Suðvesturkjördæmi Frá vinstri: Bryndís Haraldsdóttir, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, Bjarni Benediktsson og Rósa Guðbjartsdóttir.
Suðvesturkjördæmi Frá vinstri: Bryndís Haraldsdóttir, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, Bjarni Benediktsson og Rósa Guðbjartsdóttir. — Morgunblaðið/Ólafur Árdal
Raðað var í efstu fjögur sæti lista Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi á fjölmennum fundi kjördæmaráðs í Valhöll í gær. Bjarni Benediktsson formaður flokksins var sjálfkjörinn í fyrsta sæti. Hann sagði þegar úrslitin voru ráðin að flokksmenn…

Anton Guðjónsson

anton@mbl.is

Raðað var í efstu fjögur sæti lista Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi á fjölmennum fundi kjördæmaráðs í Valhöll í gær. Bjarni Benediktsson formaður flokksins var sjálfkjörinn í fyrsta sæti. Hann sagði þegar úrslitin voru ráðin að flokksmenn fyndu fyrir því að flokkurinn væri í sókn í öllum landshlutum.

Baráttan var einna mest spennandi um annað sæti á listanum. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir varaformaður flokksins bauð sig fram í sætið á móti Jóni Gunnarssyni fyrrverandi dómsmálaráðherra, en í kjölfarið bað hún flokksfélaga sinn afsökunar á að hafa gert það án þess að gera honum viðvart um það sérstaklega. Fór það svo að Þórdís Kolbrún hafði betur gegn Jóni með nokkrum mun. Hlaut varaformaðurinn 206 atkvæði en Jón 134. Jón tilkynnti í kjölfarið að hann hygðist ekki bjóða sig fram í önnur sæti á lista og yfirgaf hann svo fundinn.

Þórdís Kolbrún kvaðst þakklát fyrir kjörið en sagði það hafa komið sér á óvart að Jón hefði ekki ákveðið að bjóða sig fram í önnur sæti.

„Já, það kom á óvart, en ég ber virðingu fyrir hans ákvörðun og ég ber virðingu fyrir honum,“ sagði Þórdís Kolbrún. Sagðist hún munu sjá eftir Jóni og vonast hún til þess að hann „sé ekki farinn langt“. Bjarni Benediktsson sagði sömuleiðis að ákvörðun Jóns hefði komið sér á óvart, sérstaklega í ljósi þess að hann hefði fengið talsverðan stuðning í kosningum á móti varaformanni flokksins.

Sjálfur sagði Jón niðurstöðuna lýðræðislega og að hann sætti sig auðvitað við hana. „Svona er það þá bara. Ég var að etja kappi við varaformann flokksins. Svo að fjallið var hátt sem ég var að klífa og mér tókst ekki að komast á toppinn á því á þessum tíma. Þannig að þetta er bara niðurstaðan,“ sagði Jón.

Baráttan um þriða sætið á listanum var á milli Bryndísar Haraldsdóttur þingmanns Sjálfstæðisflokks og Rósu Guðbjartsdóttur bæjarstjóra í Hafnarfirði. Laut Rósa í lægra haldi gegn Bryndísi, 178 atkvæði gegn 142. Bryndís sagði að sér litist vel á frambjóðendahópinn sem þegar var kominn, en sagði þó missi að tveimur öflugum þingmönnum, þeim Óla Birni Kárasyni og Jóni Gunnarssyni.

„Þetta er lýðræðislegt og það er kraftur í þessu hjá okkur sjálfstæðismönnum og ég treysti því að þessi kraftur skili sér í komandi kosningabaráttu,“ sagði Bryndís.

Rósa sóttist í kjölfarið eftir fjórða sæti á listanum og hafði hún betur í því kjöri gegn Ragnhildi Jónsdóttur, forseta bæjarstjórnar á Seltjarnarnesi, Sigþrúði Ármann varaþingmanni flokksins og Vilhjálmi Bjarnasyni.

Öll baráttan eftir

„Við vorum að taka stórar ákvarðanir og stilla upp okkar liði. Ég veit að við getum átt mikið inni,“ sagði Þórdís Kolbrún og benti á að öll baráttan væri nú í raun eftir.

„En ég veit líka að Sjálfstæðisflokkurinn á ekkert. Það þarf einfaldlega að vinna fyrir [fylginu]. Við erum að koma úr þverpólitísku samstarfi þar sem mikið hefur gengið á.“

Þess vegna sé eftirvænting fyrir því að fara fram í kosningabaráttu þar sem flokkurinn sé frjáls og óbundinn og hægt sé að setja mál á dagskrá sem hafi verið til hliðar í mörg ár.

Bjarni sagði að fundi loknum að mörgum innan flokksins hefði fundist ákveðinn skuggi hafa fallið á þau í ríkisstjórnarsamstarfi Sjálfstæðisflokks, Framsóknar og Vinstri grænna. Sagðist hann hafa haft skilning á því og það hefði verið áskorun að halda saman þriggja flokka stjórn.

„Ég ákvað á endanum að það væri ekki ástæða til þess að framlengja samstarfið í gegnum þennan þingvetur heldur að ganga strax til kosninga og ég hef fundið fyrir mikilli bylgju jákvæðni eftir að ég tók þá ákvörðun,“ sagði Bjarni.

„Ég hafði svo sem enga tryggingu fyrir því nákvæmlega hvernig úr myndi spilast en ég er mjög glaður í dag. Ég heyri það á frambjóðendum úr öllum kjördæmum að þeir finna fyrir því að flokkurinn er í sókn í öllum landshlutum.“