Pétur Blöndal
p.blondal@gmail.com
Það var gaman að heyra frá Steindóri Andersen, sem lumaði á frumhendum og síðbakhendum sléttuböndum. Þau eru mannlýsing sem ort var til heiðurs öðrum mætum kvæðamanni, Birni Loftssyni heitnum, á stórafmæli hans fyrir allmörgum árum:
Þylur frómur ljóðin löng,
lyftir fræðum hæða,
bylur rómur, streymir ströng
stuðlaræðan gæða.
Og afturábak hljóða þau svo:
Gæða ræðan stuðla ströng,
streymir rómur, bylur.
Hæða fræðum lyftir, löng
ljóðin frómur þylur.
„Á gamals aldri“ er yfirskrift þessarar vísu sem Árni Bergmann gaukaði að Vísnahorninu:
Allt mun bila sem bilað getur
bak og fætur, heyrn og gáski,
hurðir, sjónvörp og tölvutetur …
tel víst að dómgreind sé í háska.
Pétur Stefánsson hélt upp á það með frúnni að 40 ár eru síðan þau rugluðu saman reytum:
Víst er lífið ljúft og gaman,
leka úr augum gleðitár.
Við hjónakornin höfum saman
hangið fjörutíu ár.
Helga Einarssyni varð á að yrkja limru út af ástandinu í landsmálunum.
Nú þegar skeður er skaðinn
skeleggir loforðum raða' inn.
„En muntu svo fá
Alþingi á
eitthvað skárra í staðinn?“
Ingólfur Ómar Ármannsson kastar fram:
Atvik þó sér eigi stað
ansi spennuþrungin.
Bjarna ber að þakka það
að þessi stjórn sé sprungin.
Sigrún Haraldsdóttir yrkir í svefnrofunum:
Má nú varla merkja skil
milli dags og nætur,
ástæða því tæpast til
að toga sig á fætur.
Að síðustu vísa eftir Jón Ingvar Jónsson:
Stjórnin hefur höfuð tvö,
hún er völt á stóli.
Þetta ljóð frá A til Ö
orti ég á hjóli.