Liverpool trónir á toppi ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu eftir torsóttan sigur gegn Chelsea, 2:1, í 8. umferð deildarinnar á Anfield í Liverpool í gær. Mohamed Salah kom Liverpool yfir á 29. mínútu en Nicolas Jackson jafnaði metin fyrir Chelsea í upphafi síðari hálfleiks. Curtis Jones skoraði sigurmarkið á 51. mínútu en Liverpool er með 21 stig í efsta sætinu.
John Stones reyndist hetja Manchester City þegar liðið heimsótti Wolves til Wolverhampton en City vann dramatískan sigur, 2:1. Stones skoraði sigurmarkið þegar fimm mínútur voru liðnar af uppgefnum uppbótartíma. Áður hafði Jörgen Strand Larsen komið Wolves yfir á 7. mínútu en Jasko Gvardiol jafnaði metin fyrir City á 33. mínútu. City er með 20 stig í öðru sætinu.
Þá missteig Arsenal sig óvænt á útivelli þegar liðið heimsótti Bournemouth en leiknum lauk með sigri Bournemouth, 2:0. William Saliba fékk að líta rauða spjaldið hjá Arsenal á 30. mínútu og þeir Ryan Christie og Justin Kluivert skoruðu sitt markið hvor fyrir Bournemouth seint í síðari hálfleik. Arsenal er með 17 stig í þriðja sætinu, líkt og Aston Villa sem hafði betur gegn Fulham í Lundúnum, 3:1.