Sigurbjörg Eiríksdóttir fæddist á fæðingarheimilinu í Reykjavík þann 28. maí 1963. Hún lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi þann 11. október 2024.

Foreldrar hennar eru Hanný Inga Ágústa Karlsdóttir, f. 7.10. 1941, og Eiríkur Sveinsson, f. 12.12. 1941. Systkini Sigurbjargar eru Karl Eiríksson og Sveindís Björk Eiríksdóttir, látin.

Sigurbjörg ólst upp í Breiðholtinu og kláraði grunnskólapróf í Breiðholtsskóla. Hún átti ættir að rekja til Mosfellssveitar þar sem hún eyddi öllum sínum frítíma, í náttúrunni og innan um dýrin sem hún elskaði. Í kringum árið 1979 fluttist Sigurbjörg til Bandaríkjanna og dvaldi þar hjá föður sínum í Wisconsin.

Árið 1981 giftist hún Mark Steven Birschbach og fluttust þau til Íslands árið 1982. Sigurbjörg og Mark skildu árið 1989. Börn Sigurbjargar og Marks eru Hanný Inga Birschbach, maki hennar er Pétur Már Jónsson, og Ívar Birschbach.

Með Páli Harðarsyni eignaðist Sigurbjörg Bjarka Pálsson, maki hans er Helena Bergsdóttir.

Barnabörn Sigurbjargar eru Markús Máni Pétursson, Bjarni Blær Pétursson, Jón Jökull Pétursson og Gabríel Ívar Birschbach.

Sigurbjörgu var margt til lista lagt og starfaði hún við ýmsar iðngreinar svo sem smíðar, járnsmíði, saumaskap og málningarvinnu svo fátt eitt sé nefnt. Hún bjó síðustu 30 árin í Kópavogi og bjó sér þar fallegt heimili.

Útför hennar fer fram frá Digraneskirkju í dag, 21. október 2024, kl. 13.

Ég kveð í dag kæra vinkonu, sem krabbinn greip á ógnarhraða.

Við hittumst fyrst þegar við nokkrir félagar komum úr frábærri Laugavegsgöngu og vorum að fagna því, nokkuð ákaft. Fleiri höfðu bæst í hópinn í Þórsmörk og var Sibba þeirra á meðal. Það er óhætt að segja að það hafi verið vináttuást við fyrstu sýn. Það geislaði af henni gleðin, kátínan og krafturinn og ekki hægt annað en að dragast að henni. Við runnum þarna saman í hóp nokkrar skvísur og upp frá því gerðum við flest saman. Hvort sem það var að ganga á fjöll, föndra eitthvað, borða saman eða dansa alla nóttina. Við gengum saman í gegnum sigra og ósigra, ástir, ævintýri og sorgir. Arm í arm. Eins og konur gera best. Galdrarnir í góðum vinkvennahópi eru kjarnaorka lífsins. Sprengikrafturinn í Sibbu var ekki síst drifkraftur hópsins. Hún vildi alltaf vera á ferðinni, helst utandyra. Úr því urðu fjölmörg útivistarævintýri sem við gleymum aldrei.

Sibba var orkumikill dugnaðarforkur, sem sat aldrei lengi kyrr. Hún var einstaklega frjó og listræn og að auki afar vandvirk og mikil hagleikskona. Hún var alltaf að skapa eitthvað og jafnan með u.þ.b. 200 ókláraðar hugmyndir í hausnum. Í öðru lífi hefði hún farið í Listaháskólann og orðið listakona fín. Hún nostraði við það sem hún tók sér fyrir hendur, en samt gekk allt áfram á undraverðum hraða. Hún var hjálpsöm og umhyggjusöm og ókrýndur iðnaðarmaður hópsins. Hún gat einhvern veginn allt. Ef hún kunni það ekki fyrir, þá fann hún út úr því. Það var ekki lítið gagnlegt fyrir okkur hinar.

