Guðrún Esther Árnadóttir fæddist 13. ágúst 1940. Hún lést 1.október 2024.

Útför Guðrúnar fór fram 21. október 2024.

Í barnabókum og bíómyndum er oft að finna skemmtilegu, hispurslausu og lífsglöðu frænkuna sem bæði gefur og gleður. Ég var svo heppin að eiga svoleiðis frænku í alvörunni. Gunna hló hátt og brosti eftirminnilega. Hún átti ævintýralegan garð í húsinu sínu í Mosfellsbæ með endalausum rabarbara og feikinægum sykri í eldhúsinu þar sem kisi réð lengi ríkjum. Þar voru fjársjóðir í öllum hornum, ekki síst í skrifborðinu hans Nonna sem þolinmóður dró fram áttavita, stækkunargler og hin ýmsu tæki og tól fyrir forvitin barnsaugun. Gunna kynnti okkur systur fyrir leikhúsi Mosfellsbæjar þar sem hún tók þátt í uppsetningum á fleiri verkum en ég kann að telja og leyfði okkur að gramsa í búningunum baksviðs eða spjalla við dvergana hennar Mjallhvítar að sýningu lokinni. Svo bauð hún okkur með í kvikmyndaupptökur um víðan völl þar sem við röltum með henni um sem bakgrunnsleikarar. Gleðin og frelsið héldu áfram að hafa áhrif á okkur vel inn í fullorðinsárin, í ferðalögum utanlands og innan og eftirminnilega þegar hún birtist svo sjálf á sjónvarpsskjáum allra landsmanna íklædd gullbikiníi Leiu prinsessu úr Star Wars í sjónvarpsauglýsingu sem ég get enn glaðst yfir. Ég gæti auðveldlega fyllt þessa síðu og margar til með dýrmætum minningum af góðri frænku en kannski má best taka þær saman sem svo: Gunna málaði heiminn einstaklega björtum litum sem áfram munu lýsa veginn okkur sem vorum svo lánsöm að eiga hana að.

Lilja Dögg Jónsdóttir.

Mér finnst erfitt að finna orð. Mér finnst erfitt að meðtaka að Gunna frænka verði ekki á fleiri viðburðum hjá stórfjölskyldunni. Erfitt að vita til þess að stórt skarð hafi nú verið höggvið í systkinahóp mömmu minnar sem aldrei verður fyllt. Gunna frænka var eldri systir móður minnar. Þar sem 15 ár voru á milli þeirra systra þótti engan undra að mamma hefði eytt miklum tíma hjá Gunnu á uppvaxtarárum sínum. Sambandið milli mömmu og Gunnu frænku var einstakt og mikill samgangur og samskipti þeirra í milli. Af þessu leiddi að þegar ég var ung voru ferðirnar tíðar í Byggðarholtið í Mosó að heimsækja Gunnu frænku og Nonna. Ég minnist þessara ferða með hlýju í hjarta þegar ég sit hér og hugsa til baka. Gunna frænka hafði einstaka nærveru. Ekki bara var hún hlýjan uppmáluð heldur var hún líka einstaklega fyndin, lífsglöð og félagslynd kona. Er ég sit hérna get ég enn heyrt hláturinn hennar og röddina, séð fyrir mér kvikar hreyfingar hennar og fundið þessa orku sem frá henni stafaði. Ég held ég hafi ekki verið eldri en sjö ára þegar mér varð eitthvert sinnið sundurorða við foreldra mína, líklega vegna þess að ég mátti ekki fá kött og ákvað að ég skyldi bara flytja að heiman, en við bjuggum þá í Árbænum. Ég man að eftir skóla næsta dag fór ég heim, setti epli í bleiku ferköntuðu skólatöskuna mína og gekk út. Ég man að þegar út var komið hafði það farist fyrir hjá mér að ákveða hvert ég ætlaði að flytja. Ég dvaldi þó ekki lengi við þá hugsun þar sem það var augljóst! Ég ætlaði að flytja til Gunnu frænku! Hún átti líka köttinn Putta sem var bröndóttur fress sem elskaði rækjur. Það gat ekki verið betra. Ég man þó að á miðri leið, eða við Úlfarsfellið, hafði ég klárað eplið og snúist hugur þar sem enn var talsverður spölur í Byggðarholtið enda búin að ganga heila eilífð.

