Íslandsmeistari
Jóhann Ingi Hafþórsson
johanningi@mbl.is
Arnór Gauti Jónsson varð á sunnudag Íslandsmeistari í fótbolta í fyrsta skipti er Breiðablik vann sannfærandi 3:0-útisigur á Víkingi í úrslitaleik í lokaumferð Bestu deildarinnar. Arnór kom til Breiðabliks frá Fylki fyrir tímabilið og var í stóru hlutverki síðari hluta þess.
„Tilfinningin var gjörsamlega ólýsanleg og sturluð. Maður vinnur alltaf að þessu, en ég var í Fylki þar sem ég fékk ekki smjörþef af titilbaráttu. Það er því sturluð tilfinning að enda þetta tímabil svona, með 3:0-sigri í Víkinni og þessari frammistöðu,“ sagði hann í samtali við Morgunblaðið.
„Það er gott að öll þessi vinna sem maður leggur á sig er að skila sér. Titillinn er að einhverju leyti mælikvarði á hvað þú leggur mikið á þig, þótt það skilgreini ekki alveg allt. Maður fagnar þessu með því að reyna að taka inn allt tilfinningaflóðið og njóta.
Það eru ekki allir það heppnir að vinna titla og standa uppi sem sigurvegarar. Maður nýtur þess eins og maður getur í kringum sitt fólk,“ sagði hann.
Það þurfti ekki mikið til að sannfæra Arnór, sem er uppalinn hjá Aftureldingu, um að skrefið í Kópavoginn væri það rétta.
„Breiðablik er þekkt fyrir að spila geggjaðan fótbolta sem bætir leikmenn. Þá er félagið líka þekkt fyrir að selja leikmenn til útlanda. Á sama tíma er liðið að berjast um titla, Evrópusæti og að ná langt í Evrópukeppnum. Það þurfti ekki mikið að sannfæra mig um að það væri rétt að skipta yfir.
Ef maður er ungur og spilar vel með Breiðabliki þá eru miklu meiri líkur en ekki á að þú komist á þann stað sem þig langar, sem er atvinnumennska. Það eru fjölmörg nýleg dæmi um það,“ sagði Arnór.
Elskar ríginn
Breiðablik og Víkingur eru búin að vera tvö langbestu lið landsins undanfarin ár og því við hæfi að þau hafi mæst í úrslitaleik, en ákveðinn rígur hefur myndast á milli félaganna.
„Mér finnst það drullugaman. Það er kominn mikill rígur okkar á milli sem hefur myndast því þetta eru tvö langbestu liðin undanfarin ár. Bæði lið spila rosalega góðan fótbolta og það er erfitt að vinna okkur. Ég elska þetta. Það er rígur á milli stuðningsmanna líka og það eru stuðningsmennirnir sem gera fótboltann að því sem hann er.
Okkar stuðningsmenn voru magnaðir í Víkinni. Þeir voru 250 en hljómuðu eins og þeir væru fleiri en Víkingarnir. Maður er í þessu til að spila fyrir framan fólk og skemmta fólki. Að hafa svona ríg og umtal er gott fyrir íslenskan fótbolta. Hann kemst á annað stig með svona, það hefur líka sést í árangri beggja liða í Evrópukeppnunum.“
Setti hausinn undir mig
Hlutverk Arnórs varð stærra eftir því sem leið á tímabilið og hann var í lykilhlutverki á lokakaflanum.
„Heilt yfir var þetta flott fyrsta tímabil hjá mér. Við stöndum uppi sem sigurvegarar og ég spila stóra rullu undir lok tímabils, sem ég er sáttur við. Ég skilaði góðri frammistöðu og get verið sáttur. Í byrjun tímabils var ég meira á bekknum. Maður þurfti að sætta sig við það og nýta tækifærin þegar þau komu. Ég setti hausinn undir mig, lagði meira á mig og það borgaði sig.
Ég reyndi hvað ég gat að hjálpa liðinu í litlu hlutunum, sem eru svo ekkert litlir. Ég var klár í skítavinnuna og að hlaupa þessa aukametra til að hjálpa liðsfélögunum. Ég reyndi svo að vera öruggur á boltanum og leyfa spili að fara í gegnum mig svo liðsfélagarnir kæmust í betri stöðu. Ég er ekki mikið í mörkum eða stoðsendingum en það er aukaatriði fyrir mér. Mitt hlutverk er að vernda markið mitt og leggja mikið á mig til að aðrir leikmenn njóti sín framar á vellinum,“ sagði Arnór.