Sibba gerði sjálf allt vel og átti erfitt með að aðrir skiluðu slöku verki eða stæðu ekki við sitt. Það var lýsandi fyrir Sibbu að í örstuttri banalegunni náði hún að fá lagfærðar hættulegar hellur við Landspítalann og eins gekk hún í Neytendasamtökin til að setja í gang mál gegn bönkunum. Hún hætti aldrei að berjast eða að bæta hlutina í kringum sig. Sibba lét heldur ekki selja sér neitt, nema staðið væri við gefin loforð. Við grínuðumst oft með það vinkonurnar að hún hefði aldrei greitt neitt fullu verði, hún fékk oftast afslátt vegna þess að eitthvað stóðst ekki.

Sibba missti systur sína, Sveindísi, líka úr fjárans krabbanum, fyrir nokkrum árum. Hún var hjá henni síðustu vikurnar og hjúkraði í erfiðum veikindum. Þetta varð Sibbu ansi þungt og ekki laust við að slokknaði skærasta blikið í augunum í kjölfarið, enda kært á milli systkinanna.

Lífið færði okkur saman og sundur, stundum var úthaf á milli okkar og stundum minni fjarlægð. En alltaf hittust sömu hjartastöðvarnar þegar við áttum stund saman.

Innilegar samúðarkveðjur til barna Sibbu, Hannýjar Ingu, Ívars og Bjarka. Hún talaði stanslaust um ykkur og var óendanlega stolt af ykkur. Eins til Hannýjar mömmu og Kalla bróður. Þið voruð alltaf í huga hennar.

Takk fyrir dásamlegt ferðalag elsku vinkona, glaðværðina og öll hlátrasköllin.

Ég veit þú ert þegar farin að taka til hendinni í handanheimum. Þar verður allt orðið vistlegt þegar við vinkonurnar hittumst allar þeim megin.

Elfa.

Við nágrannar í Kjarrhólma 6 kveðjum kæra vinkonu og nágranna, Sigurbjörgu Eiríksdóttur. Sibba, eins og hún var kölluð, var einstök kona sem hafði ávallt mikla orku og endalausar hugmyndir um hvernig mætti fegra og bæta stigahúsið okkar. Hún var ávallt til í að leggja hönd á plóg, og hafði einstaka hæfileika til að sjá tækifæri til að betrumbæta umhverfið okkar og gera Kjarrhólmann fallegri.

Eitt af því sem við elskuðum við Sibbu var framkvæmdagleðin og dugnaðurinn sem einkenndi öll hennar uppátæki sem við í Kjarrhólmanum nutum góðs af. Við getum varla nefnt Sibbu án þess að minnast á eina af fjölmörgum sögum af henni sem munu hlýja okkur um hjartarætur. Fyrir stuttu ákvað Sibba að hjálpa einum nágranna okkar við að undirbúa geymsluhurðina hans fyrir málun. Hún skrúfaði hengilásinn af, braut þröskuldinn, sem henni fannst óþarflega ljótur, og sparslaði hurðina. Á næsta húsfundi var annar nágranni okkar heldur hissa að hans eigin hurð hefði fengið þessa meðferð – því Sibba hafði lagað vitlausa hurð!

Sibbu verður sárt saknað og við munum lengi minnast hennar með hlýhug og brosi á vör. Það er ómetanlegt að hafa átt nágranna sem hugsaði svo mikið um aðra og var alltaf tilbúinn að láta verkin tala. Við kveðjum hana með virðingu og þakklæti fyrir allt það sem hún gerði fyrir okkur og fallega Kjarrhólmann okkar.

Fyrir hönd íbúa í Kjarrhólma 6,

Einar Freyr Sigurðsson, Guðmundur H. Magnússon, Júlía Birgisdóttir, Óli Geir Kristjánsson, Sigríður Jónsdóttir, Þórhalla Mjöll Magnúsdóttir og Þórunn Halla Unnsteinsdóttir