[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í brennidepli Hermann N. Gunnarsson hng@mbl.is

Í brennidepli

Hermann N. Gunnarsson

hng@mbl.is

Nú þegar aðeins 15 dagar eru þar til Bandaríkjamenn ganga að kjörborðinu þá má segja að Donald Trump, forsetaframbjóðandi repúblikana, sé farinn að verða örlítið líklegri til þess að vinna forsetakosningarnar.

Samkvæmt RealClearpolitics leiðir Trump nú í öllum sjö sveifluríkjum og myndi fá 312 kjörmenn kjörna á sama tíma og Kamala Harris, forsetaframbjóðandi demókrata, myndi fá 226 kjörmenn kjörna. Fylgismunurinn er þó áfram mjög lítill.

Í Pennsylvaníu, því sveifluríki sem er með flesta kjörmenn, mælist Trump með 48,1% fylgi á sama tíma og Harris mælist með 47,4% fylgi. Í Wisconsin er nánast enginn fylgismunur á frambjóðendunum en þar er Trump með 0,2 prósentustiga forskot á Harris. Í Michigan er Donald Trump að mælast með 1,2 prósentustiga forskot en upphaflega var talið að af sveifluríkjunum myndi Harris eiga einn sinn besta möguleika á sigri í því ríki.

Þegar hin fjögur sveifluríkin eru skoðuð má sjá að í Georgíu leiðir Trump með 1,8 prósentustiga forskoti og í Norður-Karólínu leiðir hann með 0,5 prósentustiga forskoti. Í Arizona er hann með 1,6 prósentustiga forskot og í Nevada er hann með 0,8 prósentustiga forskot á Harris.

Ef fylgið á landsvísu er skoðað þá er einnig farið að draga saman með þeim. Þann 4. október leiddi Harris á landsvísu með að meðaltali 2,2 prósentustiga forskoti. Nú í dag er hún hins vegar aðeins með 0,9 prósentustiga forskot á Trump og er það meðaltal 12 kannana sem hafa verið birtar síðan 8. október. Ef aðeins er litið á síðustu fimm kannanir þá leiðir Trump í fjórum á sama tíma og Harris leiðir í einni könnun.

Það er óneitanlegt að þróunin undanfarna daga er Trump í vil en áfram er gott að hafa í huga að fylgismunurinn á frambjóðendunum er í flestum tilfellum innan skekkjumarka.

Tók til starfa á McDonald’s

Trump tók til starfa í 15 mínútur á McDonald’s í Bucks-sýslu í Pennsylvaníu í gær rétt fyrir borgarafund í Lancaster. Ástæðan er sú að hann hefur haldið því fram að Harris hafi logið því að hún hafi starfað á McDonalds í háskóla. Trump hefur krafist þess að Harris færi sönnur fyrir því að hún hafi starfað hjá veitingakeðjunni, sem hún hefur ekki gert, en hann hefur heldur ekki fært neinar sannanir fyrir því að hún hafi ekki starfað á McDonalds.