Kolbrún Bergþórsdóttir
Netflix-heimildarmyndin The Menendez Brothers er áhugaverð og hefur átt sinn þátt í því að fjölmargir krefjast þess að bræðrunum tveimur verði sleppt úr fangelsi, en þar hafa þeir dúsað í 35 ár. Bræðurnir myrtu foreldra sína á hrottalegan hátt en báru fyrir sig að faðirinn hefði beitt þá verstu tegund af kynferðisofbeldi allt frá því að þeir voru börn. Móðir þeirra hefði vitað af því en látið eins og ekkert væri.
Í myndinni var sýnt frá réttarhöldunum, rætt við bræðurna, ættingja þeirra, lögfræðinga, kviðdómendur og fleiri. Bræðurnir viðurkenndu sekt sína fúslega, sögðu morðin hvíla þungt á þeim en þeir hefðu óttast að foreldrarnir myndu drepa þá og því gripið til örþrifaráðs. Foreldrarnir voru forríkir en bræðurnir sögðu peninga ekki hafa haft nein áhrif á ákvörðun sína.
Maður spurði sig samt af hverju drengirnir töldu ástæðu til að skjóta föður sinn sex sinnum og móðurina tíu sinnum, þar á meðal í andlitið. Þeir hringdu síðan í lögreglu og sögðu að mafían hefði líklega drepið foreldrana. Næsta skref drengjanna var að byrja að eyða arfinum eins og enginn væri morgundagurinn.
Sumum spurningum í þessu morðmáli verður líklega aldrei svarað, en myndin var ansi sláandi.