Óskar Bergsson
oskar@mbl.is
Helgin var sannarlega viðburðarík í íslenskri pólitík. Tvíeyki úr þríeykinu svokallaða, þau Alma Möller og Víðir Reynisson, lýstu því yfir að þau yrðu í oddvitasætum hjá Samfylkingunni. Sigríður Andersen fyrrverandi dómsmálaráðherra og Snorri Másson fjölmiðlamaður gengu til liðs við Miðflokkinn og verða í framboði í Reykjavík. Þá lýsti Erna Bjarnadóttir, fyrrum aðstoðarframkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands, því yfir að hún sæktist eftir að leiða lista Miðflokksins í Suðurkjördæmi.
Sanna Magdalena Mörtudóttir borgarfulltrúi tilkynnti í gær að hún verður í fyrsta sæti í Reykjavíkurkjördæmi suður fyrir Sósíalistaflokkinn. Hún segist vera þakklát fyrir það traust sem henni sé sýnt með því að vera kosin pólitískur leiðtogi flokksins á sviði Alþingis og borgarstjórnar.
Þekktir frambjóðendur
Alma Möller var skipuð landlæknir árið 2018 og er fyrsta konan sem gegnir embættinu. Víðir Reynisson sviðsstjóri almannavarna segist alla tíð hafa verið jafnaðarmaður.
Sigríður Á. Andersen segist hafa fylgst með Miðflokksmönnum sem hafi verið með áherslur sem séu í samræmi við hennar sjónarmið. „Ég er ekki að flýja Sjálfstæðisflokkinn. Ég er miklu frekar að líta á þetta sem tækifæri til að fjölga málsvörum tiltekinna sjónarmiða á þinginu. Sjónarmiða sem hafa komið fram hjá Miðflokknum að mínu mati með hvað skýrustum hætti,“ sagði hún í gær.
Snorri Másson segir að að hans mati sé Miðflokkurinn það stjórnmálaafl sem sé langlíklegast til þess að standa vörð um heilbrigða skynsemi í íslenskum stjórnmálum.