Þorsteinn Magnús Jónsson fæddist 30. desember 1930. Hann lést á Hjúkrunarheimilinu Ási í Hveragerði 15. október 2024.
Foreldrar hans voru hjónin Jón Þorsteinsson frá Eyvindartungu í Laugardal, f. 14. apríl 1894, d. 22. maí 1971, og Sigríður Tómasdóttir frá Barkarstöðum í Fljótshlíð, f. 10. október 1901, d. 9. maí 1981. Þau voru bændur á Þóroddsstöðum.
Þorsteinn var næstelstur systkina sinna, sem voru Margrét, f. 1929, Tómas, f. 1933, Arnheiður, f. 1937, og Guðrún Erna, f. 1942. Þau Tómas og Guðrún eru eftirlifandi.
Þorsteinn gekk í barnaskólann í Hveragerði og grunnskólann þar í tvo vetur. Hann vann að búi foreldra sinna og var þrjár eða fjórar vertíðir í Vestmannaeyjum og Þorlákshöfn. Hann tók við búinu árið 1955 og rak búskap á Þóroddsstöðum til 1976, þegar hann varð að láta af búskap. Hann hafði fengið lömunarveiki 14 ára gamall og þoldi ekki allan þann gang sem búskapurinn krafðist. Læknar sögðu raunar að hann væri 75% öryrki, en það tók hann ekki í mál.
Þá hóf hann að reka vörubíl, gekk í Vörubílstjórafélagið Mjölni. Auk venjulegrar vinnu á bílnum hóf hann að selja túnþökur, m.a. seldi hann tugi hektara af túnþökum til Vestmannaeyja eftir gosið þar. Þá var hann einn af þeim fyrstu sem lögðu stund á að flytja lifandi fisk landshorna á milli fyrir fiskeldisfyrirtæki og varð það hans aðalatvinnuvegur lengi vel.
Hann var um tíma formaður Mjölnis og fleiri félaga. Hann sat í hreppsnefnd Ölfushrepps í 16 ár og síðan lengi vel formaður kjörstjórnar við sveitarstjórnar- og alþingiskosningar.
Hann átti mikið af bókum og las mikið en síðast en ekki síst hafði hann gaman af að ferðast bæði innan og utanlands.
Síðustu árin dvaldi hann á Hjúkrunarheimilinu Ási í Hveragerði.
Útförin fer fram frá Hjallakirkju í Ölfusi í dag, 29. október 2024, og hefst athöfnin klukkan 14.
Ég vil minnast hans Þorsteins bróður míns með nokkrum orðum. Við vorum alltaf mjög samrýndir, m.a. rákum við saman búið á Þóroddsstöðum í fimm ár, frá 1955 til 1960. Þorsteinn og ekki síður foreldrar hans voru barngóð, svo að barnabörn þeirra hjóna sóttust eftir að dvelja á Þóroddsstöðum. Systrasynir Þorsteins, þeir Jón Davíð Þorsteinsson og Guðmundur og Sigurður Jón Antonssynir, dvöldu þar langdvölum frá æsku til unglingsára.
Hann var svo bóndi á Þóroddsstöðum til ársins 1976 en þá hætti hann búskap vegna þess að hann þoldi ekki ganginn sem búskapurinn krafðist. Hann hafði lamast á vinstra fæti 14 ára gamall og bar þess aldrei bætur. Þá fór hann að reka vörubíl, gekk í Vörubílstjórafélagið Mjölni og ók þar möl í húsgrunna og vegi og vikri úr Þjórsárdal til Þorlákshafnar. Hann fór að selja túnþökur, bæði á lóðir, á Keflavíkurflugvöll, en mest til Vestmannaeyja, en þangað seldi hann tugi hektara af túnþökum eftir eldgosið þar. Síðan fór hann að flytja lifandi fisk landshornanna á milli og varð það hans aðalatvinnuvegur lengi vel.
Hann naut trausts samferðamanna sinna sem sést á því að hann var kjörinn í sveitarstjórn Ölfushrepps og sat þar í 16 ár og síðan var hann formaður kjörstjórnar fyrir sveitarstjórnar- og alþingiskosningar.
Við bræður áttum margar góðar stundir saman, báðir höfðum við gaman af að ferðast, og fórum við saman margar ferðir til útlanda, t.d. Flórída og Minneapolis í Bandaríkjunum, borgarferðir og ferðir með Bændaferðum til Evrópu og ótal sinnum til Kanaríeyja. Eftirminnilegustu ferðirnar fór ég þó ekki með honum, það var þegar hann fór hringferð um jörðina með Ingólfi Guðbrandssyni og ferð sem hann fór með Kirkjukór Stykkishólms til Ísraels og Egyptalands með viðkomu í Vatíkaninu í Róm þar sem sjálfur páfinn tók á móti hópnum og átti Steini mynd af sér með páfanum og kirkjukórnum.
