Eyrún Eva Gunnarsdóttir fæddist 25. október 1991. Hún lést 28. september 2024.

Útförin Eyrúnar fór fram 14. október 2024.

Lífið færir okkur ýmislegt að takast á við, misþungt og erfitt og alls konar. Eyrún Eva þurfti að takast á við ýmsar stórar áskoranir í lífinu, en gerði það með reisn og bar höfuðið hátt. En síðasta baráttan vannst ekki og því skrifa ég þessi orð á blað.

Eyrún tókst á við sín verkefni af festu og einurð, hún stráði gleði í kringum sig og átti traustan vinahóp. Ég varð þeirrar gæfu aðnjótandi að fá hana í vinnu til mín um tíma á síðasta ári, hún fetaði sig inn á vinnumarkaðinn í hægum skrefum og mætti þegar hún gat. Það þurfti ekkert mikið að segja henni til, hún var fljót að tileinka sér vinnuna og ekkert vafðist fyrir henni. Við áttum gæðastundir saman í búðinni, spjall um daginn og veginn og það sem okkur lá á hjarta. Eyrún var mjög opin varðandi sín veikindi og það sem hún hafði þurft að takast á við og hún var einnig góður hlustandi. Það var því skarð fyrir skildi þegar hún greindist með krabbamein fyrir tæpu ári. Ég hlakkaði til að fá hana aftur þegar hún næði bata, en það fór nú á annan veg.

Fátækleg orð mega sín lítils á stundu sem þessari, en minningin um Eyrúnu mun lifa með okkur öllum. Fjölskyldan syrgir og vinahópurinn góði. Það var aðdáunarvert að verða vitni að vináttunni sem birtist og sannaði sig í veikindum Eyrúnar, en vinirnir voru við hennar hlið ásamt nánustu ástvinum hennar þegar hún kvaddi. Samhugur sem þessi hjálpar fjölskyldunni fram á við. Það er brött brekkan fram undan, en það verður að fara hana alla leið, það er eitthvað fallegt að sjá þegar upp er komið.

Innilegar samúðarkveðjur sendi ég Dómald, foreldrum og systkinum og vinahópnum góða. Guð blessi minningu Eyrúnar Evu, hún kenndi okkur að njóta hverrar stundar.

Margrét Jónsdóttir.

Eyrún, einstaka, fallega, marglita, stórbrotna persónan er látin.

Ég er búin að hugsa um að setjast niður við þessi skrif í marga daga, hugsa um allt það sem ég fékk að læra, skilja og þekkja eftir að ég kynntist henni Eyrúnu.

Tilfinningasvið Eyrúnar spannaði eitt stærsta róf sem ég hef kynnst, hún var iðulega traust og hlý gagnvart þeim sem hún treysti og tengdist. Hreinskiptin deildi hún af sínum innsta kjarna hráum og stundum sárum sannleika. Hún var með sterkari réttlætiskennd en flest fólk, hefði staðið upp á stól alla daga að berjast fyrir réttlætinu og óhikað úthúðað hverjum þeim sem braut á öðrum. Bardagar annarra voru stundum hennar bjargráð, því hún vildi gera fyrir alla aðra það sem henni hafði verið um megn að gera fyrir sig. Hún gat reiðst snögglega og farið í blússandi bardagaham. Þegar slíkar stundir áttu sér stað gat hún sagt sannfærandi frá því hvers vegna hún átti fullan rétt á þessari reiði. Orðaflaumur og framsetning vafðist aldrei fyrir henni, hvorki í skrifum né í máli. Hún var líka eina manneskjan sem ég hef þekkt sem hefði leikandi náð rúmlega 350 orðum á mínútu við upplestur, án þess að gera eina einustu villu. Eyrún lifði hratt, lærði hratt, talaði hratt og hugsaði hratt.

Eyrún var óvenjuleg og með tímanum varð hún stolt af því að vera alls ekki eins og aðrir. Stundum komu líka tímabil, þar sem hún náði að elska sjálfa sig og þá var dásamlegt að fylgjast með henni, sjá og heyra hvernig öll tilvera hennar tifaði af fögnuði og ást til alls lífsins.

Þegar Eyrún greindist með krabbann sagði hún „ég gat ekki einu sinni fengið hefðbundið krabbamein“ og í minningunni finnst mér eins og okkur hafi þótt þetta lýsandi fyrir hana. Einstaka Eyrún með einstaka krabbameinið, sem virtist í fyrstu vera lítið og staðbundið, en var síðan miklu stærra og búið að taka hana löngu áður en hennar tími var kominn.

Ég hefði getað haldið áfram að fresta því að skrifa þetta og haldið fast í minningarnar í hjartanu, í þeim eina tilgangi að forðast sorgina og tómleikann sem verður til þegar persóna eins og Eyrún kveður lífið. En eins og við höfðum svo oft sagt við hvor aðra, þá er óttinn þjófur og ég vil ekki að ótti fái að ræna neinu af því sem við Eyrún fengum að eiga og upplifa saman.

Elsku einstaka Eyrún, takk fyrir að hafa verið til, ég verð áfram til fyrir þig, sama hvar þú ert og hvernig sem allt fer, þá átt þú alltaf vinkonu í mér.

Regnbogi sindrar á himni

þar sem sólin vermir ský

Marglitar stjörnur og máninn

í myrkrinu ljósið býr

Hvort sem ríkir nótt eða dagur

þá gott er að vita af því

að einstök undur heimsins

dofna og birtast á ný

(Vala F.)

Valgerður Friðriksdóttir.