Pétur Friðrik Kristjánsson fæddist í Reykjavík 6. apríl 1953. Hann lést 10. október 2024 á Fellsenda, Búðardal.
Foreldrar Péturs voru Kristján Geir Pétursson, frystihússtjóri í Keflavík, f. 27.5 1933, d. 14.12. 2016, og María Bergmann Hreggviðsdóttir húsmóðir, f. 10.11. 1933, d. 14.12. 2010. Systir Péturs er Karitas Bergmann Kristjánsdóttir, f. 25.11. 1954, gift Kristni Ársæli Eyjólfssyni, f. 3.7.1951.
Synir Péturs eru þrír: 1) Gestur forstjóri, f. 27.9. 1971, kvæntur Bjarneyju Maríu Hallmannsdóttur hjúkrunarfræðingi, f. 18.2. 1971. Börn þeirra eru: a. Hallmann Óskar, f. 2.9. 1993, b. Pétur Olgeir, f. 31.8. 1996, d. 21.1. 2018, c. Ragnar Atli, f. 27.8. 2002. 2) Kristján Geir lögfræðingur, f. 3.11. 1975, kvæntur Henný Hinz hagfræðingi, f. 16.6. 1977. Börn þeirra eru: a. Alexander Gunnar, f. 3.2. 1997, b. Ilmur, f. 31.3. 2003, c. Kristján Þórbergur, f. 31.8. 2007, d. Pétur Friðrik, f. 30.11. 2011, e. Vilhjálmur Ari, f. 7.3. 2015 og f. Karl Jóhann, f. 23.4.2018. 3) Sindri, f. 2.10. 1981. Ókvæntur og barnlaus.
Pétur var í sambúð með Hrefnu Magdalenu Stefánsdóttur fóstru í Reykjavík, f. 14.9. 1950, d. 23.7. 2007. Þau eignuðust tvo syni, Kristján Geir og Sindra. Þau slitu samvistum 1981. Fyrir átti Pétur Gest með Guðbjörgu Óskarsdóttur, f. 2.2. 1954, d. 3.12. 1975.
Pétur ólst upp á Tjarnargötunni í Keflavík og gekk í Barnaskólann í Keflavík. Eftir hefðbundið skyldunám fór hann í Fiskvinnsluskólann í Hafnafirði og lauk þaðan námi sem fiskmatsmaður. Hann fékkst við ýmis störf tengd sjávarútvegi í landi og starfaði m.a. um tíma hjá skipafélaginu Hafskipum. Pétur lék í hljómsveitum á sínum yngri árum í Keflavík, lék m.a. á píanó, orgel og gítar og lagði stund á tónlist alla sína ævi.
Útförin verður gerð frá Keflavíkurkirkju í dag, 21. október 2024, klukkan 13.
Í dag er til moldar borinn elsku bróðir minn og eina systkini mitt. Pétur bróðir var vel af guði gerður, með mikla hæfileika í leik og starfi. Tónlistin var honum mikilvæg frá barnsaldri og fór hann Peddi bróðir létt með það. Við bæði vorum mjög samrýnd í æsku. Ég gæti sagt svo mikið um elsku bróður minn, bæði í leik og starfi, og var hann snillingur að spila á hljóðfæri í hljómsveitum, þótt hann hefði aldrei kunnað að spila eftir nótum (p.s. það heitir í dag að spila suzuki, að hlusta og spila). Við Pétur bróðir fórum bæði í Tónlistarskólann í Keflavík í den til að læra á píanó. Pétur bróðir hætti eftir þrjá mánuði, en ég var þar í fjögur ár. Eftir það varð ekki aftur snúið hjá Pétri. Hann gat spilað á öll hljóðfæri aðeins 16 ára gamall og þar á meðal píanó, harmonikku gítar o.fl., og kenndi hann fólki á gítar þegar hann var ungur maður. Hann spilaði í hjómsveitum og var alltaf hæverskur þótt honum hafið verið hælt á því sviði.
Nú er komið að leiðarlokum hjá okkur systkinum, og ég veit að mamma og pabbi taka vel á móti Pétri í sumarlandinu. Ég er þakklát fyrir syni hans þrjá, Gest, Kristján Geir og Sindra, sem hafa staðið við bakið á pabba sínum síðastliðin ár. Blessuð sé minningin elsku bróður míns, Péturs Friðriks Kristjánssonar.
Kaja systir og fjölskylda.
Karitas Bergmann Kristjánsdóttir.
Við Pétur vorum góðir vinir í gegnum æskuárin. Þá var ýmislegt brallað og naut Pétur sín mikið í tónlistinni, hann var einfaldlega náttúrutalent.
