Guðjón Leifur Gunnarsson
Guðjón Leifur Gunnarsson
Þrálát fitusöfnun sem ekki lætur undan megrunarráðum er vel þekkt og meðferðin gagnast mörgum.

Guðjón Leifur Gunnarsson

Undanfarið hefur aukist ásókn í fitusogsaðgerðir vegna þrálátrar fitusöfnunar, einkum á útlimum, s.s. á lærum framan- og utanverðum, innanverðum hnjám og fótleggjum en einnig á upphandleggjum. Í sumum tilfellum getur fitusöfnunin valdið óþægindum á borð við þreytuverki í útlimum eða sársauka sem í verstu tilfellum veldur brennandi sviða. Önnur einkenni hafa verið nefnd á borð við marbletti og hnúta sem oft eru aumir viðkomu. Greiningin og skilmerki hennar eru breytileg eftir uppruna.

Meðferðin miðast við greininguna

Lýtalæknar fást við margvísleg mein í fituvef, frá góðkynja fituhnútum (lipoma) til illkynja krabbameina (liposarcoma) og allt þar á milli. Nýverið hefur aukist umræða og eftirspurn eftir meðferð á þrálátum fitupúðum sem ekki láta undan megrun með breyttu mataræði, hreyfingu eða aðgerðum. Reynslan af meðferð lausrar húðar og þrálátrar fitusöfnunar sem er afleiðing ofþyngdaraðgerða hefur reynst gagnleg. Fitupúðar á aftanverðum handleggjum, framan- og innanverðum lærum, mjöðmum og stundum fótleggjum geta valdið töluverðum óþægindum: þreytuverkjum í útlimum sem hamla hreyfingum og vandkvæðum við klæðaval; ef sverir handleggir og læri komast ekki fyrir og heimta stærri stærðir en restin af líkamanum þannig að viðkomandi verður að sætta sig við að vera í of stórum fötum þrátt fyrir eðlilegan þyngdarstuðul (BMI).

Aðgerð við fitupúðum

Það er komin ákveðin reynsla á aðgerðir sem geta haft áhrif á þennan kvilla, hver svo sem niðurstaðan verður með tilliti til endanlegrar greiningar. Fitubjúgur, lipedema, er ekki viðurkennd greining í Danmörku eða Noregi þar sem höfundur hefur starfað við lýtalækningar síðastliðin 20 ár og óvíst um þróunina þar á, enda eru skilmerkin ekki einhlít. Hins vegar hafa Þýskaland og Svíþjóð viðurkennt greininguna og flykkjast sjúklingar þangað til meðferðar úr öllum áttum. Fylgikvillar sem óhjákvæmilega geta fylgt slíkum aðgerðum, enda sjaldnast á borði meðferðaraðilanna, hafa vakið spurningar um eðli og ávinning þessara aðgerða, einkum ef umfangið af fitu sem fjarlægð er með fitusogi er mikið.

Hvað er til ráða?

Það er brýnt að kortleggja fyrirbærið og hvaða meðferð gagnast best áður en lengra er haldið. Hormónastýrð fitusöfnun er vel þekkt og hefur verið mörgum áþján, einkum kvenfólki. Sumar stúlkur á táningsaldri fá ofvöxt í mjaðmir og læri við kynþroska og útlit þeirra breytist úr samræmi við aðra líkamshluta og jafnaldra. Þessar breytingar geta verið jafn íþyngjandi og brjóst sem vaxa úr hófi, en það er viðurkenndur kvilli þrátt fyrir annars eðlilegt holdafar. Hvimleið fitusöfnun á meðgöngu er einnig vel þekkt og sleppir ekki takinu þrátt fyrir brjóstagjöf heldur situr sem fastast og styrkist við hverja meðgöngu. Að síðustu getur fitusöfnun aukist samfara tíðahvörfum en þá breytast hlutföll bandvefs í líkamanum og fitupúðar þyngjast með tilheyrandi óþægindum.

Hver sem undirliggjandi tilurð fitusöfnunar þessarar telst á endanum er ljóst að eitthvað er ekki eins og það þarf að vera. Því er mikilvægt að sýna þessum einstaklingum nærgætni og skilning og athuga hvort eitthvað sé mögulega hægt að gera í þeirri vandasömu stöðu sem þeir lenda í.

Ljós í myrkri?

Ný sykursýkilyf (GLP-1-viðtakaörvar) höfðu óvænta og kærkomna aukaverkun í för með sér og fólk sem lengi hafði glímt við offitu upplifði í fyrsta sinn á ævinni þá tilfinningu að vera satt og finna ekki fyrir óstöðvandi hungri. Aðra langaði ekkert í sykur sem hingað til hafði stjórnað lífi þeirra og megrun varð að veruleika. Þessi lyf hafa gjörbylt skilningi lækna á líffræðilegri undirrót offitu, þó að hún sé margbreytileg og ennþá fjölmargt á huldu.

Sem þátttakandi í vegferð einstaklinga sem losa sig við 100 kg af fitu hefur greinarhöfundur notið þeirrar ánægju að sjá líf þeirra gjörbreytast til batnaðar og fátt gleður lækni meir en hamingjusamir sjúklingar sem hafa endurheimt lífsgæði sín. Það er ekki sjálfsagt að manneskja sem léttist svo mikið geti lifað eðlilegu lífi án aðstoðar þegar húðin, teygð og toguð ásamt fitupúðum, hangir íþyngjandi með tilheyrandi húðfellingum og sárakvillum þegar húðin soðnar og særist við daglegt amstur.

Þegar búið er að framkvæma aðgerðir sem miða að því að strekkja á húðinni og færa nær fyrra horfi geta þessir einstaklingar lifað eðlilegu lífi án sársauka sem fylgir því að bera aukna byrði húðar og fitupúða eða ótta við að það finnist lykt af sárum þeirra og húðfellingum.

Líkamslögun eftir offituaðgerðir

Í Noregi eru slíkar aðgerðir framkvæmdar á opinberum sjúkrahúsum, sjúklingum að endurgjaldslausu. Það er kannski orðið tímabært að íslenskir sjúklingar þurfi ekki að leita út fyrir landsteinana eftir aðstoð við sjálfsagða aðhlynningu þeirra meina sem þekkt eru eftir offituaðgerðir auk þrálátra fitupúða ef nærtækari lausn er fyrir hendi.

Höfundur er starfandi yfirlæknir í lýtalækningum í Noregi og Danmörku með sérhæfingu á sviði líkamslögunar (body contouring).

Höf.: Guðjón Leifur Gunnarsson