50 ára Jóakim er fæddur á Akureyri en ólst alla tíð upp á Grenivík. Hann byrjaði að vinna 14 ára hjá Kaldbak frá Grenivík ásamt því að stunda sjómennskuna, og vann við uppskipun í Reykjavík 1995-2003 og á meðferðarheimilinu Bergi í Aðaldal 2004-2006. Hann fór síðan í Lögregluskólann og einnig Sjúkraflutningaskólann og var lögreglumaður hjá Lögreglunni á Norðurlandi eystra 2006-2017. „Ég var búinn að ganga lengi með það í maganum að prufa lögguna og það var annaðhvort að prufa það eða hætta að hugsa um þetta. Ég ákvað síðan að helga mig þessu þar til ég fór að hugsa um framtíðina og áhrif vaktavinnu á starfsfólk.“
Jóakim gafst þá tækifæri að vinna í öryggisteyminu hjá PCC BakkiSilicon. Hann flutti á Egilsstaði 2022 og hefur síðan þá verið sérfræðingur í öryggismálum hjá Alcoa og hélt áfram að vera sjúkraflutningamaður í hlutastarfi, núna uppi á Héraði. „Öryggismálin snúast alltaf um það sama, að starfsmaðurinn fari heill heim. Munurinn er einna helst að Alcoa er með málmbræðslur úti um allt en PCC BakkiSilicon er með eina verksmiðju. Ég tók þátt í uppbyggingunni á Bakka með góðu fólki en kem í miklu mótaðra umhverfi hérna.“
Jóakim sat í stjórn Landssambands lögreglumanna og var gjaldkeri í Héraðssambandi Þingeyinga. „Í dag reyni ég að nýta tímann með fjölskyldunni. Ég reyni að stunda mikla útivist, er í hjólamennsku og geng um fjöll og firnindi. Svo veiði ég allt sem ég má veiða, skýt gæsir, rjúpur, endur og hreindýr þegar ég vinn í lottóinu, háfa lunda og veiði silung.“
Fjölskylda Eiginkona Jóakims er Margrét Ólöf Sveinsdóttir, f. 1975, innkaupafulltrúi hjá Rubix á Reyðarfirði. Börn Jóakims eru Agnes Lilja, f. 1997, Almar, f. 2005, og Júlíus, f. 2006. Dóttir Margrétar er Íris, f. 2012. Barnabarn Jóakims er Baldur Atlas, f. 2022. Foreldrar Jóakims: Sigurlaug Svafa Kristjánsdóttir, f. 1952, vann í frystihúsi og á leikskóla, býr á Grenivík, og Júlíus Unnar Jóakimsson, f. 1942, d. 2005, vélstjóri.