Jórunn Ólafsdóttir fæddist 23. mars 1942 á Sandnesi við Steingrímsfjörð. Hún lést á Landspítalanum við Hringbraut 10. október 2024.

Foreldrar hennar voru Ólafur Sigvaldason frá Sandnesi, f. 1. október 1910, d. 11. október 1984, og Brynhildur Jónsdóttir frá Bjarnarnesi, f. 27. apríl 1921, d. 28. júlí 2002.

Jórunn var elst tólf systkina, systkini hennar eru Guðbjörg, f. 1943, Guðmundur, f. 1944, d. 2024, Dögg, f. 1945, Jón, f. 1946 , Sigríður, f. 1948, Nanna, f. 1950, Guðný, f. 1952, Védís, f. 1954, Sigvaldi, f. 1955, Signý, f. 1957, og Már f. 1962.

Þann 18. júní 1966 giftist Jórunn Ármanni Þór Guðjónssyni húsasmið, f. 5. september 1942. Foreldrar hans voru Guðjón Ingólfsson, f. 14. september 1912, d. 22. október 1993, og Aðalheiður Frímannsdóttir, f. 6. janúar 1923, d. 30. apríl 2008. Börn Jórunnar og Ármanns eru: 1) Óskar Þór, f. 1965, maki Berglind A. Guðjónsdóttir, f. 1966, dætur þeirra eru: a) Arna Ósk, f. 1989, börn hennar eru Jasmín Nótt, f. 2012, og Óliver Natan, f. 2021, b) Sara Lind f. 1997. 2) Andvana drengur, f. 1973. 3) Hildur Aðalheiður, f. 1979, maki Baldur Óli Sigurðsson, f. 1975, börn þeirra eru: a) Brynhildur Katla, f. 2006, b) Hrafnhildur Irma, f. 2010, og c) Ármann Steinar, f. 2012, fyrir á Baldur Óli soninn Daníel Frey, f. 2002, og á hann soninn Magnús Óla, f. 2024.

Jórunn ólst upp á Sandnesi við Steingrímsfjörð og gekk í barnaskólann í Bjarnarfirði. Hún fluttist til Reykjavíkur 15 ára og fór fljótlega að læra hárgreiðslu og hafði mikla unun af því starfi. Lengst af var Jórunn með eigin hárgreiðslustofu eða í samstarfi með vinkonum. Síðari ár starfaði hún við verslunarstörf eða þar til hún fór á eftirlaun.

Útför Jórunnar fer fram frá Hafnarfjarðarkirkju í dag, 21. október 2024, klukkan 13.

Það er ljúfsárt að rifja upp minningar, skoða myndir og fara í gegnum ferðalag þitt í gegnum lífið. Fyrst og fremst finn ég fyrir þakklæti að hafa átt þig sem mömmu. Þú kenndir mér svo margt, mótaðir mig og gerðir mig að þeirri manneskju sem ég er í dag og fyrir það er ég ævinlega þakklát.

Ég og Óskar ólumst í raun upp sem einbirni hvort um sig vegna mikils aldursbils. Foreldrar okkar gengu í gegnum erfiðan barnsmissi á milli okkar systkinanna og hafði sá missir mikil áhrif á mömmu. Í þá daga var svona reynslu sópað undir teppi og átti ekki að tala meir um það. Í námi mínu sem ljósmóðir fórum við mamma í gegnum þessa reynslu og var dýrmætt að fara í gegnum þetta með henni.

Í æsku var heimili okkar oft þétt setið af fólki hvort sem það voru kúnnar á hárgreiðslustofunni, vinkonur mömmu í kaffi eða ættingjar í heimsókn. Ég man að hún og vinkonur hennar dekruðu við mig og voru að setja rúllur í hárið og snyrta, alveg eins og mamma var að gera við þær. Við áttum yndisleg frí saman á æskuárunum, fórum í fjöldann allan af útilegum, eyddum miklum tíma á Sandnesi, æskuheimili mömmu, og veit ég enn þann dag í dag ekkert notalegra en að fara þangað og anda að mér fegursta útsýninu og sveitaloftinu. Margar helgar og sumur fóru í að smíða sumarbústað á Flúðum, allir lögðu hönd á plóg í það verkefni og áttum við margar góðar stundir þar. Á síðustu árum fórum við fjölskyldan einnig oft saman á Sandnes og náðum að fara saman til Tenerife. Dýrmæt ferð og þar var mamma brosandi kát allan tímann.

Mamma var sérstakur karakter, ákveðin og skoðanaglöð. Vinkonum mínum fannst hún t.d. köld og hrjúf í byrjun en þegar þær kynntust henni þótti þeim undurvænt um hana og kunnu að meta hreinskilnina og filterslausu konuna sem var svo mjúk og góð að innan.

Mamma var mikil hannyrðakona og var nánast alltaf með eitthvað á prjónunum. Fyrir ein jólin saumaði hún t.d. apaskinnsgalla á alla í jólapakkann og eru myndir frá þessum tíma litaðar af litagleði apaskinnsgallanna. Hún prjónaði margar peysur og heimferðasett fyrir börn og eiga margir fallegar peysur eftir hana.

