Guðrún Esther Árnadóttir fæddist í Reykjavík 13. ágúst 1940. Hún lést í faðmi fjölskyldunnar á Landspítalanum 1.10. 2024.

Foreldrar Guðrúnar voru Fanney Sumarrós Gunnlaugsdóttir, f 7.9. 1914, d 1.12. 1994 og Árni Elíasson, f 12.10. 1904, d 23.6. 1997.

Guðrún átti sjö systkini: Hildi, f. 2306. 1934, d. 15.8. 1934, Elías H., f. 25.11. 1935, Gunnlaug Ö., f. 15.2. 1939, Ólaf J., f. 21.6. 1945, Ómar Þ., f. 9.11. 1950, og Svanhildi Á., f. 25.10. 1955.

Guðrún giftist Jóni Hauki Baldvinssyni, f. 25.4. 1938, d 16.12. 2017 og eignuðust þau þrjú börn: Baldvin Árna, f. 23.10. 1961, Guðnýju Maríu, f. 30.9. 1967, og Hjörleif Örn, f. 22.9. 1972. Baldvin Árni var kvæntur Súsönnu Þorvaldsdóttur, f. 9.1. 1965 og eignuðust þau tvo drengi, Jón Atla, f. 14.12. 1989 og Hans Andra, f. 19.5. 1999. Jón Atli er kvæntur Eyrúnu Ósk Torfadóttur og eiga þau Emmu Ósk og Esju Rós. Guðný María er gift Þór Haukssyni, f. 11 janúar 1965 og eiga þau þrjú börn, Þórberg Atla, f. 3.6. 1996, Guðrúnu Láru, f. 21.12. 1998 og Jón Hauk, f. 18.5. 2008. Hjörleifur Örn kvæntist Rannveigu Elíasdóttur, f. 9.8. 1982. Hún á tvo syni frá fyrra hjónabandi, Víking Einarsson, f. 30.12. 2002 og Róbert Einarsson, f. 29.11. 2005. Hjörleifur og Rannveig eiga saman synina Elías Hrafn, f. 12.4. 2011, og Jóhannes Hauk, f. 9.11. 2017.

Guðrún ólst upp á Seltjarnarnesi. Fjölskyldan bjó í Gróttu fyrstu árin en flutti síðar í Bygggarða og loks í Valhús. Seltjarnarnes og Grótta áttu ávallt stóran stað í hjarta Guðrúnar. Hún gekk í Gagnfræðaskóla verknáms og lauk gagnfræðaprófi. Hún vann á sumrin í Ísbirninum, eftir nám á Núpi í Dýrafirði og á Sólheimum í Grímsnesi. Guðrún kynntist manni sínum Jóni Hauki á Nesinu. Þau eignuðust sitt fyrsta barn 1961 og sama ár voru þau gefin saman á öðrum degi jóla. Hjónin hófu búskap á Grenimel en byggðu svo hús við Byggðarholt í Mosfellssveit. Í Mosfellssveit réð hún sig sem skólaritara við Varmárskóla og starfaði þar í rúm 27 ár. Guðrún starfaði með Leikfélagi Mosfellssveitar áratugum saman, lengst af í stjórn félagsins. Hún var varaformaður Norræna félagsins í Mosfellsbæ um hríð og starfaði með Soroptimistaklúbbi Kjalarness. Guðrún var formaður Starfsmannafélags Mosfellsbæjar í eitt ár og var í stjórn þess um tíma. Hjónin fluttu 2016 í Gerplustræti en eftir fráfall eiginmanns árið 2017 flutti Guðrún á Hlaðhamra og bjó þar til dauðadags.

Guðrún var félagsmálakona. Starf hennar með LM var henni ánægjuefni. Hún tók þátt í fjölda sýninga og lék mörg minnisstæð hlutverk. Hún var oft aukaleikari í íslenskum kvikmyndum og þáttum. Segja má að mesta athygli hafi vakið samstarf hennar og Maríu Guðmundsdóttur við Steinþór Hróar Steinþórsson í Steindanum okkar.

