Börn og barnabörn Myndataka í tilefni af sjötugsafmæli Kristjáns árið 2019. Þau fóru líka í myndatökur í tilefni af fimmtugs- og sextugsafmæli hans.
Börn og barnabörn Myndataka í tilefni af sjötugsafmæli Kristjáns árið 2019. Þau fóru líka í myndatökur í tilefni af fimmtugs- og sextugsafmæli hans.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kristján Pétur Guðnason fæddist 21. október 1949 á Akranesi. Æskuheimilið var á efri hæð Guðnabakarís sem faðir hans rak á Akranesi. Talsverður erill var á heimilinu þar sem móðir Kristjáns rak einnig verslunina Huld

Kristján Pétur Guðnason fæddist 21. október 1949 á Akranesi. Æskuheimilið var á efri hæð Guðnabakarís sem faðir hans rak á Akranesi. Talsverður erill var á heimilinu þar sem móðir Kristjáns rak einnig verslunina Huld. „Um tíma rak faðir minn einnig sælgætisgerðina Sóley og var ég mjög vinsæll meðal krakkanna á Skaganum á meðan sú starfsemi var við lýði.“

Kristján Pétur fór í sveit á sumrin í Skaftártungu og fór einnig oft sumarlangt til móðursystkina í Vestmannaeyjum. Mikill spenningur var meðal Eyjapeyja að fá Kristján Pétur til Eyja og var honum stillt upp á fótboltavöll enda alkunna að Skagamenn væru góðir í fótbolta. „Ég tel mig þó ekki hafa staðið undir væntingum í þeim efnum en æfði sund af miklum móð og var efnilegur í þeirri grein.“

Kristján Pétur lauk grunnskóla og gagnfræðaprófi á Akranesi. Hann vann á sumrin á unglingsárum hjá olíustöðinni í Hvalfirði og var einnig messagutti í millilandasiglingum á Gullfossi. Þegar Kristján Pétur var enn barn að aldri veiktist Guðni faðir hans illa og bjó hann í tæpa tvo áratugi á elliheimilinu Grund. Heimsóknir til föðurins í Reykjavík voru því tíðar. Stefanía móðir Kristjáns Péturs flutti svo til Reykjavíkur þegar Kristján Pétur hóf nám við Samvinnuskólann á Bifröst árið 1967.

Á Bifröst eignaðist Kristján Pétur vini fyrir lífstíð og kynntist þar einnig verðandi eiginkonu sinni, Sigríði, sem var árinu yngri. „Það var dásamlegt að fá að vera nemandi á Bifröst. Gerðar voru miklar kröfur til nemenda, lagt var upp úr að hafa námið sem allra hagnýtast og þar sem allir nemendur bjuggu á heimavist mynduðust sterk bönd milli nemenda. Við Sigríður kynntumst þegar hún hóf nám við skólann og ég vissi strax að hún væri sú eina rétta.“

Eftir útskrift frá Bifröst vann Kristján Pétur á Farsótt sem var gistiheimili fyrir útigangsmenn sem Vernd starfrækti. „Mér fannst mjög áhugavert að kynnast þeirri hlið mannlífsins.“ Hann fór svo í nám í ljósmyndun til Gautaborgar í Svíþjóð og lauk því námi 1971. Þau Sigríður gengu í hjónaband á Akureyri 31. ágúst 1971. Þau fluttu inn í leiguíbúð í Elliðaárdal í Reykjavík árið 1973 og voru svo heilluð af staðsetningunni að þegar Árhvammur, gamalt, lítið hús í hverfinu, var til sölu árið 1978 keyptu þau það og gerðu upp. Það hefur alla tíð síðan verið heimili fjölskyldunnar. Í fjölskyldunni er oft gert grín að því að það sé engin þörf fyrir sumarbústað þegar búið er í Árhvammi enda er lóðin feikna stór og hefur skógrækt verið stunduð þar af kappi undanfarin 45 ár.

