Halldór Óttarsson fæddist í Reykjavík 12. júní 1977. Hann lést á krabbameinsdeild Landspítalans 30. september 2024.
Foreldrar hans eru Óttar Eggertsson prentari, f. 29. desember 1949, d. 30. júní 2024, og Elín Anna Scheving Sigurjónsdóttir, f. 4. febrúar 1951. Systkini Halldórs eru: 1) Sigurjón Vignir, f. 5. júní 1975, barnsmóðir hans var Hildur Björk Einarsdóttir, f. 16. desember 1975, d. 19. mars 2020. Börn þeirra eru Anna, f. 18. maí 2003, og Andri Snær, f. 28. desember 2004. 2) Svava, f. 4. mars 1979, maki Gunnar Axel Hermannsson, f. 5. júlí 1977. Börn þeirra eru: Lovísa Rakel, f. 21. nóvember 2004, Brynjar Kári, f. 19. janúar 2008, og Elín Sara, f. 26. júlí 2012.
Halldór var í sambandi með Kaethe Sabr, f. 4. nóvember 1982.
Halldór ólst upp í Reykjavík og gekk í Hólabrekkuskóla. Hann lærði húsasmíði í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti og vann hann lengst af hjá Sérverki.
Útför Halldórs fer fram frá Lindakirkju í Kópavogi í dag, 21. október 2024, klukkan 13.
Ég trúi ekki enn að þú sért farinn frá okkur. Hvað lífið getur verið ósanngjarnt. Ég á engin orð til að lýsa sársaukanum og söknuðinum. Ekkert verður eins og það var.
Ekki eru nema þrír mánuðir síðan pabbi okkar lést og er ég viss um að hann hefur tekið vel á móti þér.
Dóri var mikill mannvinur og með svo fallega sál. Hann var frábær bróðir og einn minn besti vinur. Ég mátti ekki alltaf vera með bræðrum mínum í leik þegar við vorum lítil en það breyttist nú með árunum.
Ég gat alltaf leitað til hans og hefði hann gert allt fyrir mig. Við skildum hvort annað og tengdumst svo sterkum böndum.
Hann hefur alltaf verið mjög virkur og ekki hægt að segja annað en að hann hafi lifað lífinu lifandi.
Útivistin átti hug hans allan, hvort sem það voru göngur upp á fjöll og jökla, skíðaferðir, hjólaferðir eða hlaup, hérlendis og erlendis. Ef ekki væri fyrir hans hjálp hefði ég aldrei komist upp Esjuna eða að fyrsta gosinu því hann hjálpaði mér skref fyrir skref að komast þetta þrátt fyrir mikla lofthræðslu mína og hélt í höndina á mér. Ég treysti engum nema honum enda fann maður hvað hann var fær í þessu sporti.
Hann var mikill fagmaður og var hann alltaf mættur fyrstur til að hjálpa, hann smíðaði pallinn okkar og teiknaði eldhúsinnréttingu fyrir okkur. Aldrei fékk maður að gera neitt í staðinn, allt svo sjálfsagt.
Hann var smekkmaður og mikill fagurkeri, heimilið hans svo fallegt.
Hann var stríðnispúki og djókari og gat alltaf fengið mann til að hlæja.
Hann reyndist börnum mínum vel og átti gott samband við þau, hvert á sinn hátt. Hann sýndi þeim áhuga og var til staðar fyrir þau.
Hann var mikill dýravinur og veit ég að Yoko mín saknar hans mikið enda áttu þau einstakt samband. Hann var hennar besti leikfélagi.
Hann var sterkur, kjarkmikill og frakkur. Ég man eftir þegar við fjölskyldan vorum að ferðast á yngri árum og vorum t.d. að ganga upp að einhverjum kletti þá var hann í fyrsta lagi langt á undan okkur og svo sat hann bara með fæturna fram af og horfði niður. Við hin stóðum skelfingu lostin á hann í fjarlægð.
Hann lenti í alvarlegu vinnuslysi fyrir 10 árum þegar hann féll niður af þaki og slasaðist mikið. Hann var marga mánuði í endurhæfingu og þegar hann fékk leyfi til að stíga í fæturna á Grensási þá gekk hann eiginlega bara út og sneri þangað aldrei aftur. Hann var svo fljótt kominn af stað aftur í fjallabröltið og þó að hann hefði ekki sama styrk og áður þá lét hann það ekki stoppa sig.
