Geir Ágústsson verkfræðingur skrifar á blog.is um leikskólann Brákarborg sem hafi verið opnaður í endurgerðu húsnæði árið 2022.
„Framkvæmdin er Breeam-vottuð og hlaut Grænu skófluna fyrir umhverfisvæna hönnun. Breeam-vottun þýðir að framkvæmdin skorar hátt á hinum svokölluðu ESG-mælikvörðum sem samtök milljarðamæringa og stjórnmálamanna halda mjög á lofti og verðlauna sýndarmennsku umfram allt. Með alla þessa áherslu á dyggðir og umhverfisvernd kemur nánast ekki á óvart að hönnun burðarvirkis hafi leikið aukaatriði,“ segir Geir.
Hann telur að þetta sé mögulega mjög góður lærdómur í víðara samhengi um „allskyns vottanir sem engu skila nema kostnaði“.
Og hann bætir við: „Við ættum að vinna að því að leggja niður jafnlaunavottanir og hætta að hugsa um hringrásarhagkerfi sem kallar á sorpflokkun niður í öreindir, hætta að skerða orkuinnihald eldsneytis og skattpína hagkvæmar bifreiðir á meðan lúxusbifreiðir efnafólks eru niðurgreiddar. Hætta að reyna að bjarga öllum fátækum heimsins með velferðarkerfi lands sem hefur færri en hálfa milljón íbúa. Yfirgefa Mannréttindadómstól Evrópu og Parísarsamkomulagið. Með öðrum orðum að taka reynsluna af Brákarborg alla leið: Hætta dyggðaflöggun og snúa aftur til raunveruleikans þar sem hús standa, fólk fær að henda ruslinu í ruslatunnuna og bíllinn sýgur ekki í sig allt rekstrarfé heimila.“