Úr kafla Margrétar Eggertsdóttur og Þórunnar Sigurðardóttur um skáldskap Ólafs. Tilvísunum er sleppt.
Skáldskapur Ólafs á Söndum
Í vísu Stefáns Ólafssonar um kveðskap Ólafs á Söndum [...] kemur fram að skáldskapur Ólafs innihaldi „skýrleiks andagift“ og er líklega átt við að hann hafi ort á einföldu og skýru máli þannig að allir ættu að skilja en jafnframt af innileika. Einnig segir í vísunni að ljóð listamannsins hafi mig „langseminni svipt“, þ.e. bægt burtu leiðindum.
Kvæðabókinni sem áður er nefnd skipti höfundurinn sjálfur í tvo hluta. Fyrri hlutinn hefur að geyma sálma og kvæði sem fjalla um ýmis atriði kristinnar kenningar en í síðari hlutanum eru tækifæriskvæði, erfikvæði og kvæði „um eitt og annað það sem mig hefur lyst til í kveðandi að setja, sem vel finnst hér í vegi í þessu kverkorni. Sum eru gagnlig á móti skaðsömum freistingum, hjartans angist og hugarsturlun fyrir þá sem þau vilja athuga“ (NKS 139 b 4to, 1v). Þannig gerir séra Ólafur á Söndum grein fyrir markmiði sínu með því að yrkja og lýsir því hvernig hann telur að kveðskapur hans geti orðið fólki að gagni. Eitt þessara kvæða hefst þannig:
Óð skal hefja og ekki tefja angur að kefja
og andliga skemmtun tjá.
Sá er minn vandi úr sinnis landi sút og grandi
svipta þá ég má.
Gagnsemd eykur góða
glaðvært hugarins þel
en þögn elur þanka hljóða,
þá ber að stilla vel.
Nýlega hefur verið fjallað um slík kvæði séra Ólafs sem hluta af sálgæslu presta. Færð eru rök fyrir því að skáldið hafi litið á kvæði sín sem óaðskiljanlegan hluta af köllun sinni og starfi sem prestur og sálusorgari. Kvæðin hafa ekki aðeins verið ort fyrir söfnuðinn heldur einnig handa ákveðnum einstaklingum sem þurftu á sálgæslu að halda eða huggun vegna andstreymis í lífinu.
Trúarlegur kveðskapur séra Ólafs á Söndum er fjölbreyttur. Í Kvæðabókinni eru iðrunarkvæði, kvæði ort út af Biblíunni, lofgjörðarsálmar, bænakvæði, huggunarkvæði, ljóðabréf, harmljóð, erfiljóð, barnagælur, gamankvæði, ellikvæði og henni lýkur á kvæði sem kallast „Til lesarans“.
Ólafur Jónsson var með fyrstu skáldum á Íslandi sem færðu hina nýju lútersku kenningu í bundið mál. Siðskiptin eða siðbreytingin var eins konar menningarbylting þar sem boðuð var ný stefna á öllum sviðum mannlegs lífs. Í formála Guðbrands biskups Þorlákssonar (1541-1627) að Sálmabókinni 1589 kemur skýrt fram áhugi hans á kveðskap sem hann segir að sé eins og tónlistin „ein sérleg Guðs gáfa til að uppvekja og hressa mannsins hjarta“ og sem hann vildi láta nýta í þágu hins nýja boðskapar. Guðbrand dreymdi um að á Íslandi yrðu teknir upp sömu siðir og hann taldi vera í Danmörku:
„Svo sem nú er orðin vísa og plagsiður í Danmörk og annars staðar hjá frómum guðhræddum mönnum, hvar sem maður kemur þar í gildi eða gestaboð, í erfiðishús eða aðra verkstaði, þá er oftast að heyra sálma og andligar vísur.”
Ekki er vitað til að Ólafur á Söndum hafi ort aðrar rímur en Rímur af Jerúsalems eyðileggingu. Það segir sína sögu því að rímur voru ekki sú bókmenntagrein sem Guðbrandur biskup Þorláksson og aðrir forkólfar hins lúterska siðar höfðu mestar mætur á. Rímur Ólafs fjalla hins vegar um efni sem gat ekki annað en kallast kristilegt og leyfilegt, þ.e. um eyðileggingu Jerúsalems. Þar er greint frá sögulegum atburði sem átti sér stað árið 70 e.Kr. þegar Rómverjar náðu Jerúsalem af Gyðingum og lögðu musterið í rúst. Ólafur segir í mansöng að efnið sé andlegt og lærdómsríkt og sýni hvaða afleiðingar það hefur að brjóta gegn vilja Guðs. Rímurnar eru þó ekki síst áhugaverðar vegna þess að í mansöngnum ræðir skáldið um þær breytingar sem orðið hafa á andlegu lífi og bókmenntaiðkun Íslendinga – greinilega í kjölfar siðbreytingarinnar. Áður fyrr hafði fólk gaman af kvæðum og sögum „um bardaga, víg og skemmdir“ en nú reyna skáldin af fremsta megni að láta kveðskap sinn vera í samræmi við „hreint Guðs orð og heilaga skrift“. Hjá Ólafi kemur fram að sumir hafi enn gaman af veraldlegum kveðskap en Ólafur segist ekki vilja dæma þá sem hafa slíkan smekk og engin ástæða sé til að amast við sögum sem varðveita einhvers konar fróðleik.
