Árni Sigurðsson
Enska hugtakið „Sovereign AI“, eða Þjóðgreind á íslensku, vísar til gervigreindarkerfa sem eru þróuð og stjórnuð af þjóðríkjum til að mæta innlendum þörfum, vernda gögn og efla þjóðarhagsmuni. Lönd eins og Kína, Indland og Sádi-Arabía, auk Evrópusambandsins, eru þegar farin að þróa tækni á sviði Þjóðgreindar til að tryggja stafrænt sjálfstæði og vernda innlenda hagsmuni. Þessari grein er ætlað að kynna möguleikana fyrir hagsmuni Íslands.
Með áherslu á innviði, gagnavernd, þjóðaröryggi og menningarlega sérstöðu, þar á meðal sögu og tungumál, eru lagðar fram markvissar áætlanir sem leggja áherslu á sjálfstæði frá erlendum tæknirisum á sviði gervigreindar. Ólíkt alþjóðlegum gervigreindarverkefnum frá fyrirtækjum eins og OpenAI, Meta eða Google myndi Þjóðgreind einblína á sérþarfir og sérhagsmuni landsins, auk menningarlegrar sérstöðu.
Hægt er að ímynda sér Þjóðgreind sem eins konar „Landsvirkjun“ þekkingar. Líkt og Landsvirkjun framleiðir orku fyrir landið, myndi Þjóðgreind framleiða og miðla vitsmunum til bæði stórra og smárra notenda. Í stað þess að „stinga í samband“ fyrir rafmagn myndum við í framtíðinni tengjast til að fá aðgang að vitsmunalegri þjónustu.
Þjóðgreind gæti haft margvíslegan hagnýtan ávinning. Hér eru kynnt nokkur dæmi, sem eru þó aðeins brot af möguleikunum.
Þjóðleg sjálfbærni í stafrænum heimi
Með Þjóðgreind gæti Ísland tryggt gagnaöryggi og sjálfstæði í stafrænu umhverfi. Tæknin myndi efla opinbera þjónustu, auka öryggi og stuðla að nýsköpun á sviðum eins og heilbrigðisþjónustu, menntunar, stjórnsýslu og menningar.
Sérsniðnar forvarnir í heilbrigðisþjónustu
Þjóðgreind gæti umbreytt heilbrigðiskerfinu með notkun stórgagna og skynjaratækni. Borgarar gætu haft aðgang að persónulegum heilsufarsgögnum í gegnum kerfi líkt og Heilsuveru. Með snjalltækjum gætu einstaklingar fylgst með heilsufarsvísum eins og blóðþrýstingi og blóðsykri. Þessi rauntímagögn gæti Þjóðgreind notað til að greina áhættu og veita ráðgjöf áður en veikindi koma fram, sem eykur möguleika á fyrirbyggjandi heilsuvernd.
Persónubundin menntun
Í menntakerfinu gæti Þjóðgreind þróað einstaklingsmiðaðar námsleiðir. Kerfið myndi greina frammistöðu nemenda, aðlaga kennsluefni og bjóða upp á sérhæfð verkefni eftir þörfum. Nemendur með erfiðleika í ákveðnum fögum fengju aukinn stuðning, á meðan aðrir gætu fengið flóknari áskoranir. Kennarar myndu einnig njóta góðs af innsýn kerfisins til að veita markvissari kennslu, sem gæti dregið úr brottfalli og bætt námsárangur.
Skilvirkari opinber stjórnsýsla
Með stafrænni vitvæðingu gæti Þjóðgreind einfaldað stjórnsýslu. Almenningur gæti leyst flest erindi með aðstoð stafræns ráðgjafa sem byggir á gervigreind. Verkefnið Stafrænt Ísland hefur þegar lagt grunn að bættri stafrænni þjónustu, og með samruna þess við Þjóðgreind mætti auka sjálfvirkni, öryggi gagna og aðgengi að sérsniðinni þjónustu.
Verndun tungumáls, menningar og arfleifðar
Þjóðgreind gæti stuðlað að varðveislu íslenskrar tungu og menningar í stafrænum heimi þar sem enska er oft ráðandi. Með þróun sérhæfðs íslensks mállíkans yrði tungumálið betur varið í stafrænum miðlum og auðveldara fyrir aðra að læra það, sem styrkir menningarlega sjálfsmynd þjóðarinnar.
Persónuleg aðstoð gervigreindar
Hver Íslendingur gæti notið góðs af persónulegri gervigreindaraðstoð sem auðveldar daglegt líf. Slík aðstoð gæti stýrt verkefnum, skipulagt dagatalið, gefið ráðleggingar um heilsu og fjármál og jafnvel stjórnað heimilistækjum. Þetta myndi einfalda dagleg störf og gefa fólki meiri tíma til annarra hluta.
Horft til framtíðar
Tækniframfarir eru örar, og þessi framtíð er ekki eins fjarlæg og hún kann að virðast. Þó að verkefnið sé umfangsmikið og krefjist verulegra fjárfestinga í innviðum, þróun og þjálfun, gæti Ísland, með réttum skrefum, orðið leiðandi í þróun Þjóðgreindar. Til að ná árangri þarf að tryggja ábyrga meðferð gagna og byggja upp traust almennings.
Ef vel tekst til gæti Ísland orðið eitt af fyrstu löndum heims til að innleiða eigin Þjóðgreind. Þetta myndi ekki aðeins þjóna hagsmunum þjóðarinnar heldur einnig setja fordæmi fyrir önnur smáríki um stafrænt sjálfstæði. Framtíðin er handan við hornið, og með Þjóðgreind gæti Ísland tekið stór skref inn í stafrænan heim þar sem sjálfstæði, nýsköpun og menning fara saman.
Höfundur er leiðsögumaður og fv. framkvæmdastjóri Stjórnunarfélagsins.