Niðamyrkur hefur verið frá því á föstudag á Kúbu vegna hruns raforkukerfis landsins, nema á nokkrum hótelum þar sem vararafstöðvar hafa séð fyrir rafmagni. Á sama tíma stefndi fellibylurinn Oscar að eyjunni norðaustanverðri í gær og mikið óðagot var við að reyna að koma fólki í skjól og verja mannvirki við afar slæmar aðstæður.
Viðvarandi rafmagnsleysi er nú búið að vera á eyjunni í fjölda daga, allt að 20 tíma á sólarhring í sumum héruðum. Efnahagsástand á eyjunni er í kaldakoli og vegna rafmagnsleysis hefur skólum verið lokað og allri opinberri þjónustu sem þykir ekki bráðnauðsynleg verið hætt.
Efnahagsleg óstjórn
Himinhá verðbólga, skortur á fjárfestingum, skortur á mat, lyfjum, eldsneyti og jafnvel vatni er viðvarandi ástand í landinu. Þegar bætast ofan á þetta gamlir og lélegir innviðir og hert viðskiptabann Bandaríkjanna er staðan ekki björt. Ástandið í landinu þykir ekki hafa verið verra frá því að Sovétríkin liðu undir lok. Þó yfirvöld Kúbu kenni viðskiptabanni Bandaríkjanna um ástandið, leikur efnahagsleg óstjórn stórt hlutverk í erfiðu ástandi landsins.
Margir íbúar hafa gefið upp alla von um að eitthvað breytist á eyjunni þar sem meðalmánaðarlaun eru aðeins fimm þúsund pesóar sem er undir 6.000 íslenskum krónum. Ekki fleiri hafa reynt að flýja land síðan í byltingunni 1959 sem leiddi Fidel Castro til valda. Meira en 700.000 komust inn í Bandaríkin, löglega eða ólöglega, á milli janúar 2022 og ágúst 2024, að sögn bandarískra embættismanna og manntalið árið 2024 sýnir að íbúum eyjunnar hefur fækkað um meira en milljón frá árinu 2012.