Kristinn Sv. Helgason
Kristinn Sv. Helgason
Svo virðist sem hraður vöxtur ríkisútgjalda síðasta áratuginn sé ekki síst til kominn vegna gullhúðunar stjórnsýslunnar frekar en að grunnkerfin hafi verið styrkt.

Kristinn Sv. Helgason

Eitt febrúarkvöld árið 1924 streymdu Reykvíkingar úr öllum áttum í Bárubúð við Tjörnina til að hlusta á Jón Þorláksson alþingismann ræða fjármálastjórn ríkisins. Niðurstöður hans voru óglæsilegar samkvæmt ævisögu hans: Íslendingar höfðu flotið sofandi að feigðarósi; ríkið hafði safnað miklum skuldum; og sjálfstæði þjóðarinnar var í hættu. Ræða Jóns hafði mikil áhrif á þá þingmenn sem á hlýddu og samstaða myndaðist um að stofna nýjan flokk, Íhaldsflokkinn, með það að markmiði að spyrna við fótum, stöðva fjáraustur úr landssjóði, fækka bitlingum og hefja fornar dygðir aftur til vegs.

Jón Þorláksson varð fyrsti formaður Íhaldsflokksins og fjármálaráðherra í ríkisstjórninni sem tók við í marsmánuði 1924. Íhaldsflokkurinn rann síðan inn í Sjálfstæðisflokkinn árið 1929. Ef Jón væri enn áhrifamaður í íslenskum stjórnmálum er ekki ósennilegt að hann myndi kalla til annars fundar í Bárubúð til að brýna fyrir forystumönnum þjóðarinnar og almenningi nauðsyn þess að bæta fjármálastjórn ríkisins.

Þegar skoðuð eru útgjöld ýmissa ráðuneyta og stofnana síðustu tvo áratugina má sjá að mun meira aðhald var í fjármálastjórninni á tímabilinu 2002 til 2015 en á árunum þar á eftir. Heildarútgjöld ríkissjóðs jukust um 52 prósent að raunvirði á tímabilinu 2015 til 2023 sem mjög líklega er meiri hækkun en í nokkru öðru Evrópulandi. Að mati Fjármálaráðs er minna aðhald í ríkisfjármálum hér á landi en í samanburðarlöndum og tímabundin útgjöld hafa tilhneigingu til að verða varanleg.

Ef útgjaldaþróunin er skoðuð nánar má sjá að framlag ríkissjóðs til Alþingis og aðalskrifstofa fjögurra ráðuneyta (forsætis, fjármála og efnahags, utanríkis og umhverfis, orku og loftslagsmála) hækkaði um meira en 2,7 milljarða kr. að raunvirði á tímabilinu 2015 til 2025 (sjá fjárlagafrumvarp). Framlag ríkissjóðs til Alþingis hækkaði um rúman milljarð kr. að raunvirði á þessu tímabili þótt þingmönnum hafi ekki fjölgað og ekki hafi orðið merkjanleg breyting á umfangi þingstarfa.

Mesta hækkunin á þessu tíu ára tímabili var á framlagi ríkissjóðs til aðalskrifstofu forsætisráðuneytisins eða um 80 prósent að raunvirði (tæpar 470 milljónir kr.). Þessi kostnaðaraukning jafngildir því að verksvið ráðuneytisins hafi nær tvöfaldast á þessu tímabili.

Framlag ríkissjóðs til aðalskrifstofu fjármála- og efnahagsráðuneytisins, sem ætti að ganga á undan með góðu fordæmi þegar kemur að ábyrgri fjármálastjórn, hækkaði um tæp 44 prósent á árunum 2015 til 2025 að raunvirði eða meira en hálfan milljarð kr.

Hækkun framlags ríkissjóðs til aðalskrifstofu umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins var ekki síður sláandi, fór úr tæpri 631 milljón kr. árið 2015 (verðlag 2024) í 1.070 milljónir kr. samkvæmt fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2025, eða 70 prósent að raunvirði.

Svo virðist sem töluvert átak hafi verið gert til að lækka rekstrarkostnað aðalskrifstofu utanríkisráðuneytisins á árunum fyrir 2015 en þá hafi slaknað á aðhaldinu. Framlag ríkissjóðs til ráðuneytisins 2015 var rúmlega 16 prósentum lægra en árið 2002 að raunvirði. Á tímabilinu 2015 til 2025 hækkaði framlag til aðalskrifstofu ráðuneytisins hinsvegar um tæp 18 prósent að raunvirði eða rúmar 300 milljónir kr.

Kostnaðarþróun hjá einstökum stofnunum er ekki síður athyglisverð. Í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2025 er framlag til umboðsmanns Alþingis nærri tvöfalt hærra að raunvirði en það var árið 2002. Embættið hafði þrjá fasta starfsmenn á fyrsta starfsári sínu (1988) og tvo lögfræðinga í lausastörfum en þar starfa nú um 20 manns. Persónuvernd var stofnuð árið 2018 en 135 milljónum kr. var varið til þessa málaflokks árið 2015 (verðlag 2024) en í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2025 fær stofnunin 375 milljónir kr. sem er nærri þreföld hækkun að raunvirði. Í nýju fjárlagafrumvarpi er framlag til Persónuverndar og umboðsmanns Alþingis nánast það sama og á að leggja til alls tónlistarnáms á vegum sveitarfélaganna. Hvaða rök liggja að baki slíkri forgangsröðun?

Framlag ríkissjóðs til Fangelsisstofnunar á árunum 2015 til 2025 hækkaði um einn milljarð kr. að raunvirði eða um 47 prósent þótt íbúum fæddum hér á landi hafi einungis fjölgað um 6 prósent. Útlendingastofnun hefur líka vaxið hratt en framlag ríkissjóðs fór úr 349 milljónum kr. árið 2015 (verðlag 2024) í 737 milljónir kr. í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2025 en hjá stofnuninni starfa nú um 100 manns.

Svo virðist sem hraður vöxtur ríkisútgjalda síðasta áratuginn sé ekki síst til kominn vegna gullhúðunar stjórnsýslunnar frekar en að grunnkerfin hafi verið styrkt. Þegar Jón Þorláksson varð fjármálaráðherra árið 1924 við erfiðar aðstæður einbeitti hann sér að því að koma fjárlagafrumvarpinu hallalaust í gegnum þingið sem tókst og var það kallað „Sparnaðarþingið mikla“. Nú þarf að endurtaka þann leik ekki síst vegna áhrifa ríkisútgjalda á bæði verðbólgu og vexti. Það er líka kominn tími til að ríkisvaldið lögbindi starfagreiningar á stofnunum á ákveðnu árabili svo hægt sé að endurmeta með faglegum hætti hlutverk, verksvið, starfsmannafjölda og framlag til þeirra.

Höfundur hefur doktorsgráðu auk meistaragráðu í bæði opinberri stjórnsýslu og rekstrarhagfræði. Hann hefur starfað erlendis í fimm þjóðlöndum á síðustu áratugum.

Höf.: Kristinn Sv. Helgason