Fyrir um 20 árum greindist Guðrún með sjúkdóm sem á síðustu mánuðum ágerðist og gekk henni nærri.

Útför Guðrúnar fer fram frá Fossvogskirkju í dag, 21. október 2024, kl. 13.

Elsku systir mín verður jarðsett í dag. Gunna var fjórða í röðinni af sjö fæddum börnum kærleiksríkra foreldra okkar. Elsta barnið, Hildur, dó aðeins nokkurra mánaða.

Gunna ólst upp fyrstu æviárin í Gróttu á Seltjarnarnesi ásamt eldri bræðrunum Ella og Gulla og þegar kom að skólagöngu bræðranna var flutt á fastalandið, fyrst í Bygggarð og síðar í Valhús á Melabrautinni. Sögur eldri systkina minna segja mér að oft hafi verið mikið fjör á Nesinu og mörg uppátækin. Það fjölgaði í barnahópnum, Óli bættist við, Ómar og loks ég, það var orðið þröngt í litlu húsi fyrir hópinn en allir hjálpuðust að. Eins og títt var í þá daga sinntu eldri börnin þeim yngri og þar var systir fremst í flokki. Gunna var 15 ára þegar ég fæðist og ég veit að hún tók virkan þátt í uppeldinu á mér eins og yngri bræðrum sínum. Enda mun hafa verið pískrað um það á Nesinu að hún væri mamma mín!

Þegar ég er sex ára giftist Gunna Nonna og þau flytja á Grenimelinn. Þar fæðast börnin, Baldvin Árni, Guðný María og Hjörleifur Örn. Á þessum árum er ég mikið á Grenimelnum og á þaðan margar ljúfar minningar. Stolt að passa og vera treyst fyrir að labba með eldri börnin í Silver Cross-barnavagninum. Reglulegar gönguferðir í bókabúðina á Dunhaga að sækja dönsku blöðin, Hjemmet og Familie Journal, gæðastund á eftir með systur að lesa, fá kók og prins póló. Bílaleikir með Matchbox-bílana á gólfinu á Grenó. Fá hælaháu brúðarskóna lánaða til að tipla á stéttinni og láta heyrast í hælunum. Bíltúrar og berjamór. Fyrstu sumarlaunin mín, um það bil 10 ára, þá var rauða reiðhjólið keypt.

Seinni árin, fjölskyldusamkomur þar sem Gunna fór oft með gamanmál eða vísur sem hún setti saman. Ferðir bæði innanlands og utan og þar ber hæst Ítalíuferðina til Guðnýjar og Þórs þar sem margt skemmtilegt bar fyrir augu og oft hefur verið tilefni til að rifja upp og hlæja að.

Gunna var mikill grallari, full af lífsgleði, menningarsinnuð, mikill leikari, starfaði lengi með Leikfélagi Mosfellsbæjar og sat þar í stjórn í nokkur ár. Lék í skemmtiþáttum í sjónvarpi, bíómyndum, sjónvarpsauglýsingum og ýmsu kynningarefni – og naut þess. Tók virkan þátt í félagsstarfi m.a. í Starfsmannafélagi Mosfellsbæjar og Norræna félaginu. Hafði ákveðnar skoðanir á mönnum og málefnum og var ófeimin við að láta þær í ljós.

Á árlegum þorrablótum okkar systkina var Gunna systir hrókur alls fagnaðar. Án hennar verða þorrablótin aldrei söm og áður. Grallarinn er horfinn.

Gunna var fædd undir merki ljónsins og mér hefur í gegnum tíðina stundum verið hugsað til hennar eins og umhyggjusamrar ljónynju. Gunna lét sér afar annt um systkinabörn sín, verndaði þau og bar hag þeirra fyrir brjósti eins og sinna eigin afkomenda.

Þegar eitthvað átti að gera í fjölskyldunni hringdi ég gjarnan fyrst í systu … Hennar verður sárt saknað af okkur öllum sem nutum samvista við hana lengur eða skemur.

Blessuð sé minning Gunnu systur!

Svanhildur Á.
Árnadóttir.