Eva Guðrún Williamsdóttir fæddist 17. júní árið 1932 í Ólafsfirði. Hún lést á dvalarheimilinu Hornbrekku Ólafsfirði 5. október 2024.
Hún var yngsta barn hjónanna Jónínu Lísbetar Daníelsdóttur, f. 8. desember 1895, d. 13. apríl 1972, og Williams Þorsteinssonar, f. 29. júní 1898, d. 13. mars 1988. Systkini Evu í aldursröð voru: Þorsteinn Gunnar, Rósa Daney, Sigríður Margrét, Ásta Sigríður og Guðmundur. Þau eru öll látin og einnig fósturbróðir Evu, Daníel Helgi.
Eva giftist 30. nóvember 1956 Kristjáni Ásgeirssyni skipstjóra, f. 19. apríl 1929, d. 7. nóvember 1975. Foreldrar hans voru Ásgeir Frímannsson, f. 24. september 1901, d. 2. ágúst 1973, og Gunnlaug Sesselja Gunnlaugsdóttir, f. 17. júní 1900, d. 25. ágúst 1970. Eva og Kristján bjuggu alla sína hjúskapartíð í Ólafsfirði og hófust fljótlega handa við að reisa sér hús á Hornbrekkuvegi 8 þar sem Eva bjó lengst af áfram eftir að eiginmaður hennar lést.
Eva og Kristján eignuðust þrjár dætur. Þær eru: 1) Jónína, f. 23. ágúst 1957, gift Hauki Sigurðssyni. Þau eiga þrjú börn, átta barnabörn og tvo langömmudrengi. 2) Gunnlaug, f. 4. júní 1959, gift Þorsteini Alberti Þorvaldssyni. Þau eiga þrjú börn og átta barnabörn, þar af er eitt látið. 3) Ágústa, f. 31. maí 1964, gift Kristni Hreinssyni. Þau eiga tvo syni og tvö barnabörn. Eftir hefðbundna skólagöngu var Eva einn vetur í Húsmæðraskólanum að Varmalandi í Borgarfirði og vann síðar í Hraðfrystihúsi Ólafsfjarðar. Frá árinu 1976 afgreiddi Eva í vefnaðarvörudeild Kaupfélags Ólafsfjarðar þar til hún lét af störfum fyrir aldurs sakir. Eva bjó á dvalarheimilinu Hornbrekku frá árinu 2019.
Útför hennar verður gerð frá Ólafsfjarðarkirkju í dag, 21. október 2024, klukkan 13.
Streymi: http://mbl.is/go/czqky
Blessuð vinan, hvað segir þú gott í dag? Þetta sagði mamma alltaf við mig í daglegum símtölum okkar nú í síðari tíð. Hún sagði alltaf allt gott. Hún varð þeirrar gæfu aðnjótandi að líta lífið jákvæðum augum þrátt fyrir mikinn missi þegar pabbi lést, langt fyrir aldur fram. Hún var kletturinn minn og sú sem ég treysti á í æsku og hefur samband okkar alla tíð verið mjög gott.
Mamma var sjálfstæð í eðli sínu og hefur það að vera sjómannskona örugglega átt sinn þátt í að efla það. Hún vildi ganga að hlutunum á vísum stað og var sérlega flink í að hafa allt í röð og reglu. Eftir að hreyfigeta hennar minnkaði og hún þurfti að vera í hjólastól á Hornbrekku þótti henni erfiðast að geta ekki gert hlutina á sinn hátt en starfsfólkið kunni vel inn á hana og naut hún sérlega góðrar umönnunar þar.
Fjölskyldan var mömmu allt og naut hún þess að vera í sambandi við okkur öll og fylgjast með fjölskyldunni sinni stækka og dafna. Ég mun alltaf minnast þín, elsku mamma, þú varst góð fyrirmynd. Við fjölskyldan munum segja afkomendunum þínum frá þér eins og þú lagðir alltaf áherslu á að halda minningu pabba lifandi. Nú verða símtölin okkar ekki fleiri og því segi ég takk fyrir allt og góðar kveðjur til pabba í sumarlandinu. Blessuð sé minning þín.
Ég þakka þau ár sem ég átti
þá auðnu að hafa þig hér.
Og það er svo margs að minnast,
svo margt sem um hug minn fer.
Þó þú sért horfin úr heimi,
ég hitti þig ekki um hríð.
Þín minning er ljós sem lifir
og lýsir um ókomna tíð.
(Þórunn Sig.)
Þín dóttir,
Ágústa.
