Helga Steinunn Hróbjartsdóttir fæddist 30. september 1936. Hún lést á Hrafnistu í Reykjavík 28. september 2024.

Foreldrar hennar voru Ingibjörg Þorsteinsdóttir, f. 15. september 1909, d. 11.6. 2004, og Hróbjartur Árnason, f. 12.6. 1897, d. 11.2. 1953. Helga var önnur í röð fimm systkina, hin eru: Margrét, f. 18.2. 1934, d. 3.4. 2023, Helgi, f. 26.8. 1937, d. 6. 7. 2018, Árni, f. 1.12. 1938, d. 11.1. 2013, Friðrik, f. 5.6. 1940, og Jón Dalbú, f. 13.1. 1947.

Helga gekk að eiga Karl Sævar Benediktsson skólastjóra og sérkennara, f. í Reykjavík 23. febrúar 1934, d. 19. júlí 2022. Hann var sonur Aðalheiðar Kristnýjar Stefánsdóttur, f. 26.7. 1914, d. 23.2. 1987, og Benedikts Gabríels Guðmundssonar, f. 26.7. 1908, d. 3.3. 1972, en hlaut uppeldi sitt hjá fósturforeldrum, Katrínu og Karli Petterson sem bjuggu í Reykjavík. Karl átti einn bróður sammæðra, Örn Reyni Levísson, f. 11.2. 1933, d. 14.11. 1994, og þrjú systkini samfeðra, Þórhildi Margréti, f. 8.3. 1945, d. 17.2. 2017, Guðmund Jósep, f. 3.7. 1941, og Þórð Björgvin, f. 23.10. 1943.

Synir Helgu Steinunnar og Karls Sævars eru: 1) Flosi, f. 26.3. 1960, d. 15.10. 2013. Ekkja hans er Aldís Ívarsdóttir. 2) Hróbjartur Darri, f. 18.9. 1961, kvæntur Þórhildi Sveinsdóttur. 3) Bjarni, f. 6.8. 1963, kvæntur Jónu Hrönn Bolladóttur. 4) Árni Heiðar, f. 6.7. 1975, maki Rakel Valgeirsdóttir.

Barnabörn Helgu og Karls eru 13 talsins og barnabarnabörnin eru orðin alls 19.

Helga var sérkennari að mennt. Fyrstu starfsárin var hún við kennslu í Langholtsskóla, síðar í heimavistarskóla í Hlaðgerðarkoti í Mosfellsdal uns hún gerðist námsráðgjafi og sérkennari og starfaði á þeim árum við Fellaskóla, Árbæjarskóla, Langholtsskóla og víðar. Helga var virkur þátttakandi í kristilegu starfi alla sína tíð og frumkvöðull að ýmsum mikilvægum nýjungum á þeim vettvangi, svo sem tólfsporastarfinu Vinir í bata og miðborgarstarfi þjóðkirkjunnar og KFUM KFUK.

Útför Helgu Steinunnar fer fram frá Laugarneskirkju í dag, 21. október 2024, kl. 13.

Amma var hjartahlý, ákveðin og með ótrúlega gott innsæi, hún tók á móti mér á hverjum degi eftir skóla þegar ég var í 1. bekk og hlakkaði ég alltaf til þess að setjast við litla útdraganlega eldhúsborðið til þess að fá annaðhvort grjónagraut eða rúgbrauð. Ég fékk þar að njóta þess að vera eina barnið í húsinu og man ég vel þegar ég gisti hjá afa og ömmu að þau voru vöknuð á undan mér!

Kaffilyktin og morgunfréttir RÚV var það fyrsta sem tók við mér á leið niður tröppurnar og fyllti andrúmsloftið af ró og vellíðan. Amma átti alltaf til pappír, liti og lím sem var mér mjög mikilvægt á fyrstu árunum og svo gerði hún það svo vel að hlusta á allt sem ég hafði að segja með svo mikilli virðingu að ég vissi að ég væri dýrmæt og það sem mér dytti í hug væri áhugavert og/eða skemmtilegt. Hún fór reglulega með mig eða okkur systkinin í bíltúr upp í sumarbústað þar sem við sungum og svo endurtók hún yfirvegað aftur og aftur nöfnin á fjöllunum og stöðunum sem við keyrðum fram hjá á leiðinni.

Hún talaði um það hversu rík hún væri að eiga svona flottan og fallegan hóp af barnabörnum og kallaði okkur gjarnan augasteinana sína.

