Formaður „Okkar félagsfólk, rétt eins og allir landsmenn, nýtir sér opinbera þjónustu; og þrátt fyrir fólksfjölgun hafa þeir innviðir ekki verið styrktir eins og þarf,“ segir Ingibjörg Sif Sigríðardóttir, nýr formaður Sameykis.
Formaður „Okkar félagsfólk, rétt eins og allir landsmenn, nýtir sér opinbera þjónustu; og þrátt fyrir fólksfjölgun hafa þeir innviðir ekki verið styrktir eins og þarf,“ segir Ingibjörg Sif Sigríðardóttir, nýr formaður Sameykis. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
„Á Alþingi verður með öðru að reka verkalýðspólitík; mikilvægt er að þar eigi launafólk sína fulltrúa. Talsmenn sem gæta hagsmuna þeirra sem vinna störf og skapa verðmæti. Í stjórnmálum eru lagðar línur að því hvernig samfélagsmálum er skipað…

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

„Á Alþingi verður með öðru að reka verkalýðspólitík; mikilvægt er að þar eigi launafólk sína fulltrúa. Talsmenn sem gæta hagsmuna þeirra sem vinna störf og skapa verðmæti. Í stjórnmálum eru lagðar línur að því hvernig samfélagsmálum er skipað og þar verður rödd launafólks að heyrast, fremur en sjónarmið sérhagsmunanna. Stéttastjórnmál þurfa aftur að komast á dagskrá,“ segir Ingibjörg Sif Sigríðardóttir, nýr formaður Sameykis.

Heildarsamtökin eru leiðandi afl

Alls um 14.000 virkir félagsmenn eru í Sameyki – stéttarfélagi í almannaþjónustu sem varð til fyrir sex árum við sameiningu Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar og SFR, stéttarfélags í almannaþjónustu. Þetta er stærsta og fjölmennasta aðildarfélagið innan BSRB og lengi hefur gilt sú hefð að 1. varaformaður bandalagsins komi úr röðum Sameykis eða fyrirrennara þess. Á þessu hefur nú orðið breyting. Þórarinn Eyfjörð sem lengi hafði verið formaður Sameykis lét af formennsku í síðustu viku, það er í kjölfar þess að hann náði ekki að halda embætti varaformanns BSRB. Í hans stað er komin Ingibjörg Sif sem mörg undanfarin ár hefur setið í stjórn Sameykis – og verið varaformaður frá 2021.

„Í þátttöku minni í félagsmálum hefur í raun eitt leitt af öðru,“ segir Ingibjörg Sif. „Árið 2009 var ég beðin um að vera trúnaðarmaður starfsfólks Orkuveitu Reykjavíkur sem var í starfsmannafélagi borgarinnar. Ári seinna var mörgum í þeim hópi sagt upp og þar fékk ég í hlutverki trúnaðarmanns í raun mína eldskírn í baráttu fyrir launafólk. Af því ferli lærði ég margt sem hefur nýst vel í störfum síðustu árin fyrir Sameyki, þar sem ég er nú komin í forystuna.“

Eins og málum er nú háttað er mikilvægt, segir Ingibjörg, að styrkja að nýju tengsl og samstarf BSRB. Í ýmsum efnum sé vagninn dreginn á vettvangi heildarsamtakanna, sem sé leiðandi afl í hagsmunabaráttu opinbers starfsfólks.

Samtakamáttur heildarinnar

„Við gerum ekkert ein; samtakamáttur og slagkraftur felst í þátttöku í starfi heildarinnar á sameiginlegum vettvangi,“ segir Ingibjörg um hlutverk Sameykis. Í hópi félagsfólks eru nærri 60% félagsfólks milli tvítugs og fertugs. Konur eru þar í meirihluta. Gjarnan er þetta fólk sem starfar í velferðar- og grunnþjónustu sveitarfélaga og ríkis og barátta stéttarfélagsins tekur þá mið af hagsmunum þess. Félags- og heilbrigðisþjónusta og húsnæðismál eru dæmi um málflokka sem Sameyki lætur til sín taka.