Gunna náði jafnt til ungra sem aldinna og var með eindæmum lífsglöð kona. Alltaf var stutt í húmorinn og galsann og fengu ættingjar, vinir og aðrir samferðamenn að njóta hans í ríkum mæli. Gunna frænka var klár í að skapa ævintýraheima sem sást best þegar hún steig á fjalir bæjarleikhússins í Mosó eða sagði frá töfrum sem áttu sér stað í garðinum í Byggðarholtinu. Gunna frænka elskaði fólkið sitt meira en allt og fór ekki leynt með það. Ég veit að það mun taka tíma fyrir okkur sem eftir sitjum að sætta okkur við breyttan veruleika en minningarnar munu þó ylja okkur og hjálpa. Elsku Gunna, ég á eftir að sakna þín. Góða ferð og bið að heilsa fólkinu okkar hinum megin.

Þitt frænkuskott,

Elva.

Hún Guðrún Esther var góður nágranni og enn betri vinkona.

Alltaf svo jákvæð og til í allt, bara gaman allan skalann. Á kafi í Leikfélagi Mosfellssveitar og alls konar hliðarverkefnum jafnframt starfi heima og heiman.

Við Magnús vissum af nágrönnunum þegar við fluttum í Byggðarholtið og leist vel á. Guðrún og Jón voru meðal frumbyggja í götunni; voru inni í mörgu og þekktu flesta. Við gátum staðið hvor sínum megin við limgerðið og spjallað, plokkað burt í leiðinni dauða kvista af trjánum og snurfusað í kringum þau. Guðrún fylgdist með okkar húsi ef við brugðum okkur af bæ í einhverja daga, vökvaði og leit eftir öllu. Hún var alltaf boðin og búin.

Magnús er stangveiðimaður og leitaði stundum að ánamöðkum í garðinum þegar rökkva tók í ágúst. Eitt kvöldið var hann kominn með vasaljósið yfir lóðamörkin til Jóns og Guðrúnar í leit að möðkum. Kemur þá ekki Guðrún út á náttkjólnum til að aðgæta hvort þjófur sé á ferð. Eftir að hún áttaði sig á stöðunni bauðst hún til að halda á vasaljósinu á meðan maðkarnir voru tíndir í dós. Þannig var Guðrún jafnan tilbúin að rétta hjálparhönd.

Við kynntumst fyrir alvöru í norrænu samstarfi, aðallega vinabæjasamstarfi. Vorum góður hópur í Norræna félaginu í Mosfellsbæ, sem vildi efla norræna menningu og samskipti milli norrænna landa, þar á meðal vinabæjasamskipti. Það var efnt til norrænna kvölda og kynninga, tekinn virkur þáttur í að móta vinabæjastarf og svo var farið á vinabæjamót. Tíunda hvert ár var haldið slíkt mót í Mosfellsbæ með fjölda þátttakenda, og þá reyndi svo sannarlega á skipulag, jákvæðni og sveigjanleika. Þar kom Guðrún sterk inn, aldrei neitt mál. Þetta var gefandi og lærdómsríkur tími og dýrmætt að vera með svona jákvæðu fólki sem alltaf var til í að hjálpa og redda málunum.

Við vorum oft þrjár í kippu, Guðrún, Gunnhildur S. Sigurðardóttir og ég. Á fyrsta vinabæjamóti mínu í Loimaa í Finnlandi vorum við saman í herbergi og eftir það kom ekkert annað til greina. Næsti viðkomustaður var Skien í Noregi. Þá áttu þátttakendur að segja aðeins deili á sér, nefna áhugamál o.fl. svo auðveldara yrði að finna þeim gistingu í heimahúsi. Við vorum fljótar að skrá okkur saman og segja að við ættum mörg áhugamál, ekki síst að hafa skemmtilegt. Tekið var á móti okkur í Skien með kveðjunni: Er dere de tre festlige damerne? Sú nafngift fylgdi okkur síðan.

Gunnhildur fór allt of snemma, og nú á ég ekki eftir að sjá geislandi og glettið bros Guðrúnar framar – nema í minningunni.

Ég kveð Guðrúnu Esther með vináttu og virðingu og votta fjölskyldu hennar innilega samúð.

Helga Jónsdóttir.