Reykjalundur Endurhæfingin getur tekið marga mánuði og þurfa sumir að leita frekari endurhæfingar eftir endurhæfinguna á Reykjalundi.
Reykjalundur Endurhæfingin getur tekið marga mánuði og þurfa sumir að leita frekari endurhæfingar eftir endurhæfinguna á Reykjalundi. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Rúm tvö ár eru frá því að öllum samkomutakmörkunum var aflétt vegna kórónuveirufaraldursins. Þrátt fyrir það virðist veiran enn þann dag í dag hafa talsverð áhrif á líf fólks en um 35 manns hafa lagst inn á gigtarsvið Reykjalundar síðustu 12 mánuði vegna langvarandi áhrifa af veirunni

Birta Hannesdóttir

birta@mbl.is

Rúm tvö ár eru frá því að öllum samkomutakmörkunum var aflétt vegna kórónuveirufaraldursins. Þrátt fyrir það virðist veiran enn þann dag í dag hafa talsverð áhrif á líf fólks en um 35 manns hafa lagst inn á gigtarsvið Reykjalundar síðustu 12 mánuði vegna langvarandi áhrifa af veirunni. Þetta segir Lovísa Leifsdóttir, læknir á gigtarsviði Reykjalundar, í samtali við Morgunblaðið.

Síðustu 12 mánuði hafa 120 manns komið í endurhæfingu á gigtarsvið Reykjalundar og tæp 30% þeirra glíma við langvarandi áhrif kórónuveirunnar.

Frá því faraldurinn hófst árið 2020 hafa á þriðja hundrað leitað til Reykjalundar fyrir endurhæfingu vegna langvarandi áhrifa.

Lovísa segir að einhverjir þeirra sem hafa sótt endurhæfingu síðastliðna 12 mánuði hafi smitast af veirunni 2021/2022 og séu enn að glíma við langvarandi áhrif hennar. Þá eru dæmi um einstaklinga sem eru að koma í endurhæfingu í annað sinn vegna langvarandi áhrifa veirunnar.

Flestir þeirra sem sækja sér þjónustuna eru einstaklingar sem hafa ekki náð sér að fullu eftir veikindin en helstu einkenni langvarandi covid eru þreyta, mæði, vöðva- og liðverkir og öndunarfæraerfiðleikar.

Lovísa segir endurhæfinguna vera ólíka eftir einkennum einstaklinga en að flestir fari í iðju- og sjúkraþjálfun til þess að byggja aftur upp þol og styrk. Þá þarf einnig að aðstoða fólk við að aðlaga sig nýjum raunveruleika.

Endurhæfingin á Reykjalundi tekur alla jafna 5 til 6 vikur.

Aðspurð segir Lovísa að flest þeirra sem koma í endurhæfingu á Reykjalund vegna langvarandi covid hafi þurft að draga úr þátttöku sinni á vinnumarkaði eða hætta henni alfarið. Hún segir það mismunandi hvenær fólk getur snúið aftur á vinnumarkað en einhverjir geta ekki snúið aftur til vinnu.

„Endurhæfingin tekur oft langan tíma, jafnvel marga mánuði, þannig að það er ekki endilega séð fyrir endann á henni þegar þau fara héðan. Sumir fara í frekari endurhæfingu til dæmis hjá Virk,“ segir Lovísa.