5 Þráinn Orri Jónsson sækir að finnska liðinu á Ásvöllum í gær.
5 Þráinn Orri Jónsson sækir að finnska liðinu á Ásvöllum í gær. — Morgunblaðið/Ólafur Árdal
Birkir Snær Steinsson var markahæstur hjá Haukum þegar liðið hafði betur gegn Cocks frá Finnlandi í 32-liða úrslitum Evrópubikars karla í handknattleik í fyrri leik liðanna á Ásvöllum í Hafnarfirði í gær

Birkir Snær Steinsson var markahæstur hjá Haukum þegar liðið hafði betur gegn Cocks frá Finnlandi í 32-liða úrslitum Evrópubikars karla í handknattleik í fyrri leik liðanna á Ásvöllum í Hafnarfirði í gær.

Leiknum lauk með níu marka sigri Hauka, 35:26, en Birkir Snær gerði sér lítið fyrir og skoraði sjö mörk í leiknum.

Haukar byrjuðu leikinn betur og leiddu með sex mörkum, 7:1, eftir tíu mínútna leik. Cocks tókst að minnka Hauka í fimm mörk eftir tæplega tuttugu mínútna leik en Haukar voru sterkari á lokamínútum fyrri hálfleiks og leiddu með sjö mörkum í hálfleik, 18:11.

Hafnfirðingar héldu uppteknum hætti í síðari hálfleik og voru miklu sterkari aðilinn. Þráinn Orri Jónsson kom Haukum þrettán mörkum yfir, 32:19, þegar tíu mínútur voru til leiksloka en Finnunum tókst aðeins að laga stöðuna á lokamínútunum.

Þráinn Orri og Skarphéðinn Ívar Einarsson skoruðu fimm mörk hvor fyrir Hauka og þá varði Aron Rafn Eðvarðsson 13 skot í markinu, þar af eitt vítakast.

Síðari leikur liðanna fer fram í Riihimäki í Finnlandi, laugardaginn 26. október, og mega Haukar tapa með átta marka mun til þess að komast áfram í 16-liða úrslitin.