Amma Jó eins og við kölluðum hana var góð amma, var umhugað um heilsu og velferð barnabarnanna. Hún kom oft í heimsókn og var góður stuðningur.

Krökkunum mínum fannst Amma Jó mikil skvísa, alltaf vel tilhöfð, glingurgjörn, vel greitt hár, rautt nagalakk og fór varla út nema með rauðan varalit. Svo kyssti hún alla beint á munninn þegar hún kom og fór og það var ekkert hægt að koma sér undan því.

Mamma var góð kona, mikil félagsvera og vildi öllum vel. Hún reyndist mér sérstaklega vel þegar ég lenti í veikindum á síðustu meðgöngu. Hún var algjörlega kletturinn í lífi mínu og þegar ég hugsa til baka veit ég ekki hvort átti meira erfitt ég eða hún. Ég á eftir að sakna elsku mömmu en veit að hún er komin á góðan stað, líður betur eftir heilsubrest síðustu ára. Hún á eftir fylgjast með okkur í fjarska. Ég er þakklát og glöð að hafa verið hjá henni þegar hún hún tók síðasta andardráttinn eins og hún var hjá mér þegar ég tók þann fyrsta.

Takk fyrir allt, þín dóttir,

Hildur.

Elsku amma Jórunn, það er eins og hjartað mitt brotni þegar ég skrifa þessi orð. Að þurfa að kveðja þig er eitt það sárasta sem ég hef gert. Þú varst ekki bara amma mín, heldur varst þú ákveðið leiðarljós í lífinu mínu, sú manneskja sem gaf mér alltaf öryggi, stuðning og ómælda ást. Sá mikli tími sem ég fékk að eyða hjá þér og afa þegar ég var lítil var og er mér svo dýrmætur, þar sem áhyggjur og ótti náði ekki til mín. Heimilið ykkar var ekki bara „heima hjá ömmu og afa“, það var griðastaður þar sem ég fann mig umvafða skilyrðislausri ást og hlýju. Þið gáfuð mér það sem ég þurfti, sannfæringu um að ég væri alltaf velkomin og ávallt elskuð. Og það var sannarlega endurgoldið.

Stundirnar okkar saman eru minningar sem ég mun alltaf varðveita. Við höfðum báðar gaman af því að eyða tíma saman og skoða hitt og þetta. Samtölin og hláturinn okkar, og það að deila þessum augnablikum með þér, er eitthvað sem mér mun alltaf þykja vænt um.

Þú kenndir mér hvernig á að sauma og hvernig á að setja ást og umhyggju í það sem maður skapar með eigin höndum. Við deildum líka áhuga á plöntum og það kenndi mér að elska náttúruna, rækta hana og njóta þess sem hún gefur.

En það sem mér þótti þó ómetanlegast var hvernig þú hafðir alltaf trú á mér, sama hvað. Þú varst alltaf til staðar fyrir mig, þú stóðst með mér og trúðir alltaf á getu mína, jafnvel þegar ég sjálf efaðist. Þessi trú þín á mig var svo dýrmæt fyrir mig, þú kenndir mér að standa með mínu fólki sama hvað, og það er veganesti sem ég hef og mun varðveita. Þú gafst mér styrk til að standa upprétt, til að trúa á mig sjálfa og gefast aldrei upp.

Þú varst ekki aðeins hlý og kærleiksrík, heldur líka ótrúlega sterk kona. Þú vissir alltaf hvað þú vildir og stóðst með sjálfri þér. Þú varst ekki hrædd við að segja það sem þú hugsaðir. Þú varst ekki bara amma mín, þú varst líka vinkona.

Það er svo margt sem ég mun sakna, kaffibollanna okkar, samræðnanna okkar um allt milli himins og jarðar, allra litlu stundanna sem fylltu hjarta mitt af gleði. Það er sárt að hugsa til þess að ég fái ekki lengur að setjast niður með þér, að ég muni ekki aftur heyra rödd þína. En ég veit að núna ert þú komin á þann stað þar sem þú átt líka heima, hjá englinum þínum sem fór of snemma. Hugmyndin um að þið séuð nú sameinuð veitir mér einhverja huggun í sorginni.

Þú ert ekki lengur í líkamanum, en þú verður alltaf með mér í anda. Allt sem þú gafst mér, ástin og styrkurinn, mun fylgja mér alla mína ævi. Þú munt lifa áfram í svo mörgu sem ég geri, í plöntunum sem ég græði, í saumaskapnum og í ástinni og tryggð sem ég gef öðrum.

Hvíldu í friði, elsku amma mín. Megir þú nú njóta þess að vera með englinum þínum og finna friðinn sem þú átt svo sannarlega skilið. Ég elska þig um alla eilífð og ég veit að við hittumst aftur einn daginn, þar sem engin skil eru lengur til.

Arna Ósk Óskarsdóttir.

hinsta kveðja

Takk elsku amma fyrir allt, við munum sakna þín rosalega mikið.

Ljúfi drottinn lýstu mér,

svo lífsins veg ég finni

láttu ætíð ljós frá þér

ljóma í sálu minni.

(Gísli Gíslason á Uppsölum)

Brynhildur Katla, Hrafnhildur Irma
og Ármann Steinar.