Við vorum dugleg að hittast þetta síðasta ár en við vorum með bíókvöld 2-3 í viku með tilheyrandi popp- og nammiáti. Þetta ár hefur reynst okkur fjölskyldunni afar erfitt, að horfa á hann berjast við krabbameinið og geta ekkert gert til að hjálpa nema vera til staðar.
Mikið sem ég þrái að sjá þig, heyra rödd þína og fá að snerta þig en ég finn fyrir nærveru þinni og veit að þú vakir yfir okkur.
Ég er þakklát fyrir að hafa átt þig að og er stolt að því að geta kallað þig bróður minn.
Ég elska þig, þangað til næst, hvíl í friði.
Þín systir,
Svava.
Í dag kveðjum við elsku Dóra okkar. Hann var góður, fyndinn, skemmtilegur og allt það besta. Hann fékk okkur alltaf til að hlæja þegar okkur leið illa eða þegar við vorum skömmuð þegar vorum lítil. Hann var hjálpsamur og alltaf til staðar ef maður þurfti og bað aldrei um neitt til baka. Hann var mjög örlátur og gjafmildur. Hann var algjör stríðnispúki og var oft að hrekkja okkur með því að bregða okkur og grilla í manni.
Við gleymum ekki axlanuddi hans en hann var eini sem var góður í því.
Hann var einn jákvæðasti maður sem við þekktum, alltaf til í hvað sem er og til í að hafa gaman. Hann var rosalega sprækur og kraftmikill, alltaf á fjöllum, á hjóli og í göngum. Hann var með góða nærveru enda algjört gull. Við munum aldrei gleyma honum né hans ljósi. Við vitum að hann verður alltaf hjá okkur og passar upp á okkur. Hann er einstök sál og erum við glöð að vita að afi tók vel á móti honum og eru þeir feðgarnir nú saman.
Við munum alltaf minnast hans með þakklæti og hlýju.
Þín frændsystkini,
Lovísa Rakel, Brynjar Kári og Elín Sara.
Með djúpri sorg kveð ég við vin minn Halldór Óttarsson, eða Dóra eins og hann var ávallt kallaður. Dóri var einstakur maður sem við, vinir hans og fjölskylda, munum sakna sárt. Ég kynntist Dóra í níu ára bekk í Hólabrekkuskóla og strax tók hann mér sérlega vel, þrátt fyrir að ég væri nýr í bekknum. Hann hafði einkar rólega og góða nærveru og í kringum hann varð til þéttur vinahópur sem enn í dag eru nánir vinir.
Hann Dóri var merkilegur maður, hógvær en gríðarlega hæfileikaríkur. Það var sama í hvaða íþrótt eða tölvuleik maður keppti við hann, hann sigraði alltaf. En hann vann alltaf með virðingu og hlýju, aldrei með hroka. Þannig var Dóri – keppnismaður í öllu sem hann tók sér fyrir hendur, en jafnframt félagi sem stóð með vinum sínum og rétti hjálparhönd þegar þörf var á. Þegar við færðum nær unglingsárunum breyttust áhugasviðin okkar og áhugi á danstónlist og snjóbrettum tók yfir. Þar var hann, eins og í öllu öðru, frábær – renndi sér á bretti eins og hann hefði fæðst með það á fótunum og mixaði saman plötum einstaklega áreynslulaust og af fágun.
Á fullorðinsárum var Dóri mikill fjallgöngugarpur og ástríðan fyrir fjöllum varð sterkari með árunum. Hann gekk á fjöll um allan heim og tók ótal stórbrotin útsýni með sér, bæði í ljósmyndum og í hjarta. Við, sem kannski fylgdumst meira með úr þægilegri fjarlægð, dáðumst að úthaldi hans, seiglu og ævintýraþrá. Það að lenda í alvarlegu vinnuslysi árið 2014 stoppaði hann ekki. Þvert á móti, hann barðist fyrir bata og hélt áfram að klífa fjöll, eitt af öðru, og eignaðist marga vini á leiðinni.
Dóri var hagleikssmiður og vinir hans og fjölskylda nutu oft góðs af því og taldi hann ekki eftir sér að slá upp veggjum eða innréttingum ef á þurfti. Hann hafði einstaklega gott auga fyrir fegurð, bæði í náttúrunni, í myndlist og í hönnun og bar fallegt heimili hans því glöggt merki.
