Steindór Ellertsson
Steindór Ellertsson
Ný gervigreindartækni gæti verulega dregið úr skjalavafstri heimilislækna. Heilsugæsla miðbæjarins hefur þegar tekið mállíkan í notkun sem skrifar svör við spurningum sjúklinga inni á Heilsuveru. „Við erum búin að búa til kerfi sem notar…

Agnar Már Másson

agnarmar@mbl.is

Ný gervigreindartækni gæti verulega dregið úr skjalavafstri heimilislækna. Heilsugæsla miðbæjarins hefur þegar tekið mállíkan í notkun sem skrifar svör við spurningum sjúklinga inni á Heilsuveru.

„Við erum búin að búa til kerfi sem notar mállíkan til að lesa skilaboð sjúklinga og mynda sjálft allt sem þarf til að leysa verkefnið eins hratt og hægt er,“ segir Steindór Ellertsson í samtali við Morgunblaðið en hann er sérnámslæknir í heimilislækningum, doktorsnemi og framkvæmdastjóri fyrirtækisins Careflux, sem stendur nú að tveimur gervigreindarverkefnum sem gætu gjörbreytt starfsumhverfi heimilislækna.

Verkefnið sem Steindór vísar í er sum sé gervigreindarlíkan sem skrifar tillögur að svörum við skilaboðum sjúklinga á Heilsuveru til að létta læknum lífið. Hitt verkefnið er aðeins flóknara, og snýr að greiningu öndunarfærasjúkdóma í gegnum netspjall. Það þurfa þó að líða nokkur ár þar til sú tækni er tilbúin til notkunar.

Mennskir fingur slá enn á lyklaborðið

Steindór segir að mállíkanið verði einnig notuð á öðrum heilsugæslustöðvum. Fyrirtækið eigi einnig í viðræðum við erlend fyrirtæki, m.a. í Skandinavíu og Kanada.

„Spjallmenni“ er reyndar rangnefni, segir Steindór, sem vill frekar kalla hugbúnaðinn „skilaboðastoð“. Líkanið sjálft er nefnilega ekki eitt við stýrið í samskiptum starfsmanns og sjúklings. Það kemur aðeins með uppástungur að skilaboðum sem starfsmaður getur síðan breytt og bætt áður en hann sendir þau. „Þetta sparar um 52% af tímanum sem fer í þetta verkefni,“ segir Steindór.

Hann telur það „alveg pottþétt“ að slík tækni geti minnkað álag á heilbrigðisstarfsfólk. Hann nefnir að þetta geti forðað heilbrigðisstarfsfólki frá kulnun þar sem rannsóknir sýni að fólk sem á mörg ósvöruð skilaboð í pósthólfinu sé líklegra til að upplifa kulnun í starfi.

Flokkar öndunarfærasýkingu eftir alvarleika

Careflux er með annað gervigreindarverkefni í vinnslu sem snýr að forflokkun sjúklinga með öndunarfæraeinkenni. Sjúklingar svara þá spurningum um einkenni sín og gervigreindin flokkar þá í áhættuflokka.

Sá hugbúnaður hefur enn ekki verið tekinn í notkun, verður það í besta falli eftir fjögur ár að sögn Steindórs. Enn sé verið að rannsaka hvort líkanið sé öruggt og áreiðanlegt. Niðurstöður fyrstu rannsóknar voru kynntar á Heimilislæknaþingi á fimmtudag. „Þær voru mjög lofandi,“ segir Steindór um niðurstöðurnar. Meira um þennan nýja hugbúnað má lesa á mbl.is í dag.