Heilagir hafa þann helst nú sið
heimsins skemmtan neita,
seinni tímum að sjá vel við
og sálum bjargar leita.
Læt ég samt líka mér
lofligar sögur hjá mengi
ef þær fríðleik færa með sér
og fylgi þeim skaðsemd engin.
Vel að gættu, vitugur mann,
vondum sögum og góðum
finnist þar löstur flýðu hann
en fylg þar dæmum fróðum.
Ævintýr mun ei svo ljótt
ef menn rétt því haga
að ei megi eitthvað gott
af því læra og draga.
Ólafur á Söndum birti ekki aðeins stefnu sína varðandi efnisval heldur fjallar hann líka um skáldlegt orðfæri í kveðskap sínum. Í áðurnefndu kvæði „Til lesarans“ sem er í lok Kvæðabókarinnar í sumum handritum (t.d. ÍB 70 4to) segir Ólafur að flest skáld á hans dögum kjósi að „blómga brag“ með dimmyrðum, þ.e. skreyta kveðskap sinn með torskildu orðalagi og á hann þar eflaust við að þau beiti skáldskaparmáli Snorra-Eddu og noti kenningar og heiti. Ólafur segist hafa valið að ganga þvert á þessa stefnu og ástæðan er:
Þó myrk ræðan sé mörgum gjörn
meining sína hylja,
almúgafólk og einföld börn
orka ei slíkt að skilja.
Þetta er í samræmi við það sem áður segir að Ólafur hafi lagt sig fram um að kveðskapur hans væri auðskilinn og hentaði börnum og almúga. Þrátt fyrir þetta virðist forna skáldamálið vera honum svo tamt að hann notar það stundum eins og ósjálfrátt, t.d. í fyrstu rímu Rímna af Jerúsalems eyðileggingu þegar hann segir: „Nú skal Fjölnis fræðagamm / á flug til bráðar senda“. Fjölnir er Óðinn, gammur er fugl og fuglar Óðins eru mannshugurinn. Fræðagammur Óðins er hér að öllum líkindum kvæðið sjálft. Þess má einnig geta að í biblíuljóðum sínum kallar Ólafur skáldskapinn Frosta skeið og Suðra nökkva, en Frosti og Suðri eru dvergar í Snorra-Eddu.
Þótt Ólafur hafi aðallega ort trúarleg kvæði eru nokkur veraldleg kvæði varðveitt eftir hann. Má þar nefna Feðgareisu sem ort er út af einu ævintýri Nasreddins og sýnir að hann hefur þekkt þetta austurlenska ævintýri. Þá hefur hann þýtt úr þýsku þrjú kvæði, einn sálm og tvö veraldleg vers, sem öll eru prentuð í viðauka þessarar bókar ásamt þýsku frumgerðunum. Eitt þýsku kvæðanna er skopleg söngvísa („Eitt sinn fór ég yfir Rín“) þar sem sagt er frá pilti nokkrum sem ferðast yfir Rínarfljót til fundar við stúlku. Hún neitar að hleypa honum inn í hús sitt nema hann lofi að verða hennar „til eignar“ en hann vill aðeins njóta hennar án skuldbindinga: „Ei bind ég trú við þig, ei bind ég trú við þig. / Aðeins vil ég gjarnan unna þér, / unna þér, / en eiga máttu ei mig.“ [...] Loks fer svo að þrjár systur hennar hleypa piltinum inn og fær hann þá aðrar viðtökur en hann hafði vænst. Þær fjötra hendur hans og fætur og kasta honum út um glugga en hann lendir á klöpp og slasast illa. „[B]ein í hans síðu brast í tvennt / burt fór hans lokkur einn,“ segir skáldið. Inntak kvæðisins er spaugilegt en þó er boðskapurinn augljós: léttúðarfull samskipti kynjanna borga sig ekki og geta endað með ósköpum.
Með þekktari kvæðum Ólafs er Eitt lítið drykkjuspil [...] en þar segir meðal annars:
Get ég ei annað gjald á borð
gefið þeim veita mér
en líflig kvæði og lagleg orð
sem ljúfum ber
ef líka þau manni og hringa skorð.
Hýr gleður hug minn.
Um þetta kvæði segir Páll Eggert Ólason í riti sínu Menn og menntir: „[Þ]að sýnir, að hann [Ó.J.] hefir ekki verið neinn svæsinn vandlætingamaður, ekki snortinn af öldu þeirri, sem gekk frá Hólum, heldur unnað hófsamlegri gleði.“ En einnig má halda því fram að séra Ólafur hafi einmitt verið fyrirmyndarskáld að mati Hólamanna og ekki síst Guðbrands biskups. Hann virðist fylgja forskrift hins nýja siðar út í ystu æsar og er athyglisvert að bera hann saman við önnur skáld, til dæmis samtímamanninn séra Magnús Ólafsson (um 1573-1636) í Laufási. Lögin sem fylgja kvæðum séra Ólafs hafa enn fremur átt ríkan þátt í að styrkja stefnu Guðbrands því að hann gerði sér manna best grein fyrir því hvað tónlist gat haft mikil áhrif. Kveðskapur séra Ólafs á Söndum hélt áfram að lifa með þjóðinni eftir hans dag þótt það væri einkum í handskrifuðum bókum en ekki á prenti. Sjálfsagt hafa lögin við kvæði hans haft þar mikið að segja.