Mínar innilegustu samúðarkveðjur til Elínar, Sigurjóns og Svövu. Það er erfitt að þurfa að kveðja Dóra, mann sem barðist með reisn og hófsemi. Hann hefur skilið eftir djúp spor í lífi þeirra sem þekktu hann og minningin um hann mun lifa áfram í hjörtum okkar allra.
Valdimar Grétar Ólafsson.
Elsku Dóri, minn kæri æskuvinur og útivistarfélagi.
Það er erfitt að sætta sig við að þú sért farinn frá okkur.
Eina sem hægt er að gera er að halda í allar góðu minningarnar.
Þær eru óteljandi frá því við kynntumst í grunnskóla og læt ég vera að telja þær allar upp hér.
Ferskustu minningarnar voru fjallgöngurnar okkar.
Þú varst duglegur að draga mig í fjallabrölt síðustu árin en það var þín ástríða, að vera uppi á fjöllum. Þú sýndir mér marga fallega staði sem ég vissi ekki af og er ég þakklát fyrir það. Þú smitaðir mig svo sannarlega af þessari ástríðu og mun ég alltaf minnast þín í fjallaferðum mínum.
Takk fyrir rúm 30 ár af dýrmætum vinskap elsku vinur.
Ég votta fjölskyldu og vinum alla mína samúð.
Minning þín er mér ei gleymd;
mína sál þú gladdir;
innst í hjarta hún er geymd,
þú heilsaðir mér og kvaddir.
(Káinn)
Þín vinkona,
Helga.
Við erum orðin alltof vön því að heyra af fólki sem deyr fyrir aldur fram, hvort sem það eru slys eða sjúkdómar, og stundum hljóma þessi válegu tíðindi eins og hinn síþungi niður strandöldunnar, sem rís og hnígur óendanlega í tímans rás. Slíkur er gangurinn. Og nú er enn einn vinur dáinn. Smiðurinn og fjallgöngumaðurinn Halldór Óttarsson.
Halldór Óttarsson var ekki nema 47 ára þegar krabbameinið tók hann. Baráttan stóð í eitt ár og fór hann á þessum ógnarstutta tíma í fjölmargar meðferðir í þeirri von að sigrast á meininu.
Hann var góður og traustur vinur, sem vildi öllum vel. Oft sýndi hann hvaða mann hann hafði að geyma. Til að mynda þegar við fórum saman til Afríku til að klífa Kilimanjaro þar sem hann var boðinn og búinn til að hjálpa öllum. En lífið var ekki bara stingandi sól og seiðandi söngur hjá honum vini okkar. Hann lenti í alvarlegu slysi árið 2014 þegar hann féll niður 8 metra af þaki sem hann var að vinna við. En hann stóð upp aftur og ekki liðu margir mánuðir þar til hann var aftur kominn á fjöll. Fjallamennska var honum í blóð borin. Það var sama hvar við vorum og hvert við fórum, alltaf var Halldór okkar nálægt til að aðstoða, hvort sem það var Laugavegurinn, Fimmvörðuháls, Kerlingarfjöll eða Íslands tignarlegu jöklar. Og ekki skipti máli hvort það var brakandi blíða eða við stödd í hlákumyrkri, alltaf var gott að vita af nærveru hans og góðmennsku.
En nú er hann farinn, þessi mjúki en harðhugaði og hörkuduglegi félagi, en samt algjört stillingarljós. Við finnum til vanmáttar okkar gagnvart himninum, sem gnæfir yfir okkur, sem sýnir einfaldlega hvað við erum lítil og vanmáttug. Maður rífur hvorki kjaft við himininn né strandölduna á svona degi, þótt það sé freistandi, því hver er sáttur við að horfa á eftir góðum vini í moldina?
Við syrgjum góðan vin þegar við fylgjum honum til grafar í dag. Við sem þekktum hann eigum eftir að sakna hans um ókomin ár, því ljúfur drengur gleymist ekki svo glatt.
Hafðu þökk fyrir allt sem þú gerðir, elsku vinur, og hvíl í friði.
Þorsteinn Jakobsson,
Ása Björk Sigurðardóttir og Ásmundur Indriðason.