Bjørn Lomborg
Bjørn Lomborg
Skilvirkara nám skilar sér að lokum í hæfara fullorðnu fólki sem verður afkastameira á vinnumarkaði og hefur hærri laun.

Bjørn Lomborg

Frammistaða skólabarna á prófum veldur miklum áhyggjum um allan heim. Kennsla fór nær alls staðar verulega úr skorðum meðan á kórónuveirufaraldrinum stóð – en þá höfðu niðurstöður úr ýmsum samræmdum prófum í stærðfræði, öðrum raungreinum og lestri tekið stefnu í ranga átt.

Menntun sameinar foreldra um allan heim, þótt áskoranirnar séu ólíkar. Í hinum vestræna heimi hefur námsárangur staðnað á tiltölulega háu stigi en börn í fátækari helmingi heimsins eiga mörg hver í erfiðleikum með að lesa jafnvel stuttar setningar eða leysa einföldustu stærðfræðiverkefni.

En margra ára reynsla hefur leitt í ljós hvaða menntastefnur virka alls ekki – jafnvel þótt stuðningsmenn þeirra séu háværir.

Beinskeyttasta lausnin kann að vera að auka útgjöld á hvern nemanda. Það eykur lærdóminn þó varla að ráði ef peningarnir eru ekki notaðir skynsamlega, eins og sannaðist þegar Indverjar juku útgjöld á hvern grunnskólanema um 71% á sjö árum en einkunnir í lestrar- og stærðfræðiprófum hröpuðu áfram.

Uppáhaldsráð margra kennarasamtaka og stjórnmálamanna er að fækka í bekkjum. Þetta hljómar eins og það gæti skilað árangri, því kennarar geti sinnt hverjum nemanda betur. En reynslan sýnir að fækkun bekkja er ein óhagkvæmasta leiðin til að bæta kennslu. Samantekt árið 2018 á 148 skýrslum frá 41 landi leiddi í ljós að smærri bekkir höfðu í besta falli lítil áhrif á lestrarkunnáttu og engin áhrif á stærðfræðikunnáttu.

Launahækkun kennara er önnur vinsæl leið en jafnvel mun hærri laun geta haft lítil áhrif á kennsluna. Indónesar beittu öllum þessum vinsælu ráðum í einu: þeir tvöfölduðu útgjöld til menntamála til að ná einum lægsta meðalfjölda í bekkjum á heimsvísu og tvöfölduðu sömuleiðis laun kennara – en samt sem áður sýndi tímamótarannsókn með slembiröðun og viðmiði enga framför í lærdómi nemenda.

Hinn óþægilegi sannleikur er sá að þær aðgerðir sem oftast er stungið upp á – að hækka laun kennara, fækka í bekkjum og byggja fleiri skóla – eru dýrar og gera lítið sem ekkert til að bæta nám.

En frá óvæntum stað kemur stefna sem lofar góðu. Malaví – eitt af fátækustu löndum heims – hefur glímt við yfirfullar kennslustofur og skort á námsefni og menntuðum kennurum. Það er ekki land sem við búumst við að gefi af sér framsæknar lausnir. Samt er Malaví nú að vinna samkvæmt menntastefnu sem vekur vonir um viðsnúning í menntamálum – sem önnur ríki eru jafnvel að staðfæra og taka upp.

Þegar hugveitan mín, Kaupmannahafnarhugveitan, og áætlananefnd Malaví sameinuðu krafta sína til að finna öflugustu og hagkvæmustu stefnuna til að efla velferð og vöxt Malaví bar ein menntastefna af öllum öðrum.

„Nám með tæknistuðningi“ hljómar einfalt en það leysir vandamál sem reynist oft snúið. Nær allir skólar skipa börnum saman í bekk eftir aldri en mörg börn í hverjum bekk eru annaðhvort langt á eftir eða langt á undan. Krakkar í Malaví nota nú í eina klukkustund á dag sérsniðið aðlögunarhæft forrit í spjaldtölvu sem greinir fyrst getu hvers barns og kennir því síðan lestur, skrift og reikning á sínu raunverulega lærdómsstigi.

Kennarar lýsa því hversu undrandi þeir voru þegar þeir byrjuðu að nota hugbúnaðinn og komust að því að öll börnin voru að fylgjast með. Börn segjast ekki lengur hafa áhyggjur af að gefa rangt svar fyrir framan jafnaldra sína eða neyðast til að keppa um athygli kennarans.

Þessi stefna er ótrúlega ódýr í framkvæmd – í Malaví er árlegur kostnaður á nemanda allt niður í 15 Bandaríkjadali, meðal annars vegna þess að hver þeirra notar spjaldtölvuna í aðeins eina klukkustund á dag og margir geta því deilt sömu tölvu. Umfangsmiklar rannsóknir sýna að á einu ári er með þessum hætti hægt að ná árangri sem jafnast á við þrjú ár af venjubundnu námi.

Skilvirkara nám skilar sér að lokum í hæfara fullorðnu fólki sem verður afkastameira á vinnumarkaði og hefur hærri laun. Staðlað hagfræðilegt mat gefur til kynna að hvert ár þar sem krakkar eyða klukkustund á dag í spjaldtölvu leiði til aukningar ævitekna upp á um 16 þúsund Bandaríkjadali. Í ljósi þess að megnið af þessum tekjum mun raungerast að einhverjum áratugum liðnum er núgildi ávinningsins um 1.575 Bandaríkjadalir. Það er meira en hundraðföld ávöxtun af 15 dala fjárfestingu.

Malaví er í þann mund að hrinda þessari áætlun í framkvæmd í öllum 6.000 grunnskólum landsins og það lofar góðu að kostnaðurinn reynist nú enn lægri, sem gerir stefnuna enn betri. Núna vinna tæplega 300.000 börn í spjaldtölvu í eina klukkustund á dag en markmiðið er að ná í lok þessa áratugar til allra 3,8 milljón barnanna sem stunda nám í 1.-4. bekk.

Nú þegar eru Síerra Leóne og Tansanía farin að vinna að því að innleiða sömu nálgun. Malaví hefur sýnt hvernig allur fátækari helmingur heimsins gæti bætt kennslu fyrir næstum hálfan milljarð grunnskólabarna. Greining okkar sýnir að í fátækari helmingi heimsins myndi menntunarfjárfesting upp á 10 milljarða Bandaríkjadala til að hrinda þessu í framkvæmd skila meira en 600 milljörðum Bandaríkjadala í ávinning árlega, sem myndi auka framleiðni til framtíðar. Þessi nálgun gæti einnig verið gagnleg í ríkum löndum, þar sem fyrstu niðurstöður tilrauna í Bretlandi lofa góðu.

Foreldrar um allan heim vilja að skólar snúi óheillaþróuninni við og búi krakka betur undir áskoranir morgundagsins. Spjaldtölvur til að kenna hverjum nemanda eftir hans eigin getu eru öflugt svar við þeirri ósk.

Höfundur er forseti Kaupmannahafnarhugveitunnar og gestafræðimaður við Hoover-stofnun Stanford-háskóla í Kaliforníu. Bók hans Best Things First var útnefnd ein af bestu bókum ársins 2023 af The Economist.

Höf.: Bjørn Lomborg