Fimleikar
Bjarni Helgason
bjarnih@mbl.is
„Ég er ennþá að átta mig á þessu ef ég á að vera alveg hreinskilin,“ sagði Andrea Sif Pétursdóttir, fyrirliði íslenska kvennalandsliðsins í hópfimleikum, í samtali við Morgunblaðið í gær.
Andrea Sif og liðsfélagar hennar í kvennalandsliðinu urðu Evrópumeistarar á laugardaginn í Bakú í Aserbaísjan í fjórða sinn í sögunni en íslenska liðið fékk 53.850 stig, 0,450 stigum meira en Svíþjóð sem hafnaði í öðru sætinu en það telst mikill munur í fimleikaheiminum. Noregur hafnaði svo í þriðja sæti með 49.450 stig.
Blandað lið Íslands hafnaði í 5. sæti á mótinu og þá varð blandað ungmennalið Íslands Evrópumeistari. Ungmennalið kvenna hafnaði í 3. sæti og ungmennalið karla í 4. sæti.
Fyrirliðinn Andrea Sif setti met í Bakú í ár en hún er fyrsta konan til þess að keppa á sex Evrópumótum. Þá er þetta í annað sinn sem hún verður Evrópumeistari í fullorðinsflokki en hún var líka í liðinu sem varð síðast Evrópumeistari árið 2021 í Portúgal.
„Þetta gekk ótrúlega vel hjá okkur, bæði í undanúrslitunum og í úrslitunum. Við lentum á fótunum í öllum æfingunum okkar, ég veit hreinlega ekki hvort það hafi gerst áður hjá okkur. Við vorum með mjög reynslumikið lið í ár og það var bara ein í liðinu sem var að fara á sitt fyrsta Evrópumót. Ég myndi segja að reynslan hafi átt mjög stóran þátt í þessum árangri.
Það er allt öðruvísi að undirbúa sig fyrir stórmót og mæta svo út og ætla að framkvæma allar æfingarnar í alvöru keppni. Þú ert ekki í þínu náttúrulega umhverfi og svo fylgir þessu bæði pressa og stress. Þú þarft þessa reynslu og yfirvegun til þess að ná því besta út úr sjálfum þér og það gekk svo sannarlega,“ sagði Andrea Sif.
Stressuð vegna mótsins
Hvernig leið henni þegar úrslitin voru kunngjörð?
„Þetta var algjör geðshræring. Ég var mjög stressuð vegna þessa móts, bæði í sumar, alla vikuna fyrir mótið og daginn fyrir úrslitadaginn. Ólíkt öðrum íþróttum þá snýst þetta um eitt augnablik, augnablik þar sem maður verður að standa sig. Í mörgum íþróttum eru þetta kannski margir leikir sem þú þarft að vinna í áttina að lokamarkmiðinu en hjá okkur er allt undir á einu augnabliki. Það fylgir því mikil pressa en eftir dansinn fann ég fyrir létti.
Eins og ég sagði áðan lentum við á báðum fótum í öllum okkar æfingum og við vissum að við myndum fá mikilvæg stig fyrir það. Dansinn var samt að trufla okkur því við heyrðum engin fagnaðarlæti eftir hann. Við vorum því búnar að búa okkur undir það að við myndum ekki vinna. Við vorum því tilbúnar fyrir það sem koma skyldi en þegar úrslitin voru kunngjörð leið mér ólýsanlega.“
Tvenns konar ólík lífsreynsla
Síðast þegar Andrea varð Evrópumeistari sleit hún hásin á mótinu og gat því ekki tekið þátt í öllum æfingunum.
„Þetta var tvenns konar ólík lífsreynsla, svo mikið er víst. Ég sleit hásin í 2. umferð í æfingum á dýnu og átti stökk þar sem mér tókst ekki að lenda á fótunum. Ég veit hvað það þýðir, verandi með dómararéttindi og verandi þjálfari, að lenda ekki á fótunum og tilfinning mín var sú að ég væri búin að klúðra þessu fyrir liðið.
Ég sat ein úti í horni árið 2021, með sjúkraþjálfaranum og mótslækninum, þegar úrslitin lágu fyrir og það fyrsta sem ég fann fyrir, þegar við unnum, var léttir. Þetta var allt öðruvísi núna og ég fann fyrst og fremst fyrir gleði. Ég vissi að við hefðum skilið allt eftir á gólfinu í ár og þú uppskerð eins og þú sáir. Á sama tíma var þetta alveg jafn gaman og árið 2021.“
Andrea tjáði blaðamanni það í aðdraganda mótsins að draumurinn væri að vinna gull og hætta svo á toppnum en er hún hætt í fimleikum?
„Ég er að fara að þjálfa meistaraflokk Stjörnunnar þannig að augljóslega er ég ekki að fara keppa með þeim eitthvað á næstunni. Ég er samt ekki tilbúin að gefa það út að ég sé hætt að keppa því mér finnst mjög erfitt að taka þá ákvörðun. Ég er samt nokkuð viss um það að þetta hafi verið mitt síðasta stórmót, en aldrei að segja aldrei,“ bætti Andrea Sif við í samtali við Morgunblaðið.