Fjörðurinn fagri skartaði sínu fegursta að morgni dags þann 5. október er ástkær tengdamóðir mín hún Eva kvaddi þetta jarðlíf, haustlitirnir fagrir sem aldrei fyrr, snjóslæða í fjallatoppunum, sól og logn og Ólafsfjarðarvatn speglaði fegurð Hornbrekku þar sem Eva lauk sínu lífshlaupi.
Eva var einstök manneskja, ég hef aldrei kynnst jafn jákvæðri manneskju og hún Eva var, þrátt fyrir að hún hafi þurft að takast á við mörg áföll í lífinu, en Kristján eiginmaður Evu fórst í hörmulegu sjóslysi 7. nóvember 1975, þá var Kristján aðeins 46 ára og Eva 43 ára. Þetta hörmulega slys markaði líf fjölskyldunnar til frambúðar en saman áttu þau þrjár dætur, þær Jónínu, Gunnlaugu og Ágústu.
Eva og Kristján bjuggu lengst af á Hornbrekkuvegi 8, þau voru stórhuga er þau byggðu það fallega hús, húsastæðið er eitt það fallegasta í Ólafsfirði með útsýni yfir bæinn, tjörnina og höfnina.
Evu þótti vænt um það hús og leið vel þar, ekki skemmir það nú fyrir að húsnæðið er enn í fjölskyldunni því dóttursonurinn Kristján eignaðist húsnæðið fyrir nokkru.
Eftir andlát Kristjáns tók Eva þá stefnu að helga líf sitt dætrum sínum og fjölskyldum, sem hún gerði af svo miklu æðruleysi og fórnfýsi. Dæturnar þrjár hófu allar sinn búskap á neðri hæðinni á Evu, þar sem nálægð við móður sína á efri hæðinni var mikil og Eva alltaf tilbúin að aðstoða og hjálpa.
Eva var félagslynd, tók þátt í Slysavarnadeild kvenna á Ólafsfirði, trúrækin var hún og söng í kirkjukór Ólafsfjarðar í fjöldamörg ár, hún var mikil hannyrðakona og góður kokkur. Eva var stálminnug og hafði gaman af að ræða gamla tíma sem og um Ólafsfjörð, fjörðinn sem hún elskaði.
Fyrst og fremst var Eva fjölskyldukona, allt snerist um börnin og barnabörnin, hún mundi afmælisdaga allra í fjölskyldunni, hringdi í alla á afmælisdögum og fylgdist með öllum alveg fram undir það síðasta.
Síðustu fimm árin var hún á Hornbrekku og var bundin við hjólastól síðustu þrjú árin, hún naut aðhlynningar á þessu frábæra heimili sem við Ólafsfirðingar getum verið svo stolt af, hafið kærar þakkir, starfsfólk Hornbrekku, fyrir allan þann hlýhug og þjónustu sem þið veittuð Evu.
Kæra tengdamóðir, þú varst einstök kona, í þau 50 ár sem við þekktumst bar aldrei neinn skugga á okkar samband, jákvæðari manneskju hef ég ekki kynnst, þú talaðir aldrei illa um fólk, sást alltaf jákvæðar hliðar á málunum, þú varst sátt og tilbúin að fara á æðri stað og hitta þinn elskulega eiginmann.
Kristján var farsæll skipstjóri og fangaði oft mikinn og góða afla en að morgni 5. október endurheimti hann þig eftir allt of langan aðskilnað. Það hafa án nokkurs vafa verið miklir fagnaðarfundir, enda veit ég að söknuður Evu eftir sínum heitt elskaða manni var oft óbærilegur, án efa hefur lagið „Hún hring minn ber“ hljómað undir við þeirra fagnaðarfund.
Þú varst gull af konu, falleg bæði að innan og utan með hjarta úr gulli, þú varst drottning, hafðu þökk fyrir allt og allt, þín verður sárt saknað af öllum í fjölskyldunni.
Þinn tengdasonur,
Þorsteinn Þorvaldsson.
Þakklæti er það sem kom fyrst upp í huga minn þegar ég sat með ömmu Evu á dvalarheimilinu Hornbrekku haldandi í hönd hennar sem var farin að kólna, því amma var mjög tilbúin að kveðja þennan heim og halda yfir í Sumarlandið. Þar mun hún hitta afa Kristján sem og aðra ástvini sem hafa farið á undan henni. Þakklæti fyllir mig vegna þess að ég var svo heppinn að fá að kynnast þessari yndislegu konu sem var alltaf svo jákvæð. Orðið „jákvæð“ nær þó ekki alveg að lýsa hugarfari ömmu – hún var meira en það.
