Mikil gerjun er í stjórnmálum og spágildi fyrstu skoðanakannana hæpið. En þær gefa vísbendingar um eitt og annað, sem vert er að gefa gaum, eins og sjá má að ofan. Þar er stuðst við októberkönnun Maskínu og svörin flokkuð eftir kjördæmum svarenda

Andrés Magnússon

andres@mbl.is

Mikil gerjun er í stjórnmálum og spágildi fyrstu skoðanakannana hæpið. En þær gefa vísbendingar um eitt og annað, sem vert er að gefa gaum, eins og sjá má að ofan. Þar er stuðst við októberkönnun Maskínu og svörin flokkuð eftir kjördæmum svarenda.

Það er ekkert nýtt í íslenskum stjórnmálum að fylgið skiptist eftir búsetu; sumir flokkar hafa verið nefndir landsbyggðarflokkar en aðrir aðallega sótt stuðning á mölina.

Dreifbýli og þéttbýli

Sú er raunin enn í dag og munurinn meiri en í undanförnum kosningum. Það sést t.d. vel að Framsókn er fyrst og fremst landsbyggðarflokkur, en á erfiðar uppdráttar í bænum, meðan Viðreisn á um helmingi meira erindi á höfuðborgarsvæðinu en utan þess.

Sjálfstæðisflokkurinn, sem eitt sinn átti höfuðvígi sitt í borginni og hefur í seinni tíð átt mestan stuðning í nágrannasveitarfélögunum, höfðar samkvæmt þessari könnun Maskínu nú heldur til fólks á landsbyggðinni.

Hið sama á við um Flokk fólksins, en það kann að tengjast því að hann sækir mest fylgi til tekjulægri hópa.

Það er enn greinilegra hjá Miðflokknum, sem á sínum tíma klofnaði út úr Framsókn, og e.t.v. eðilegt að hann sé svipaður að þessu leyti.

Ef til vill er þó athyglisverðast að horfa til Samfylkingarinnar, sem er með langmest fylgi allra flokka, um 25% á landsvísu. Vanalega er dreifing slíks fylgis nokkuð jöfn, en svo er ekki að þessu sinni. Samfylkingin sækir miklu frekar fylgi á höfuðborgarsvæðið en í landsbyggðarkjördæmin þrjú; þar er hún hvergi með mest fylgi.

Breytt landslag

Hugsanlega er flokkakerfið íslenska að verða líkara hinu danska, þar sem nokkrir borgaralegir flokkar eru hægra megin, en stór sósíaldemókrataflokkur ræður ferðinni á vinstri vængnum með vinstri smáflokka sér til trausts. Sú gæti orðið raunin, þó í augnablikinu virðist aðeins Píratar ætla að lifa af yst á vinstri kanti.

En þessi skipting á mjög mismiklu erindi flokka eftir búsetu er líka athyglisverð og þá ekki síður fyrir flokkana sjálfa en áhugamenn um stjórnmál. Eru tvær þjóðir í landinu að því leyti? Eða eru hugmyndir um verðmætasköpun og opinber afskipti orðnar svo skiptar? Komandi kosningabarátta kann að leiða það í ljós.