Þingmenn þurfa að hafa burði til að taka sjálfstæða afstöðu til mála

Stjórnmálaflokkarnir eru í óðaönn að raða á lista sína fyrir komandi kosningar og tekst misvel upp. Sums staðar er í flestum eða öllum tilvikum stuðst við kosningu flokksmanna, prófkjör eða kosningu á fundi líkt og Sjálfstæðisflokkurinn bauð upp á um helgina í fjórum kjördæmum af sex. Í Reykjavíkurkjördæmunum verður kjörnefnd falið að raða á lista þess flokks.

Píratar hyggjast beita prófkjöri á netinu eins og þeir hafa áður gert en margir flokkar raða á lista sína eftir öðrum aðferðum og stundum óljósum og tilkynna um helstu sæti eftir því sem í þau er valið. Þá er gjarnan reynt að bjóða upp á þekkta einstaklinga en ekki endilega fólk sem vitað er til að hafi þá þekkingu, reynslu eða víðtækan áhuga á þjóðmálum sem þörf er á inni á Alþingi. Hvað þá að viðkomandi hafi fram til þessa aðhyllst þá pólitísku stefnu sem viðkomandi flokkur kennir sig við. En í staðinn er sagt að gott sé að tefla fram einhverju óvæntu, og ef til vill mun það reynast vel í komandi kosningum. Þó er ekki hægt að útiloka að kjósendur leitist við að meta innihaldið og hversu trúverðugt viðkomandi framboð er með þeirri uppstillingu sem boðið verður upp á.

Í blaðinu í dag er í fréttaskýringu vikið að þeim miklu umskiptum sem orðið hafa á Alþingi í undanförnum kosningum miðað við það sem áður þótti hæfilegt. Á árum áður var um fjórðungi og síðar þriðjungi þingmanna skipt út í hverjum kosningum, en frá árinu 2009 hefur þetta verið nær helmingi, því að 42% þingmanna hafa verið nýliðar að kosningum loknum að meðaltali. Í kosningunum 2016 var þetta hlutfall rúm 50%. Ef fram fer sem horfir um röðun á lista er ekki útilokað að það met verði slegið nú en í öllu falli er ljóst að endurnýjunin verður mikil.

Vissulega er endurnýjun nauðsynleg í hverjum kosningum, en eftir hálfan annan áratug af svo hröðum umskiptum er vafasamt að framhald á slíku verði til bóta fyrir störf þingsins. Reynsla skiptir máli á Alþingi eins og annars staðar og dragi um of úr reynslu og þekkingu er hætt við að aðrir taki völdin, líkt og gerst hefur að nokkru leyti á undanförnum árum þar sem embættismenn, hér á landi og erlendis, hafa fært sig upp á skaftið en kjörnir fulltrúar hafa gefið eftir. Í þessum efnum sem öðrum þarf skynsamlegt jafnvægi að ríkja og flokkarnir mættu hafa það í huga við val þeirra oddvita og lista sem eftir eru.