Bosch Titus Welliver leikur lögregluna Bosch.
Bosch Titus Welliver leikur lögregluna Bosch. — Ljósmynd/Wikipedia
Þriðja serían af lögfræðiþáttunum Lincoln Lawyer er nýkomin á Netflix. Fyrri seríurnar tvær voru meinlaust gaman, en ekki mjög tilþrifamikið. Þættirnir eru byggðir á bókum glæpasagnahöfundarins Michaels Connellys, sem er einn af betri glæpahöfundum…

Dóra Ósk Halldórsdóttir

Þriðja serían af lögfræðiþáttunum Lincoln Lawyer er nýkomin á Netflix. Fyrri seríurnar tvær voru meinlaust gaman, en ekki mjög tilþrifamikið. Þættirnir eru byggðir á bókum glæpasagnahöfundarins Michaels Connellys, sem er einn af betri glæpahöfundum vestanhafs, en aðalpersónan Micky hefur þó engan veginn tærnar þar sem önnur sögupersóna Connellys, lögreglumaðurinn Hieronymus Bosch, hefur hælana.

Sjónvarpsseríurnar um lögreglumanninn Bosch sem leikarinn Titus Welliver leikur frábærlega er hægt að sjá á Amazon Prime. Bosch er kostulegur riddari réttlætisins, einfari sem rekst illa innan lögreglunnar og er í stöðugum vandræðum í samskiptum við stjórnendur, sem er alveg í ætt við harðsnúna lögreglumenn þessarar bókmenntagreinar.

Það er aðeins meiri glassúr yfir öllu í Lincoln Lawyer en Bosch. Aðrir lögfræðiþættir, eins og þættirnir um góðu eiginkonuna, The Good Wife (Amazon Prime), hafa betri persónusköpun og sýna betur pólitíkina og samkeppnina í lögmannaheiminum, en Lincoln Lawyer er samt ágætis afþreying. En í miklu framboði sjónvarpsefnis getur verið freistandi að lesa frekar bara góða bók eða knúsa karlinn (eða konuna).

Höf.: Dóra Ósk Halldórsdóttir