Hún kenndi mér á náttúruna og að njóta þess sem ekki kostar neitt, fór með mig í fjöruferðir og kaffihitting heim til vinkonu sinnar.

Þegar ég varð eldri fór hún að kenna mér að vinna, vinna með sér, mér þótti það mjög erfitt þar sem hún var mjög nákvæm en kann að meta það í dag. Svo þróaðist samband okkar í vinkonusamband, þegar ég var fullorðin þá vorum við vinkonur og hún deildi með mér sínum baráttum og hjálpaði mér að sjá skýrt og muna eftir því hver ég er þegar mest á reyndi. Þegar ég lá veik á spítala sátu þau afi og amma til skiptis við hlið mér þó ég væri sofandi mestallan tímann. Róleg og yfirveguð gáfu þau mér nærveru sem engu er lík.

Þegar pabbi dó tóku þau bæði við hans hlutverki gagnvart börnunum mínum af fullum krafti og vissu alveg hvar, hvenær og hvernig þau gátu hjálpað mér með börnin þegar félagsþjónustan brást mér ítrekað. Ég þurfti ekki að biðja um aðstoð. Amma vissi að það getur reynst mjög erfitt að biðja um aðstoð og fann það hvar hún gat aðstoðað og hvernig með næmni og virðingu.

Ég veit að ég vann í ömmu- og afalottóinu í þessu lífi og mun búa að því alla tíð.

Aðalheiður Flosadóttir.

Þegar amma kvaddi fylltist hugur minn af draumkenndum minningum úr æsku þar sem við vorum saman að dunda okkur í Sólheimum og Birkilundi. Við tókum alltaf Hvalfjörðinn í Birkilund og sungum saman alla leiðina, meðal annars lag um pálmana sem sveiflast á himnum hjá Jesú, hvítklæðin og gullhörpuna sem við fáum þegar við komum til hans. Eða svo segir lagið allavega.

Amma gaf mér fallegustu gjöf lífs míns, sem er trúin. Hún ræktaði hana með mér. Þegar ég var barn sótti hún mig nánast alla sunnudaga til að fara með mér í sunnudagaskólann í Laugarneskirkju hjá Bjarna frænda. Stundum var ég heppin og fékk að gista daginn áður en mér þótti fátt betra en að eiga tíma með ömmu. Hún sinnti mér vel og okkar samband var dýrmætt.

Ég var einstaklega heppin með þig elsku amma mín. Ég veit að pabbi og afi hafa tekið á móti þér. Ég ætla að verða gömul eins og þú, en þegar kemur að mér, þá verða fagnaðarfundir.

Bergey Flosadóttir.

Kær systir og mágkona er nú horfin á braut og komin heim til Guðs sem hún trúði staðfastlega á.

Helga Steinunn var stór persónuleiki þó hún hafi ekki verið há í loftinu. Með dugnaði sínum, gleði, jákvæðni og trúarvissu smitaði hún út frá sér. Sem stóra systir tók hún þátt í heimilishaldinu og var móður okkar ómetanleg stoð og stytta þegar faðir okkar féll frá fyrir aldur fram frá okkur sex systkinum. Hún var 17 ára kennaranemi og ég var minnsti bróðirinn sex ára. Hún sá til þess að litli bróðir fengi þá aðstoð við námið sem á þurfti að halda og studdi mig með ráðum og dáð fram á fullorðinsár, fyrir það er ég henni ævinlega þakklátur.

Helga var ung þegar hún kynntist Karli, eiginmanni sínum, en hann hafði fengið vinnu í Burstagerðinni sem faðir okkar rak. Þau giftust þegar Helga var rúmlega tvítug og eignuðust fjóra syni.

Helga og Kalli voru gjarnan nefnd í einu, þar sem þau voru samstarfsfélagar í mörg ár, hún sem kennari og hann skólastjóri. Þau tóku að sér að reka heimavistarskóla í Hlaðgerðarkoti fyrir stúlkur sem bjuggu við erfiðar heimilisaðstæður.

Á þessum árum kynnist ég Helgu mágkonu minni. Það var eftirtektarvert að sjá hvernig þau hjónin mættu skjólstæðingum sínum, með einstakri alúð og hlýju og hugsuðu bæði fyrir líkamlegum og andlegum þörfum þeirra. Við hjónin komum oft í heimsókn til þeirra í Hlaðgerðarkot og oftar en ekki þáði ég ráð frá þeim varðandi kennslu, þar sem ég var að stíga mín fyrstu skref sem kennari.

Helga Steinunn var einstakur uppalandi og litum við hjónin til hennar sem fyrirmynd þegar við eignuðumst börnin okkar.

