Tryggvi Þór Árnason fæddist 18. janúar 1928 í Neshjáleigu í Loðmundarfirði. Hann lést á Hjúkrunarheimilinu Eir í Reykjavík 11. október 2024.

Foreldrar hans voru Árni Einarsson frá Húsavík í Borgarfirði eystra og Þórdís Sigurbjörg Hannesdóttir frá Tjarnarlandi í Hjaltastaðarþinghá. Þau hófu búskap saman í Neshjáleigu í Loðmundarfirði árið 1917 og bjuggu þar til ársins 1938 að þau fluttu í Hólaland í Borgarfirði eystra þar sem þau bjuggu til ársins 1959 er Árni lést. Þórdís bjó áfram á Hólalandi hjá sonum sínum til dauðadags 1970.

Árni og Þórdís eignuðust þrettán börn. Öll komust til fullorðinsára, utan ein stúlka sem lést kornabarn. Þau eru, talin í aldursröð: Hannes Guðmundur, f. 1918; Valborg, f. 1919; Guðbjörg Sigríður, f. 1921; Ingibjörg, f. 1922; Einar, f. 1924; Sigurður Hannesson, f. 1926; Tryggvi Þór, f. 1928; Aðalsteinn, f. 1930; Lára Hallfríður, f. 1931; Friðjón, f. 1933; Arnþór, f. 1935; Ragnheiður Sigurbjörg, f. 1938; Davíð Sæberg, f. 1940. Einungis tvö systkinanna eru enn á lífi, þau Lára Hallfríður og Davíð Sæberg.

Þann 28. desember 1974 kvæntist Tryggvi Soffíu Ingadóttur, f. 6. maí 1932 á Vaðnesi í Grímsnesi. Foreldrar hennar voru hjónin Ingi Gunnlaugsson frá Kiðjabergi og Ingibjörg Ástrós Jónsdóttir frá Álfhólum. Soffía lést á Hjúkrunarheimilinu Eir 10. mars 2022. Fyrir átti Soffía soninn Smára Helgason framreiðslumeistara, f. 13. ágúst 1961. Dætur hans eru: Soffía og Eva Lind.

Það var þröngt um stóru fjölskylduna í þáverandi híbýlum á Hólalandi. Til þess að bæta úr því var lítið herbergi byggt við baðstofuna. Húsakosturinn og býlið áttu svo sannarlega eftir að breytast síðar þegar nýtt og glæsilegt steinhús var reist á Hólalandi og land brotið til ræktunar, sem til þurfti á stórbúinu sem þeir bræður komu sér upp.

Skólasaga Tryggva var aðeins einn vetur í barnaskólanum í Bakkagerði. Tryggvi hafði löngun til þess að fara í iðnnám en fjármunir voru ekki fyrir hendi. Þess í stað fór hann ungur að vinna fyrir sér, var meðal annars í vinnumennsku, fór á vertíðir í Vestmannaeyjum, Garði á Suðurnesjum og víðar og stundaði ýmis verkamannastörf. Tryggvi vann um árabil víða um sveitir á Austurlandi á jarðvinnuvélum og um tíma í síldarbræðslunni á Bakkagerði.

Tryggvi var mikill áhugamaður um hestamennsku og stundaði tamningar á eigin hestum og annarra og fórst það vel úr hendi; þótti bæði þolinmóður og laginn við þann starfa.

Soffía og Tryggvi reistu sér saman myndarlegt einbýlishús við Álfabrekku í Kópavogi og bjuggu þar í 20 ár. Þau fluttust síðar í litla og þægilega íbúð við Sóltún í Reykjavík. Árið 2020 fluttust þau í Fróðengi 9 í Reykjavík og tveimur árum síðar á Hjúkrunarheimilið Eir í Reykjavík. Þar varð endastöð þeirra beggja.

Útför Tryggva verður frá Fossvogskapellu í Reykjavík í dag, 21. október 2024, kl. 11.