Við félagarnir skelltum okkur saman í Fiskvinnsluskólann og vorum í fyrsta árganginum sem útskrifaðist úr honum 1974. Saman leigðum við okkur herbergi í höfuðborginni en keyrðum líka á milli.
Eftir útskrift fór Pétur að vinna í bænum og kynntist þar yndislegri stúlku, henni Hrefnu.
Við Hildur vorum erlendis í nokkur ár og minna varð um samvistir.
Rólega læddust að vini mínum veikindi í heila og fékk hann greininguna geðklofi sem því miður var framan af lúmskur og tókst að vaxa þar sem lyfin sem honum voru sköffuð voru bara ekki að virka.
Pétur fór í ýmis búsetuúrræði, m.a. til Bitru og í Tjaldanes. Loks var svo opnað sambýli í Grindavík. Hann átti mörg góð ár þar. En þegar Pétur fór að eldast þurfti hann meiri umönnun. Hann fékk ekki inni á hjúkrunarheimilum á Suðurnesjum vegna þess að hann var með „geðgreiningu” og var þess vegna sendur vestur í Dali, á Fellsenda. Í heimsóknum mínum á Fellsenda sá ég að það var hugsað vel um hann.
Lífið fór ekki mjúkum höndum um vin okkar. Við sem þjóð erum ekki að standa okkur í geðheilbrigðismálum. Við höfum brugðist þessum einstaklingum og valdið ástvinum þeirra ótrúlegum sársauka.
Við viljum votta sonum hans, þeim Gesti, Kristjáni og Sindra, og Kaju systur hans og fjölskyldum þeirra okkar, dýpstu samúð.
Hvar lífs um veg þú farinn fer,
þú finnur ávallt marga,
er eigi megna sjálfum sér
úr sinni neyð að bjarga.
Þótt fram hjá gangi fjöldi manns,
þú framhjá skalt ei ganga; lát þig langa
að mýkja meinin hans,
er mæðu líður stranga.
Hvar sem þú einhvern auman sér,
hann aðstoð máttu' ei svipta.
Þú getur sífellt alveg eins
í ólán ratað líka,
þér getur orðið margt til meins,
að miskunn þurfir slíka.
Vilt þú þá ei, að aðrir menn
því úr að bæta reyni
mæðu meini?
Þeir fara fram hjá enn,
þó flýr ei burt sá eini.
Sá eini', er hvergi fram hjá fer,
er frelsarinn vor blíði.
Hvert mein hann veit, hvert sár hann sér,
er svellur lífs í stríði.
Hann sjálfur bindur sárin öll
og særðum heimför greiðir,
eymdum eyðir,
og loks í himnahöll
til herbergis oss leiðir.
(V. Briem.)
Með kærleika,
Leifur og Hildur.
Haustið 1971 komum við saman tæplega 30 ungir menn á aldrinum 18 til 25 ára nánast frá öllum landshornum en tilefnið var setning á nýstofnuðum skóla sem fékk heitið Fiskvinnsluskólinn. Fyrstu árin var þessi skóli til húsa í Skúlagötu 4 og seinna í Trönuhrauni í Hafnarfirði.
Í þessum hóp var Keflvíkingurinn Pétur Friðrik Kristjánsson en allir vorum við uppfullir af áhuga fyrir því verkefni sem fram undan var en þetta var fyrsti sérskólinn sem stofnaður var á Íslandi þar sem unnt var að læra meðferð sjávarafla og var náið samstarf við Rannsóknarstofnun fiskiðnaðarins.
Fyrri hlutinn var tímabilið 1971 til 1974 en eftir það fengu nemendur starfsheitið fiskiðnaðarmenn og var Pétur þar á meðal.
Pétur tók þátt í öllu því sem fylgdi þessu námi en í skólanum var öflugt félagslíf og mikil samstaða um að taka þátt í að byggja upp nýjan skóla og móta námið ásamt kennurum og skólastjóra.
Pétur kom frá Keflavík sem var öflugt sjávarútvegspláss og höfðu afi hans og pabbi staðið að rekstri eins af öflugustu sjávarútvegsfyrirtækjum í Keflavík, auk þess var Pétur liðtækur hljóðfæraleikari eins og títt var um unga menn frá Bítlabænum.
Eftir áramót 1973/1974 fór að bera á veikindum Péturs en hann lauk námi frá skólanum þar sem við vorum útskrifaðir vorið 1974 sem fiskiðnaðarmenn.
Að loknu námi starfaði Pétur skamma hríð hjá eftirlitsstofnunum með sjávarafurðum en vegna veikinda varð hann að hætta því.
Við viljum flytja börnum Péturs og ættingjum okkar innilegustu samúðarkveðjur.
F.h. skólabræðra úr Fiskvinnsluskólanum,
Gunnar Alexandersson.