Ísraelska þingið samþykkti í gær með yfignæfandi meirihluta frumvarp til laga sem bannar starfsemi flóttamannaaðstoðar Sameinuðu þjóðanna í Palestínu, UNRWA, í Ísrael og í austurhluta Jerúsalem.
92 þingmenn af 120 greiddu atkvæði með frumvarpinu en einungis tíu voru á móti því. Stjórnvöld í Ísrael hafa gagnrýnt UNRWA ítrekað á síðustu árum, og hafa Ísraelsmenn m.a. sakað starfsmenn samtakanna um að hafa tekið þátt í hryðjuverkum Hamas-samtakanna 7. október í fyrra.
Juliette Touma talsmaður UNRWA fordæmdi ákvörðun þingsins og sagði forkastanlegt að aðildarríki SÞ væri að reyna að koma í veg fyrir störf stofnunar á vegum alþjóðasamtakanna.
Bæði Bandaríkjamenn og Bretar hafa lýst yfir áhyggjum sínum vegna hins fyrirhugaða banns og þeirra áhrifa sem það gæti haft á ástandið á Gasasvæðinu og á Vesturbakkanum.