leví Gunnarsson