Anton Guðjónsson
Óskar Bergsson
Fimm þingmenn Sjálfstæðisflokksins töpuðu sætum sínum á lista og verða að óbreyttu ekki í kjöri í alþingiskosningunum í lok næsta mánaðar. Kjördæmaráð flokksins héldu í gær kjördæmisþing í öllum kjördæmum nema í Reykjavíkurkjördæmunum.
Bjarni Benediktsson formaður flokksins sagði það hafa verið mjög ánægjulegt hve mikill kraftur hefði færst í öll kjördæmin og hvað þingin hefðu verið fjölmenn.
Segir hann að á listunum megi finna blöndu af reyndu fólki og nýjum oddvitum sem þó hafi sterkan bakgrunn til þess að taka að sér þingmennsku. Alltaf sé hægt að gera ráð fyrir því að breytingar verði þegar lífi sé hleypt í flokksstarfið með röðun, líkt og nú var gert.
„Við erum að fá hér gríðarlega kraftmikla nýja oddvita í Norðvestur- og Norðausturkjördæmi. Ég er ánægður að sjá að Njáll Trausti ákvað að halda áfram og gefa kost á sér í annað sætið. Jens kemur mjög ferskur inn í Norðausturkjördæmið og vinnur sterkan sigur sem nýr oddviti þar," sagði Bjarni meðal annars við Morgunblaðið í gær.
„Ólafur Adolfsson er auðvitað þekktur leiðtogi af Skaganum og var sjálfkjörinn í oddvitasætið og ég hlakka til að vinna með honum og sama gildir með Björn sem kom í annað sætið.“
Bjarni var sjálfkjörinn í fyrsta sæti flokksins í Suðvesturkjördæmi og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir hafði betur gegn Jóni Gunnarssyni í baráttunni um annað sætið. Jón gaf ekki kost á sér í önnur sæti á lista og má því ætla að hann kveðji Alþingi eftir 17 ár á þingi. Kom sú ákvörðun Bjarna á óvart og sagðist Þórdís Kolbrún mundu sjá eftir Jóni. Sagði Bjarni þá einnig það vera tímamót að Óli Björn Kárason hefði ákveðið að gefa ekki kost á sér.
Alþingismennirnir Ásmundur Friðríksson og Birgir Þórarinsson náðu ekki kjöri í Suðurkjördæmi en Guðrún Hafsteinsdóttir leiðir lista flokksins þar. Ásmundur hefur verið þingmaður flokksins frá árinu 2013. Hann bauð sig fram í 3. sæti en fékk færri atkvæði en Ingveldur Anna Sigurðardóttir, lögfræðingur og varaþingmaður, sem einnig sóttist eftir 3. sæti. Birgir hefur verið þingmaður frá árinu 2017, lengst af fyrir Miðflokkinn en svo fyrir Sjálfstæðisflokk.
Þá laut Teitur Björn Einarsson í lægra haldi í kosningu í 2. sæti á lista flokksins í Norðvesturkjördæmi en hann hefur verið þingmaður Sjálfstæðisflokksins frá árinu 2016.
Berglind Ósk Guðmundsdóttir alþingismaður náði ekki kjöri í Norðausturkjördæmi, en hún hefur verið þingmaður Sjálfstæðisflokksins frá árinu 2021.