Fyrst eftir útskrift sem ljósmyndari starfaði Kristján Pétur við handritaljósmyndun hjá Handritastofnun Árna Magnússonar í Kaupmannahöfn og svo hjá Árnastofnun áður en hann stofnaði sitt fyrsta fyrirtæki, Stúdíó 28, með félaga sínum um það leyti sem frumburðurinn leit dagsins ljós. Árið 1977 skiptu þeir fyrirtækinu upp og stofnaði þá Kristján Pétur Skyggnu hf. og annaðist almenna ljósmyndaþjónustu, auglýsingatökur og myndatökur af listaverkum. Meðal annars myndaði hann mikið fyrir Samband íslenskra samvinnufélaga (SÍS) þar sem forustumenn þar þekktu til hans sem fyrrverandi nemanda á Bifröst. Það hafi heldur ekki spillt fyrir að Sigríður eiginkona hans er ættuð frá Ystafelli í Köldukinn þar sem SÍS var stofnað. „Það var mikill munur fyrir sjálfstæðan ljósmyndara í nýstofnuðu fyrirtæki að hafa svo stóran viðskiptavin sem Sambandið var fyrstu árin í rekstri.“

Kristján Pétur stofnaði Passamyndir á Hlemmi árið 1980 og er það fyrirtæki enn stærsta passamyndastofa landsins, nú í Hlíðarsmára í Kópavogi og rekur jafnframt passamyndasjálfsala á nokkrum stöðum á höfuðborgarsvæðinu. Starfsemi Skyggnu og Passamynda stækkaði og breyttist eftir því sem árin liðu og varð ævistarf Kristjáns og Sigríðar, og nú hafa börn þeirra tekið við keflinu að nokkru leyti. „Það var mín mesta gæfa í atvinnurekstri að hafa unnið með traustu og góðu fólki sem hefur haldið tryggð við mig.“ Þess má geta að sá starfsmaður sem lengst hefur unnið fyrir fyrirtækið var við störf hjá þeim í tæp 40 ár.

Helstu áhugamál Kristjáns Péturs eru ljósmyndun, útivera, garðyrkja og líkamsrækt. Þau hjónin hafa einnig ferðast mikið, innanlands sem utan og vörðu miklum tíma með ættingjum og vinum á Akureyri og í Mývatnssveit. Eins fóru þau í nokkrar ferðir til Asíu. „Þær ferðir voru einstaklega heillandi, sérstaklega ferðirnar til Mjanmar og Víetnam.“ Kristján Pétur hefur jafnframt verið félagi í Rotary til margra ára.

Fjölskylda

Eiginkona Kristjáns Péturs er Sigríður Árnadóttir, f. 28.4. 1950, skrifstofukona. Þau eru búsett í Árhvammi við Rafstöðina í Elliðaárdal. Foreldrar Sigríðar eru hjónin Árni Kristjánsson frá Finnsstöðum í Köldukinn, menntaskólakennari og skjalavörður, f. 12.7. 1915, d. 4.7. 1974, og Hólmfríður Jónsdóttir frá Ystafelli í Köldukinn, húsfreyja, bókavörður og Kvennalistakona, f. 4.2. 1921, d. 11.8. 2008. Þau voru lengst af búsett á Akureyri.

Börn Kristjáns Péturs og Sigríðar eru 1) Hólmfríður Kristjánsdóttir, f. 29.4. 1973, lögmaður í Kópavogi, gift Barða Halldórsssyni málara og eiga þau synina Daníel Breka, f. 1998, Kristján Pétur, f. 2002 og Tómas Orra, f. 2006; 2) Guðni Dagur, f. 6.1. 1976, framkvæmdastjóri í Reykjavík, kvæntur Ölmu Sigurðardóttur arkitekt og eiga þau Magnús Dag, f. 2017. Dætur Guðna af fyrra hjónabandi eru Arnrún María, f. 1999, trúlofuð Óskari S. Ingvarssyni og eiga þau dótturina Soffíu Guðrúnu, f. 2024 og Lára Stefanía, f. 2004; 3) Stefán Pétur, f. 5.3. 1984, rekstrarstjóri í Reykjavík, kvæntur Helgu Hallgrímsdóttir og eiga þau börnin Martein Pétur, f. 2009 og Helenu Ósk, f. 2015.

Systkini Kristjáns Péturs eru Jónína Guðnadóttir, f. 16.9. 1943, leirlistarkona í Hafnarfirði, og Sigurður Pétur Guðnason, f. 3.5. 1946, rafvirki og kennari í Hafnarfirði.

Foreldrar Kristjáns Péturs voru Stefanía Sigurðardóttir, f. 2.6. 1921, d. 18.7. 2004, rak verslunina Huld á Akranesi og var svo aðstoðarkona tannlæknis í Reykjavík, og Guðni Dagur Kristjánsson, f. 20.8. 1918, d. 12.11. 1972, bakarameistari og konditori á Akranesi og í Reykjavík. Seinni eiginmaður Stefaníu og stjúpi Kristjáns Péturs var Árni Guðmundur Andrésson, f. 18.3. 1927, d. 3.8. 2002, kennari á Akranesi og skrifstofumaður í Reykjavík.