Amma fæddist 17. júní 1932 og var því rétt rúmlega 92 ára þegar ég sat hjá henni fyrir nokkrum dögum á Hornbrekku og við hlustuðum á Óskar Pétursson syngja „Hún hring minn ber“, lagið sem ég veit að var lag hennar og afa. Afi lést langt fyrir aldur fram í hörmulegu sjóslysi í nóvember árið 1975. Amma varð því ekkja aðeins 43ja ára með þrjár ungar dætur. Ég spurði ömmu einu sinni hvort hún hefði einhvern tímann hugsað sér að eignast nýjan lífsförunaut eftir að afi dó. Svar hennar var einfalt: „Nei, afi þinn var maðurinn minn.“ Það var ekki meira um það að segja og þurfti ekkert að ræða það neitt frekar.
Ég á óteljandi minningar um ömmu frá síðustu 40 árum, eða frá því að ég var kominn til vits og ára. Bústaðarferðir okkar tveggja í Skriðuland, þar sem í minningunni var alltaf sól og gott veður, mikið spilað, labbað upp að stórasteini og yndislegar samverustundir sem við áttum þar og eru mér ómetanlegar. Einnig var það ansi oft sem ég fékk að gista hjá ömmu og ekki var það nú leiðinlegt. Allar samverustundirnar sem við stórfjölskyldan áttum á Hornbrekkuveginum, þar sem maður var alltaf svo velkominn eru einnig svo dýrmætar, þegar litið er til baka. Áður en þú fluttir á Hornbrekku var alltaf yndislegt að koma í kaffi til þín því þú hættir aldrei að baka kökur þrátt fyrir að eiga orðið erfitt með gang. Það var líka mjög gefandi að spjalla við þig þegar ég og fjölskyldan mín heimsóttum þig á Hornbrekku og þar var alltaf boðið upp á nammi úr dósinni góðu.
Þú varst svo handlagin, hvort sem það var að hekla, föndra eða baka. Allir í fjölskyldunni minni eiga eftir þig sængurver með glæsilegu milliverki sem þú heklaðir og sú gjöf munu fylgja okkur alla ævi.
Ég byrjaði þessi minningarorð á þakklæti og vil ég líka enda þau á því. Ég er svo þakklátur fyrir allt sem þú kenndir mér, ekki síst hvernig hægt er að líta á lífið jákvæðum augum þótt áföll dynji yfir. Þú varst líka alltaf svo glæsileg og flott til fara. Elsku amma, mér þykir svo óendanlega vænt um þig. Takk fyrir allt sem þú hefur gert fyrir mig og mína.
Þinn dóttursonur,
Þorri.
Elsku amma Eva, þín er sárt saknað og í hreinskilni sagt hélt ég að ég yrði tilbúnari í þessa stund þegar að henni kæmi en ég er í raun og veru. Það verður skrítið að geta ekki talað við þig og heyrt röddina þína aftur, heimsótt þig á Hornbrekku eins og ég gerði síðustu árin og spjallað við þig um lífið og tilveruna, um allt og ekkert.
Góðar minningar um okkur saman koma upp í hugann eins og þegar gisti hjá þér þegar ég var yngri og við spjölluðum og spiluðum langt fram á nótt. Aðalumræðuefnið voru sögur af afa mínum, Kristjáni, sem ég kynntist aldrei af eigin raun en finnst ég þekkja mjög vel vegna þessara samræðna og er ég mjög þakklátur fyrir þessar stundir. Einnig sagðirðu mér frá því þegar þú misstir bróður þinn og son hans í bílslysi og hversu mikið þú saknaðir þeirra allra. Þú sagðir þessar sögur af slíku æðruleysi að sem barn áttaði ég mig ekki á því hvað þú gekkst í gegnum mikinn missi. Þegar ég þroskaðist fann ég að það er merkilegt hversu vel þér tókst að líta björtum augum á tilveruna þrátt fyrir mikinn missi.
Elsku amma, þú varst alltaf jákvæð og vildir allt fyrir fjölskylduna þína gera, reiddist mjög sjaldan við mann og gerðir bestu pönnukökur sem ég hef nokkurn tímann smakkað. Þú ert og verður ein helsta fyrirmyndin mín þegar kemur að lífsgleði og ætla ég að minnast þín að lokum með tveimur uppáhaldssetningunum mínum sem þú sagðir svo oft í frásögnum þínum: „En svona er lífið og maður verður að taka því“ og „Það [lífið] er yndislegt og maður á að vera þakklátur fyrir að lifa.“ Takk fyrir allt amma mín.
Þinn dóttursonur,
Sindri Freyr.