Hjörleifur Guttormsson
Hjörleifur Guttormsson
Nýlegar rannsóknir benda til að hægt hafi á flutningi hlýsjávar úr suðri til norðurs sem haft geti hörmulegar afleiðingar við Norður-Atlantshaf.

Hjörleifur Guttormsson

Nær aldarþriðjungur er liðinn frá því Ríó-ráðstefnan 1992 var haldin þar sem gerðar voru samþykktir sem verða skyldu leiðarstef fyrir þróun mannkyns inn í framtíðina. Um var að ræða samningana um loftslagsbreytingar og um líffræðilega fjölbreytni. Sá fyrrnefndi hefur verið meira áberandi í alþjóðlegri umræðu og styrktur í áföngum. Það gerðist fyrst með Kýótó-bókuninni 1997 og síðar með Parísarsamkomulaginu árið 2015, sem flestar þjóðir heims hafa gerst aðilar að.

Loftslagssamningurinn gerir ráð fyrir að hækkun meðalhita á jörðinni verði haldið sem næst 1,5 gráðum og fari ekki yfir 2 gráður á Celsius. Haldnir hafa verið árlegir fundir aðildarríkja þessa samnings, sá síðasti (COP 28) í desember 2023 í Sameinuðu arabísku furstadæmunum. Skammt er nú í næsta fund (COP 29) sem halda á 11.-22. nóvember í Bakú í Aserbaídsjan.

Um samninginn um líffræðilega fjölbreytni hefur af þátttökuríkjum oftast verið fundað annað hvert ár, síðast í Montreal í Kanada fyrir tveimur árum. Nú stendur yfir 16. ráðstefnan í borginni Cali í Kólumbíu. Sitja hana þrír fulltrúar frá Náttúrufræðistofnun Íslands en enginn frá umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu.

Í þessum samningi er m.a. sett fram þríþrepa nálgun til að stefna að líffræðilegri og upprunalegri fjölbreytni. Er þá einkum haft eftirfarandi í huga:

Mun hagkvæmara og umhverfisvænna er að koma í veg fyrir innkomu og útbreiðslu ágengra framandi tegunda en að ráðast í aðgerðir eftir að slíkar tegundir hafa fest sig í sessi.

Ef ágeng framandi tegund hefur numið land er mikilvægt að greina það fljótt og grípa tafarlaust til aðgerða til að hindra að hún festi rætur. Þannig er æskilegt að uppræta viðkomandi tegund eins fljótt og hægt er.

Ef uppræting er ekki möguleg er nauðsynlegt að hindra útbreiðslu og skipuleggja aðgerðir til langs tíma til að einangra tegundina.

Skelfileg útbreiðsla alaskalúpínu hérlendis

Alvarlegasta og mest áberandi umhverfisslysið með aðflutta tegund hérlendis er alaskalúpínan, sem flutt var til landsins 1945 og leggur nú árlega undir sig ný og stór landsvæði. Upphaflega var hún flutt í Bæjarstaðarskóg í Skaftafelli og þrátt fyrir viðleitni fyrri ára virðist sem ráðamenn hafi nú gefist upp á að útrýma henni þar í þjóðgarðslandinu.

Andvaraleysi á stóran þátt í útbreiðslu lúpínunnar og fleiri slíkra vágesta. Þess sá ég afar skýrt dæmi á ferð um Austurland sl. sumar. Þar eins og víðar lætur Vegagerðin slá gróður í vegköntum og afleiðing þess er m.a. að lúpínan breiðist þar út með vélrænum hraða og síðan út í umhverfið.

En það eru fleiri innfluttar tegundir sem eru að leggja undir sig landsvæði. Dæmi um það er stafafura, sem er vaxandi vágestur út frá skógræktarsvæðum þar sem henni hefur verið plantað í góðri trú.

Stafafura er yfirlýstur vágestur á Nýja-Sjálandi og víðar. Um það hafa skrifað m.a. þeir Andrés Arnalds og Sveinn Runólfsson: „Rétt tré á réttum stað“ (Bændablaðið 4. nóv. 2021). Þar segja þeir í upphafi: „Ólíkt hafast þjóðir að. Á sama tíma og gróðursetning barrtrjáa hér á landi hefur verið að aukast verja Nýsjálendingar milljörðum króna í að uppræta sumar þessara sömu tegunda utan afmarkaðra ræktunarsvæða. Margt má læra af reynslu þeirra. Það á ekki síst við um nauðsyn þess að sjá fyrir langtímaáhrif skógræktar með framandi tegundum til að auðvelda okkur að forðast þau alvarlegu mistök sem gerð hafa verið á Nýja-Sjálandi.“

Veltihringrás Atlantshafsins hefur hægt á sér

Ekki færri en 44 vísindamenn frá 15 löndum hafa nýlega sent norrænu ráðherranefndinni opið bréf þar sem þeir benda á að nýlegar rannsóknir bendi til að svonefnd veltihringrás (AMOC) í Atlantshafi hafi verið að veikjast. Þessi straumahringrás flytur hlýjan sjó úr suðri til norðurs og veldur því að byggilegt er á norðurslóðum þrátt fyrir hnattstöðu. Telja þeir vísbendingar um að hægt hafi á þessu ferli vegna hnattrænnar hlýnunar af mannavöldum. Veikist hringrás þessi frekar hefði það hörmulegar afleiðingar fyrir búsetuskilyrði við norðanvert Atlantshaf og víðar.

Meðal þeirra sem undirrita bréf um þetta til norrænu ráðherranna eru fjórir þekktir íslenskir vísindamenn: Guðfinna Þ. Aðalgeirsdóttir prófessor, Halldór Björnsson veðurfræðingur, Áslaug Geirsdóttir prófessor við HÍ og Steingrímur Jónsson prófessor nyrðra. Þekktur þýskur hafeðlisfræðingur, Stefan Rahmstorf, afhenti Guðlaugi Þór Þórðarsyni umhverfisráðherra bréf um þetta nýlega á Hringborði norðurslóða.

Það er þannig um nóg að hugsa og ræða á þingi Norðurlandaráðs sem haldið er hér í Reykjavík dagana
28.-31. október.

Höfundur er náttúrufræðingur.

Höf.: Hjörleifur Guttormsson