„Einnig er nauðsynlegt fyrir okkar stéttarfélag að hafa rödd og styrk til að geta gagnrýnt þær ákvarðanir stjórnvalda sem snerta okkar félagsfólk. Okkar félagsfólk, rétt eins og allir landsmenn, nýtir sér opinbera þjónustu; og þrátt fyrir fólksfjölgun hafa þeir innviðir ekki verið styrktir eins og þarf. Allir finna fyrir þeirri svelti- og niðurskurðarstefnu sem stjórnvöld reka og bitnar á öllum. Svo gengur ekki að alltaf sé seilst í vasa launafólks þegar afla skal fjármuna til að reka samfélagslega grunnþjónustu. Sanngirni ætti að vera leiðarljós við alla skattheimtu, hvort heldur sem hún er af tekjum eða nýtingu auðlinda.“

Vöku sé haldið

Nýlega var lagt fram á Alþingi frumvarp til laga um breytingu á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur. Þingmenn Sjálfstæðisflokks, með Teit Björn Einarsson sem fyrsta flutningsmann, standa að frumvarpinu þar sem gert er ráð fyrir að heimildir ríkissáttasemjara verði efldar svo sem til að leggja fram miðlunartillögur í kjaradeilum. Þá hafa þingmenn úr sama flokki, þar sem Óli Björn Kárason fer fremstur, lagt fram frumvarp um félagafrelsi á vinnumarkaði. Inntak þess er að fólk skuli jafnan hafa rétt til þess að stofna og ganga í þau stéttarfélög sem það velur, óheimilt sé að draga frá gjöld í stéttarfélagi nema með skýru og ótvíræðu samþykki viðkomandi starfsmanns, sem ekki megi skylda til inngöngu í tiltekið félag.

Ósennilegt er nú, þegar þing hefur verið rofið og boðað til kosninga, að þessi frumvörp fái framgang í bráð. Ingibjörg Sif segir slíkt þó ekki breyta stóru myndinni, sem er sú að tillögugerð þessi strái fræjum efasemda og veiki stöðu launafólks. Að ríkissáttasemjari fái auknar valdheimildir með því að leggja fram miðlunartillögur sem ganga að verkfallsréttinum, því mikilvæga vopni launafólks, er óhugsandi í verkalýðshreyfingunni. „Verkalýðshreyfingin þarf að halda vöku sinni og stíga inn þegar sótt er að kjörum, réttindum og stöðu umbjóðenda hennar. Því verkefni lýkur aldrei,“ segir formaðurinn. Eitt af helstu verkefnum í baráttu launafólks síðustu ár er stytting vinnuvikunnar. Hjá fólki í opinbera geiranum er dagvinna í hverri viku komin niður í 36 klukkustundir og unnir tímar vaktavinnufólks í viku hverri eru 32 tímar samkvæmt nýgerðum kjarasamningum á opinberum vinnumarkaði.

„Þetta eru mikilvægir áfangar sem gerðir eru í krafti heildarsamninga BSRB og hefur bandalagið leitt þessa vinnu. Útfærslan er svo tekin á hverjum vinnustað og þá stundum með aðstoð stéttarfélags. Þetta hefur breytt miklu í starfsumhverfi launafólks. Gæðastundir utan vinnu eru fólki sífellt dýrmætari; allt almennt gildismat samfélagsins er á þann veg,“ segir Ingibjörg og að síðustu:

Hugað verði að fjarvinnu

„Við þurfum einnig að huga að fyrirkomulagi um fjarvinnu í framtíðinni sem margir stunda nú og kom sterkt inn í heimsfaraldrinum. Víðast hvar er slíkt starf í dag tekið með samkomulagi sem starfsmaður og yfirmenn hans gera sín í milli. Samt er nauðsynlegt að taka þetta lengra og formgera. Við sjáum til á hvaða vettvangi það verður gert; með stofnanasamningum, í kjaraviðræðum eða öðru. Reynsla af fjarvinnu, kannski 1-2 daga í viku þar sem því verður komið við, er góð. Þetta gera vissulega margir. Afköstin aukast og starfsánægja verður meiri og með slíku er mikið fengið.“

Hver er hún?

Ingibjörg Sif Sigríðardóttir er fædd árið 1970 og að mestu alin upp í Reykjavík. Hún er stúdent frá Verzlunarskóla Íslands. Hóf fljótlega eftir það störf hjá fyrirrennara Orkuveitu Reykjavíkur og hefur unnið þar fram á þennan dag. Hún hefur setið í stjórn Sameykis frá 2014. Einnig verið virk í foreldra- og íþróttastarfi í Grafarvogshverfi í Reykjavík, þar sem fjölskyldan býr.