Beirút Fólk keyrir að byggingu í gær sem var sprengd upp í loftárásum Ísraelshers kvöldinu áður, en bygging er í suðurhluta Beirút í Líbanon.
Beirút Fólk keyrir að byggingu í gær sem var sprengd upp í loftárásum Ísraelshers kvöldinu áður, en bygging er í suðurhluta Beirút í Líbanon. — AFP/Ibrahim Amro
Hart var barist í gær við upphaf súkkot, vikulangrar hátíðar gyðinga. Talsmenn ísraelska hersins sögðu herinn hafa hæft stjórnstöð höfuðstöðva Hisbollah og neðanjarðarvopnabúr í Beirút og að yfir 65 vígamenn Hisbollah hefðu fallið í öðrum árásum í Suður-Líbanon

Dóra Ósk Halldórsdóttir

doraosk@mbl.is

Hart var barist í gær við upphaf súkkot, vikulangrar hátíðar gyðinga. Talsmenn ísraelska hersins sögðu herinn hafa hæft stjórnstöð höfuðstöðva Hisbollah og neðanjarðarvopnabúr í Beirút og að yfir 65 vígamenn Hisbollah hefðu fallið í öðrum árásum í Suður-Líbanon. Opinber ríkisfréttastofa Líbanons, NNA, sagði að árásir Ísraelsmanna á höfuðborgina hefðu hitt íbúðarhús í Haret Hreik-svæðinu í Suður-Beirút, nálægt mosku og sjúkrahúsi.

Árásirnar komu í kjölfar þess að Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, sakaði Hisbollah um að hafa reynt að myrða hann, en sprengjudróni hæfði heimili hans í gær. „Tilraun Hisbollah, leppsamtaka Íran, til að myrða mig og konu mína í dag voru alvarleg mistök,“ sagði Netanjahú.

Nálægt 70 eldflaugum var skotið frá Líbanon í gær að Ísrael, en Ísraelsher tókst að stöðva nokkrar þeirra á flugi. Aðeins fimmtán mínútum eftir gagnárás frá Líbanon gerðu Ísraelar 14 árásir á landamæraþorpið Khiam.

Yoav Gallant, varnarmálaráðherra Ísraels, sagði að herinn væri að fjölga árásum sínum á Hisbollah í Líbanon og að þeir myndu „eyðileggja þá staði sem Hisbollah ætlaði að nota sem skotpalla fyrir árásir á Ísrael.“

Á Gasasvæðinu bárust þær fregnir að 73 hefðu látist í einni loftárás á íbúðahverfi í Beit Lahia í norðurhluta svæðisins. Á Kamal Adwan-sjúkrahúsinu, sem varð yfirfullt eftir árásina, þurfti að meðhöndla marga sjúklinga á gólfinu á meðan hinir látnu voru vafðir hvítum greftrunarklæðum þar sem ættingjar komu saman til að syrgja. Samtök íslamskrar samvinnu með aðsetur í Jeddah fordæmdu árásina og sögðu aðgerðir Ísraelsmanna vera „blett á samvisku mannkyns“. Talsmenn ísraelska hersins sögðust hafa gert árás á hryðjuverkamiðstöð Hamas í Beit Lahia. Þeir töldu að dánartölur frá yfirvöldum í Gasa samræmdust ekki þeirra upplýsingum.

Ísraelski herinn varaði við því í gær að hann myndi bráðlega hefja árás á fyrirtæki sem sakað er um að fjármagna Hisbollah-samtökin í Líbanon og hvatti fólk til að yfirgefa svæði í kringum skrifstofur Al-Qard Al-Hassan.

Höf.: Dóra Ósk Halldórsdóttir