Helga var að okkar mati kennari af guðs náð, hún náði sér í réttindi sem sérkennari og lét sér einstaklega annt um alla sína nemendur og gerði allt sem í hennar valdi stóð til að efla þá.

Helga tók þátt í kristilegu starfi frá unga aldri og má segja að bænin hafi verið hennar lífæð. Hún lét sér annt um unga sem gamla og tók þátt í miðbæjarstarfi KFUM og K þegar hún lauk sínu starfi sem kennari. Börnin hennar, barnabörn og barnabarnabörn nutu krafta hennar og elskusemi meðan hún hafði heilsu til að sinna þeim. Helga lætur eftir sig stóran hóp afkomenda, allt mannvænlegt og duglegt fólk.

Síðustu 25 árin hefur Helga glímt við parkinson-sjúkdóminn, sem hún tókst á við af einstakri elju og jákvæðni svo eftir var tekið.

Yndisleg kona hefur kvatt þetta jarðlíf og eftir sitja minningarnar góðu sem við hjónin og börnin okkar geymum í hjarta okkar um allar góðu samverustundirnar sem við fengum að njóta með henni og fjölskyldu hennar. Kærar samúðarkveðjur til allra afkomenda Helgu Steinunnar, Guð blessi minningu hennar.

Jón Dalbú og Inga Þóra.

Helgu Steinunni hef ég þekkt frá barnsaldri þegar ég sótti sunnudagaskóla Kristniboðssambands Íslands í Betaníu við Laufásveg. Á árunum eftir stríð voru þar nokkrir góðir og eftirminnilegir kennarar sem kenndu af eldmóði kristna trú, sögðu sögur úr Biblíunni og af kristniboði Íslendinga í Kína. Hróbjartur Árnason, faðir Helgu, var þar í framlínunni, mjög hlýr og hvetjandi maður, persóna sem aldrei gleymist. Eftir ótímabært andlát hans komu tvær dætur hans til starfa um skeið í sunnudagaskólanum, Margrét og Helga Steinunn. Þær höfðu erft áhuga og baráttugleði föður síns. Báðar áttu einlæga trú og þær bjuggu yfir hlýju og kærleika í garð samferðafólks síns og komu svo til frambúðar við sögu í lífi mínu – og okkar hjóna þegar fram liðu stundir, þó einkum Helga Steinunn sem við kveðjum í dag.

Samstarf okkar hjóna og Helgu og Karls Sævars í Hlaðgerðarkoti fyrir rúmlega hálfri öld tengdi okkur enn frekar, þótt ekki væri langt. Þar sinntu þau árum saman því mikilvæga starfi að mennta grunnskólastúlkur í heimavist og ganga þeim að einhverju leyti í foreldrastað meðan á námstímanum stóð. Og margar þessara stúlkna áttu árum saman samband við „fósturforeldrana“ sem við vitum að var þeim mjög mikilvægt.

Helga og Kalli hafa um áratuga skeið verið náin vinahjón okkar, við höfum skipst á heimsóknum og fylgst vel með börnum þeirra og þau okkar. Órjúfandi og mikilvæg tengsl sem við höfum kunnað að meta og aldrei hefur borið skugga á. Við nutum líka skilnings og stuðnings þeirra á erfiðum tímabilum og vonum að það hafi verið gagnkvæmt. Sumarbústaðir okkar voru í sömu brekkunni í Borgarfjarðarsýslu svo að gönguferðir á milli urðu þó nokkrar, sem og notaleg samvera og langar og djúpar umræðusyrpur yfir kaffibolla.

Nú síðustu árin hefur ellin krafist mikils af þessum kæru vinum okkar, en gott hefur þó verið að geta fylgt þeim eftir að einhverju leyti. Líka eftir að þau urðu fyrir nokkrum árum að yfirgefa heimili sitt og flytja á Hrafnistu í Hafnarfirði og svo Helga á Hrafnistu í Laugarási eftir að Kalli lést. Við erum þakklát fyrir að við gátum kvatt Helgu aðeins viku fyrir andlát hennar þegar við litum til hennar. Einnig erum við full þakklætis fyrir að hafa fengið að njóta vináttu þeirra hjóna öll fullorðinsárin okkar. Guð geymi Kalla og Helgu og huggi ykkur, Darri, Bjarni og Árni Heiðar, Aldísi og öll barnabörnin, yngstu kynslóðina og fjölskylduna alla.

Rúna Gísladóttir og
Þórir S. Guðbergsson.