Þá ertu farinn frændi. Saddur lífdaga og sáttur við að geta aftur kúrt við hliðina á Soffíu þinni sem þú saknaðir sárt. Níutíu og sex ár eru drjúgt æviskeið og þér fannst komið nóg.

Leiðir okkar hafa á minni ævi legið saman með ýmsum hætti og margs að minnast. Fyrstu árin mín vorum við nágrannar í Borgarfirðinum. Þú búandi, ásamt nokkrum bræðra þinna á Hólalandi, og ég hjá afa og ömmu á Gilsárvöllum. Þið báruð ykkur vel bræður þegar þið riðuð þar um hlaðið. Vel ríðandi og kunnuð sannarlega að sitja hest. Þá var lítill gaur stoltur af frændseminni við ykkur og setti sig ekki úr færi að fylgjast með ykkur koma innan að og ríða hjá.

Það var mikið sport að sitja á ýtunni hjá þér þegar þú varst að vinna tún í Breiðdalnum. Mörgum árum seinna, þegar við bjuggum saman nokkrir karlar í Hlégerðinu í Kópavogi á menntaskólaárum mínum, varst þú aftur í ýtuvinnu, þá yst á Kársnesinu og ég tók mig stundum til og færði þér nýlagað kaffi. Þá tókstu þér stundarpásu, án þess þó að fara af ýtunni, og við fengum okkur kaffisopa saman.

Fyrstu vikurnar mínar í háskólanáminu á sínum tíma skutuð þið Soffía skjólshúsi yfir mig á Grettisgötunni á meðan ég beið eftir að komast í varanlegt húsnæði. Það var ætíð notalegt að skjótast til ykkar í stuttar heimsóknir hvar sem þið bjugguð.

Fyrir þetta er ég þakklátur en líka stundirnar sem við áttum saman síðustu árin þín á hjúkrunarheimilinu. Borgarfjörðurinn, ekki síst Hólaland, var þér ávallt efst í huga. En líka Loðmundarfjörðurinn. Þau vöfðust ekki fyrir þér kennileitin í Neshjáleigunni og þú ljómaðir þegar þú sagðir mér af æsku þinni og prakkarasögur af ykkur bræðrum, bæði þar og á Hólalandi. Við tókum gjarnan stutta yfirferð um Borgarfjörðinn og þú rifjaðir upp bæi og búendur og sagðir mér frá kynnum þínum af samferðafólkinu þar og ýmsum viðburðum. Þar varst þú á heimavelli. Þegar á leið ræddum við oftast sömu hlutina, en það kom ekki að sök; góð vísa er aldrei of oft kveðin.

Þú sagðir mér líka frá feimnum og uppburðalitlum strák sem þurfti snemma að fara úr skjólinu í foreldrahúsum til þess að vinna. Fyrst til Bögga og Möggu, sem þá bjuggu á Hjáleigunni, þar sem þér voru ætlaðir ýmsir snúningar. Ég spurði þig hvort þú hefðir fengið einhver laun fyrir þetta. Þú sagðir ekki, þetta hefði áreiðanlega verið hugsað af þeirra hálfu til að létta á barnmörgu heimili. Þér var uppálagt að borða morgunmat og aðrar máltíðir á Hjáleigunni en svafst heima á Hólalandi. Þú sagðir mér frá vinnumennsku á unglingsárum uppi á Héraði. Launin, einhverja peninga en líka saltað kjöt í tunnu, léstu renna til heimilisins til að létta undir.

Þú sagðir mér líka af því hvernig amma hafði hemil á orkunni í ykkur bræðrum þegar kominn var háttatími með því að segja ykkur sögur. Sat þá í myrkrinu til að spara ljósið og prjónaði á meðan. Þá heyrðist ekki hljóð í neinum. Enginn vildi verða til þess að trufla söguna, eða valdur að því að amma hætti sögu. Það eru galdrar í góðum sögum.

Hafðu þökk fyrir góð kynni og samvistir.

Árni Einarsson.