Leiklist
Silja Björk
Huldudóttir
Verður fólk einhvern tímann of gamalt til að skilja? Tryggir hækkandi aldur sjálfkrafa aukinn þroska? Hvenær þekkir maður raunverulega aðra manneskju? Þetta er meðal þeirra spurninga sem bandaríska leikskáldið Bess Wohl veltir upp í Óskalandi sem frumsýnt var í íslenskri þýðingu Ingunnar Snædal og leikstjórn Hilmis Snæs Guðnasonar á Stóra sviði Borgarleikhússins fyrr í þessum mánuði. Leikritið er tiltölulega nýtt, en það var frumsýnt á Broadway vestanhafs í byrjun árs 2020 og m.a. tilnefnt til bandarísku Tony-sviðslistaverðlaunanna sem leikrit ársins.
Í forgrunni verksins eru hjónin Villi (Eggert Þorleifsson) og Nanna (Sigrún Edda Björnsdóttir), sem komið hafa sér vel fyrir í íbúð í eldriborgarafjölbýli sem nefnist Óskaland, en bæði eru komin yfir sjötugt. Í upphafsatriði leggja þau þögul á borð með þaulæfðum hreyfingum sem minna helst á samstilltan dans. Um leið og þau setjast til borðs tilkynnir Nanna að hún vilji skilnað eftir 50 ára hjúskap og Villi samþykkir það án tafar. Í kjölfarið má segja að fjandinn verði laus í fjölskyldunni, en á núll einni eru fullorðnir synir þeirra hjóna, Benni (Jörundur Ragnarsson) og Baldur (Vilhelm Neto), fluttir heim til foreldra sinna í tilraun til að telja þeim hughvarf, enda skilja þeir hvorki upp né niður í ákvörðuninni.
Smám saman kemur í ljós að gömlu hjónin eru ekki eins samrýnd og upphafsdansinn virtist gefa til kynna og bæði hafa leitað ástar utan hjónabandsins. Til viðbótar við fyrrgreindar persónur birtast á sviðinu Júlía (Esther Talía Casey), kasólétt eiginkona Benna, Karla (Katla Margrét Þorgeirsdóttir), kærasta Villa, og Tommi (Fannar Arnarsson), sem Baldur hreifst af á djamminu og bauð því heim til nánari kynna. Óljóst er hvort Baldur er inni í eða út úr skápnum gagnvart foreldrum sínum, en senan með Tomma virðist fyrst og fremst eiga að undirstrika hversu erfitt Baldur á með að tengjast öðrum, sem endurspeglar tengslaleysið í fjölskyldunni almennt.
Við fyrstu sýn virðist um hreinræktaðan gamanleik að ræða þar sem gömul leyndarmál setja strik í reikninginn og persónur misskilja auðveldlega hver aðra með tilheyrandi flækjum. Við þetta bætist að Villi stígur reglulega á stokk til að segja skemmtisögur, en hann dreymir um að verða uppistandari þótt hann eigi þar nokkuð í land. Hnyttin tilsvör vöktu vissulega lukku áhorfenda en heilt yfir var gamanið fremur lúið með áherslu á neðanbeltishúmor og vandræðagangi yfir því að eldra fólk væri að tala um kynlíf og hjálpartæki ástarlífsins. Þau vandræðalegheit hefðu mögulega verið trúverðug ef framvindan hefði átt að eiga sér stað um miðja síðustu öld en virka ankannaleg hjá fólki sem var upp á sitt besta á hippatímanum með tilheyrandi frjálsum ástum.
Umgjörðin öll (þar sem Börkur Jónsson hannaði leikmyndina og Urður Hákonardóttir búninga) með einkennandi litum (eða litleysi) persóna undirstrikar týpuvinnuna, þar sem eldri hjónin eru framan af jafn litlaus og hörlituð íbúð þeirra, en klæðast dekkri brúnum tónum eftir því sem leiknum vindur fram. Synirnir tveir deila bláa litnum, Júlía fær þann fjólubláa, Tommi græna litinn og Karla þann bleika. Þetta er vel þekkt leið til að draga upp persónur í skýrum dráttum, eins og sást t.d. vel í franska gamanleiknum Bara smástund! eftir Florian Zeller sem Borgarleikhúsið sýndi fyrir tveimur árum.
Til mótvægis við gamanið reynir Bess Wohl reglulega að skapa dramatískari samræður, en tekst þar illa að fara á dýptina sökum þess hversu tvívíðar persónur verksins eru. Það er alls ekki ógerningur að samtvinna góðan húmor og mikla alvöru í einni fjölskyldusögu og er bandaríska kvikmyndin Parenthood frá 1989 með Steve Martin í aðalhlutverki gott dæmi um slíkt. Óskaland kemst hins vegar ekki með tærnar þar sem Parenthood hefur hælana.
Nanna er sú persóna verksins sem tekur mestum breytingum og því fær Sigrún Edda Björnsdóttir eðli málsins samkvæmt úr mestu að moða á sviðinu og gerir það vel. Eggert Þorleifsson á fína spretti sem hinn litlausi og um margt aumkunarverði Villi. Fjölskyldusenurnar eftir að synirnir mæta á svæðið einkennast af miklum hávaða þar sem persónur eru flestar á háa c-inu, sem átti mögulega að undirstrika það að synirnir gengju nánast í barndóm aftur við tíðindin af skilnaði foreldra sinna, en orgin urðu nokkuð þreytandi til lengdar. Jörundur Ragnarsson dregur upp skýra mynd af hinum yfirgangssama Benna og Vilhelm Neto gerir vandræðagangi Baldurs fín skil. Esther Talía Casey fær úr litlu sem engu að moða í hlutverki Júlíu og er umhugsunarvert að hún sem fjölskylduráðgjafi sætti sig ítrekað við lítillækkandi framkomu eiginmanns síns. Katla Margrét Þorgeirsdóttir hefur löngu sýnt að hún hefur frábært vald á kómískum tímasetningum, sem verkið nýtur góðs af í stuttri senu eftir hlé. En miðað við texta verksins virtist hún hins vegar allt of ung fyrir hlutverk konu sem býr í eldriborgaraíbúð. Fannar Arnarsson fangar vel ákefð Tomma í næturævintýri þeirra Baldurs en senan öll bætir litlu sem engu við framvindu verksins eða persónusköpun.
Fyrir þau sem hafa gaman af ærslafullum gamanleikjum er Óskaland vafalítið hin ágætasta skemmtun, enda bentu viðtökur áhorfenda á þeirri sýningu sem rýnir sá til þess að uppfærslan félli vel í kramið. Meginboðskapur verksins um mikilvægi þess að tjá öðrum, ekki síst þeim sem standa manni næst, hug sinn er líka allra góðra gjalda verður. Eftir stendur hins vegar sá vandi að leikskáldið virðist ekki hafa getað gert upp við sig hvort það vildi skrifa hreinræktaðan skopleik eða takast á við umfjöllunarefnið af meiri alvöru og dýpt.