Kjörfundur Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar hefst 7. nóvember næstkomandi og lýkur 29. nóvember, degi fyrir alþingiskosningarnar.
Kjörfundur Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar hefst 7. nóvember næstkomandi og lýkur 29. nóvember, degi fyrir alþingiskosningarnar. — Morgunblaðið/Eggert
Frestur til að skila inn framboðslistum til landskjörstjórnar fyrir komandi alþingiskosningar rennur út kl. 12.00 fimmtudaginn 31. október nk. Hverjum framboðslista skal fylgja undirrituð yfirlýsing hvers frambjóðanda um að hann hafi leyft að nafn…

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

Frestur til að skila inn framboðslistum til landskjörstjórnar fyrir komandi alþingiskosningar rennur út kl. 12.00 fimmtudaginn 31. október nk. Hverjum framboðslista skal fylgja undirrituð yfirlýsing hvers frambjóðanda um að hann hafi leyft að nafn sitt sé á listanum og getur undirritunin verið hvort heldur sem er með eigin hendi eða rafræn.

Þegar framboðsfrestur er útrunninn á fimmtudag fer landskjörstjórn yfir framboðin og kannar hvort öll skilyrði séu uppfyllt og úrskurðar í kjölfarið um gild framboð og tilkynnir síðan um gild framboð 3. nóvember.

Þá ber að fylgja hverjum framboðslista undirritun meðmælenda og skal fjöldi þeirra vera margfeldi af þingsætatölu kjördæmisins og tölunum 30 að lágmarki og 40 að hámarki. Í kjördæmi þar sem eru t.a.m. 10 þingsæti þarf fjöldi meðmælenda að vera 300 að lágmarki en 400 að hámarki. Fæst þingsæti eru í Norðvesturkjördæmi og þarf hver framboðslisti þar 210 meðmælendur að lágmarki. Í Suðvesturkjördæmi, þar sem flest þingsætin eru, þarf hver framboðslisti 420 meðmælendur hið minnsta, en í Reykjavíkurkjördæmunum báðum þarf undirskriftir a.m.k. 330 meðmælenda.

Á framboðslista skulu vera a.m.k. jafn mörg nöfn frambjóðenda og kjósa skal í viðkomandi kjördæmi, en aldrei fleiri en tvöföld sú tala. Frambjóðandi til Alþingis getur átt lögheimili í öðru kjördæmi en því sem hann býður sig fram í.

18 ára og eldri mega kjósa

Allir íslenskir ríkisborgarar sem náð hafa 18 ára aldri þegar kosning fer fram og eiga lögheimili hér á landi njóta kosningaréttar við alþingiskosningar. Einnig hefur sá sem orðinn er 18 ára og hefur átt lögheimili hér á landi kosningarétt í sextán ár frá því að hann flutti lögheimili sitt af landinu. Eftir þann tíma þarf hann að sækja um til Þjóðskrár Íslands að vera tekinn á kjörskrá. Viðkomandi fer þá á kjörskrá í því sveitarfélagi þar sem hann var síðast skráður með lögheimili. Meginreglan er sú að kjörskrá skuli vera rafræn. Viðmiðunardagur kjörskrár er á hádegi í dag, 29. október, en á kjörskránni eru nöfn allra þeirra sem kosningarétt hafa í komandi alþingiskosningum. Kjörskráin verður síðan auglýst 31. október og verður þá hægt að fletta upp hvort einstaklingur sé á kjörskránni.

Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar hefst 7. nóvember

Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar hefst síðan 7. nóvember, en hægt er að greiða atkvæði m.a. hjá sýslumönnum, í sendiráðum og hjá ræðismönnum Íslands erlendis. Utankjörfundaratkvæðagreiðslu lýkur síðan 29. nóvember, en kjördagur er 30. nóvember svo sem kunnugt er. Kjörfundur má ekki vera skemmri en 8 klukkustundir og honum má ekki slíta fyrr en hálfri klukkustund frá því að kjósandi gaf sig fram síðast. Þó er sú undantekning gerð í kosningalögum að heimilt sé að slíta kjörfundi þegar allir sem á kjörskrá eru hafa greitt atkvæði, sem og eftir fimm klukkustundir, ef öll kjörstjórnin og umboðsmenn eru sammála um það, enda sé hálf klukkustund liðin frá því að kjósandi gaf sig síðast fram.

Breytingar og útstrikanir

Heimilt er hverjum kjósanda að gera breytingar á þeim framboðslista sem hann greiðir atkvæði sitt. Vilji hann breyta nafnaröð á lista þeim er hann kýs, setur hann tölustafinn 1 fyrir framan það nafn sem hann vill hafa efst, töluna 2 fyrir framan það nafn sem hann vill hafa annað í röðinni, töluna 3 fyrir framan það nafn sem hann vill hafa það þriðja o.s.frv.

Þá er kjósanda og heimilt að hafna frambjóðanda á framboðslista og strikar hann þá yfir nafn viðkomandi. Hins vegar má kjósandi ekki hrófla við framboðslistum sem hann kýs ekki, hvorki strika yfir nöfn á þeim né breyta nafnaröð á þeim. Geri hann svo er atkvæðaseðillinn ógildur.