Sem fyrr sagði ferðuðumst við mikið saman innanlands, og eru fáir staðirnir sem við ekki komum á, hvort heldur var í byggð eða á eyðislóðum. Steini var mjög fróður, hann las mikið og þekkti líklega landið sitt betur en flestir aðrir. Hann tók þátt í spurningakeppnum og hafði oftast sigur. Hann hafði góða söngrödd og hafði gaman af að syngja í góðra vina hópi. Á Kanarí komu margir saman lengi vel á sundlaugarbarminum á Roque Nublo þar sem sungið var hástöfum undir styrkri stjórn Sigurðar Harðarsonar radíóvirkja og harmóníkuleikara og annarra góðra tónlistamanna. Þar var Þorsteinn fremstur í flokki.
Á efri árum tók hann í fyrsta sinn þátt í kórsöng, í kór eldri borgara í Þorlákshöfn sem hét Tónar og trix. Þar naut hann sín vel í hópi góðra vina.
Síðustu árin bjó Arnheiður systir hans hjá honum á Þóroddsstöðum, þar til þau þurftu bæði að fara samtímis á hjúkrunarheimili á miðju ári 2015.
Blessuð sé minning hans bróður míns.
Tómas Jónsson.
Steini móðurbróðir minn var mér ákaflega kær allt frá barnæsku. Mamma var elst systkina á Þóroddsstöðum og alla tíð mjög kært milli þeirra Steina. Heimilið á Þóroddsstöðum var annað heimili okkar systkina. Frá því ég man eftir mér var ég öll sumur í sveit hjá afa, ömmu og Steina á þessum fallega stað í Ölfusinu. Steini fékk lömunarveiki sem barn og bar þess alltaf merki í göngulagi. Þrátt fyrir það hlífði hann sér í engu enda heljarmenni að atgervi og kröftum. Hann unni lífinu og kunni hvergi betur við sig en við búreksturinn og á vörubílnum sem varð smám saman aðalatvinnutækið eftir að búrekstri lauk. Steini unni menningu og ungmennastarfi í sveitinni, var mikill bókaunnandi eins og gott bókasafn hans ber vott um. Hann var mjög vel að sér um alla staðhætti og var gaman að fara með honum um sveitir landsins. Hann var félagslyndur og vinamargur og lagði aldrei illt orð til nokkurs manns.
Steini var að mörgu leyti eins og annar faðir okkar systkina, fyrirmynd og vinur, þolinmóður leiðbeinandi, hlýr og skipti aldrei skapi. Þegar við höfðum aldur til tókum við þátt í sveitastörfunum og voru afi, amma og Steini iðin við að kenna okkur rétt vinnubrögð og samviskusemi. Steini kenndi okkur að varast hætturnar og slysin sem sveitastörfunum fylgdu og við tókum þátt í verkum sem til féllu og hæfðu þroska okkar. Þegar ég hugsa til veru minnar þar sem barn er mér ljóst að ég á honum mikið að þakka fyrir allt það góða sem hann lagði inn hjá okkur á þessu viðkvæma aldursskeiði. Það fáum við aldrei fullþakkað. Við krakkarnir höfðum löngum þann starfa að sækja kýrnar á morgnana og kvöldin. Þá skokkuðum við niður túnin og sungum hástöfum öll vinsælustu dægurlög sumarsins, „Hvítir mávar“, „Stína var lítil“, „Oft á vorin“ og fleiri vinsæl dægurlög. Það var sungið þar til kýrnar voru komnar í hús. Þetta gerðum við alla daga nema sunnudaga, þá sá Steini um að sækja kýrnar. Þetta var yndislegur tími. Steini lagði áherslu á að vinnan, stundvísi og reglusemi væri okkur gott veganesti út í lífið en hvíldin ekki síður. Auðvitað fengum við líka tíma til leikja. Í minningunni var alltaf sól í sveitinni.
Síðar þegar amma var orðin þreytt og þurfti aðstoð við heimilisstörfin lofaði ég henni að vera sumarlangt hjá þeim Steina. Amma lifði það ekki en Steini hermdi þetta loforð upp á mig. Börnin mín fengu þá að kynnast frelsinu sem sveitin býður upp á og þeim góða frænda sem Steini var. Þarna varð ég enn nánari elsku Steina og minningin um góðan dreng mun alltaf lifa. Steini var síðustu mánuði þrotinn að kröftum en fram á það síðasta gátum við spjallað um daginn og veginn, hann fylgdist með fréttum og ræddi við okkur um sveitina okkar á Laugarvatni og við rifjuðum upp gamla tíma á Þóroddsstöðum. Hann langaði alltaf að komast heim áður en hann kveddi en það gekk ekki eftir. Við munum sakna hans. Steini skilur eftir sig ljúfar og fallegar minningar sem munu lifa með okkur. Blessuð sé minning hans og þakkir fyrir allt.
Þórunn Karítas
og Þráinn.