Árni Árnason
Árni Árnason
Þetta er sú afskræmda mynd „samkeppni“ sem við verðum að gera okkur að góðu. Fari hún og veri þar sem sólin aldrei skín.

Árni Árnason

Á undanförnum misserum og árum hefur hvolfst yfir okkur varhugaverð þróun í orkumálum sem er alls ekki í þágu þjóðarinnar. Fram að því gátum við hrósað happi yfir því að orkan okkar, sem framleidd er og virkjuð af fyrirtækjum í almannaeigu og dreift um landið af dreifiveitum sem sömuleiðis eru í almannaeigu, var sameign okkar allra og orkuverð endurspeglaði vilja til þess að þjóðin fengi að njóta þessara auðæfa sinna.

Nú kveður því miður við annan tón. Með gullhúðun ákvæða í samningnum um evrópska efnahagssvæðið eru sterk öfl að verki við að einkavæða orkusöluna. Það var ekki óþekkt fyrir að öfl í stjórnkerfinu ynnu að því öllum árum að koma eigum almennings í hendur einkaaðila, undir ýmsu fölsku yfirskini.

Aðstæður í orkumálum á meginlandi Evrópu eru gjörólíkar okkar. Vel má vera að skipan orkumála þar sé betur komin með númeruðum orkupökkum og tilskipunum, orkuframleiðsla og dreifing í einhvers konar heljargreipum báknsins mikla, Evrópusambandsins, en það er alveg kýrskýrt að einkavæðing hér á landi er alls ekki í þágu þjóðarinnar og þjóðin hefur ekki beðið um hana.

Þeir sem harðast börðust fyrir því að orkupakkar ESB yrðu teknir í íslensk lög voru ósparir á að tala um að allt þetta væri í þágu samkeppni, og að sjálfsögðu gæti enginn verið á móti samkeppni (að vera á móti samkeppni er eins og að tala illa um Móður Teresu).

Var þetta fólk (m.a. ÞKRG) að meina svona „samkeppni“ eins og er á eldsneytismarkaði eða var það að tala um „samkeppni“ eins og er á markaði sjóflutninga eða trygginga eða banka eða kannski matvöru, þar sem það er talin samkeppni að smjördollan sé alltaf einni krónu ódýrari í Bónus en Krónunni? Þetta er sú afskræmda mynd „samkeppni“ sem við verðum að gera okkur að góðu. Fari hún og veri þar sem sólin aldrei skín.

Mál að linni

Við erum löngu búin að sjá í gegnum þennan fagurgala. Markmiðið er að koma orkuauðlindum þjóðarinnar smátt og smátt í hendur því óseðjandi siðblinda skrímsli sem einkageirinn því miður er orðinn.

Nú eru orkusalarnir orðnir níu talsins. Fæstir eiga virkjun eða vírspotta en njóta gullhúðunar Evrópusambandsreglna til að fá að tengja tölvuna sína og bankareikninga inn í virðiskeðju íslenskrar orku á leið sinni til bláeygðra neytenda.

Þó að allt þetta sé skrípaleikur er þetta bara fyndið fyrir nýju orkusalana sem skellihlæja og fyllast jákvæðri orku yfir peningunum sem skrollast inn á reikningana þeirra á tölvuskjánum hraðar en auga á festir, án nokkurrar fyrirhafnar af þeirra hálfu. Eða haldið þið kannski að N1, Atlantsorka og hvað þetta heitir allt saman myndu einu sinni svara í síma ef eitthvað bilaði? Kemur þeim það yfirleitt nokkuð við?

Að lokum einn brandari (því miður ekki fyndinn): Orkusalan ehf. (einkahlutafélag) er stofnuð 2006. Orkusalan er 100% í eigu RARIK (Rafmagnsveitur ríkisins). RARIK er í dag ohf. (opinbert hlutafélag, alfarið í eigu ríkisins).

Í dag er einkahlutafélagið Orkusalan ehf. sagt eiga og starfrækja sjö vatnsaflsvirkjanir sem gangsettar voru frá 1930 til 1976.

Ef enginn hefur lagt Orkusölunni til eina einustu krónu, aðrir en RARIK, hvernig eignaðist Orkusalan ehf. sjö gamlar vatnsaflsvirkjanir?

Er það eðlileg ráðstöfun á eigum almennings að ríkisfyrirtæki breytist fyrst í opinbert hlutafélag, sem síðan stofnar dótturfyrirtæki sem er einkahlutafélag og gefur því sjö stykki virkjanir? Hvern er verið að blekkja? Er virkilega enginn sem sér fáránleikann í því að eignir ríkisins (fólksins í landinu) séu með hókus-pókus-sveiflu orðnar bókfærðar eignir einkahlutafélags?

Með þessari ráðstöfun er Orkusalan ehf. orðin þátttakandi í blekkingaleiknum um „samkeppnina“ og þess ekki langt að bíða að gróðafíklarnir fái að kaupa hana á gjafverði.

Komið hefur fram hjá mönnum sem gerst þekkja til að höfnun orkupakkanna hefði ekki sett samninginn um EES í hættu, þannig að greinilega bjó eitthvað annað og skuggalegra að baki.

Nú er mál að linni. Kjósum rétt.

Höfundur er vélstjóri.

Höf.: Árni Árnason