Baksvið
Andrés Magnússon
andres@mbl.is
Kosningar í lýðræðisríki snúast um skipuleg og friðsamleg valdaskipti, að kjósendur geti skipt um valdhafa án vandræða. Sömuleiðis virðast þeir nokkuð naskir á að láta eðlilega endurnýjun eiga sér stað.
Það er því athyglisvert að líta til fyrri kosninga um það, hversu örar mannabreytingar verða á þingi að jafnaði. Að ofan sést hve hátt hlutfall nýrra þingmanna var í hverjum alþingiskosningum, allt frá árinu 1959.
Auðsætt er að á undanförnum áratugum hefur „starfsmannavelta“ á þingi orðið æ meiri og hraði fer vaxandi. Hún var að meðaltali 25% árin 1959-1971, en hefur smám saman vaxið og er orðin 42% í síðustu fimm kosningum, þ.e. frá og með 2009, fyrstu kosningum eftir bankahrun, þegar hávært ákall var um mannabreytingar í æðstu stjórn landsins. Þróunin var þó eldri.
Stofnanaminnið bilar
Sjálfsagt fagna því einhverjir að miklar breytingar verði á þingheimi í hverjum kosningum, en það er ekki gefið að það styrki þingið eða stjórnarfar í landinu.
Ýmsir þingmenn og stjórnmálaleiðtogar úr velflestum flokkum hafa beinlínis varað við þessari þróun, að þá sé æskileg samfella í starfsháttum þingsins ekki sú sama, en í löggjafarsamkundunni veiti ekki af löngu og góðu stofnanaminni.
Nú er meðalþingseta rétt rúm tvö kjörtímabil (og þau hafa sum verið stutt á undanförnum árum!), en vænlegra kynni að vera að hún væri nær þremur kjörtímabilum. Miðað við það sem í ljós hefur komið á síðustu dægrum bendir margt til að nýgræðingar verði í meirihluta á þingi eftir kosningar. Styrkir það löggjafarstarfið eða er betri grundvöllur trausts ríkisstjórnarsamstarfs?