Kristján Jónsson
kris@mbl.is
Skrif Jóns Guðmundssonar lærða um Baskavígin svokölluðu á Vestfjörðum eru nú einnig aðgengileg á frönsku. Frásögnina skrifaði Jón upphaflega árið 1615 og er hún Íslendingum vel kunn en hún hafði áður verið þýdd á önnur tungumál.
Baskar búa ekki einungis á spænskri grundu heldur einnig á franskri. Eru sitt hvorum megin við landamæri Frakklands og Spánar ef svo má segja. Baskavinafélagið á Íslandi kom að þessari nýju þýðingu á bók Jóns lærða og var útgáfan kynnt á Haizebegi-hátíðinni nýverið í Bayonne.
Franska útgáfu vantaði
Mathilde Morin doktorsnemi þýddi en Haizebegi-hátíðin útdeilir gjarnan verkefnum til doktorsnema. Þýðingin var gerð eftir leiðsögn Viola Miglio, doktors í málvísindum, og skrifar hún einnig formála. Miglio er í stjórn Baskavinafélagsins og hafði áður þýtt bókina á spænsku.
„Útgáfa Sannrar frásögu á frönsku vakti athygli en Morin og Miglio voru með sérstaka kynningu á bókinni. Árið 2015 voru 400 ár liðin frá Baskavígunum á Vestfjörðum og þá var frásögn Jóns lærða þýdd á ensku, spænsku og basknesku. Það vantaði franska útgáfu og áhugi var fyrir því að koma út franskri þýðingu fyrir hátíðina í ár og það tókst,“ segir Ólafur Jóhann Engilbertsson formaður Baskavinafélagsins í samtali við Morgunblaðið.
Haizebegi-hátíðin fór fram 3.-13. október og síðustu fjórir dagarnir voru tileinkaðir Íslandi og samskiptum Íslendinga og Baska.
„Verkefnið snýst ekki aðeins um Baskavígin 1615 heldur einnig orðasöfnin sem eru varðveitt hérlendis og erlendis og sögu hvalveiða við Ísland. Segja má að þetta séu tvær örþjóðir sem berjast við að varðveita tungumál sitt og þar er einnig snertiflötur,“ segir Ólafur og hann er ánægður með hvernig til tókst.
„Þetta heppnaðist nokkuð vel. Það komu yfirleitt um sextíu til sjötíu manns á viðburðina sem tengdust Íslandi. Áherslan á Ísland vakti greinilega forvitni því fjallað var um hana í fjölmiðlum á svæðinu.“
Auga vindsins
Að sögn Ólafs eru bæði áherslur á þjóðhætti og list í samskiptum Baskavinafélagsins við Baskana.
„Á hátíðinni var lögð áhersla á Ísland síðustu fjóra dagana. Kvartettinn Umbra lék íslensk þjóðlög í eigin útsetningum en þær heimsóttu einnig skóla og fleiri staði. Haizebegi þýðir á basknesku Auga vindsins. Markmið hátíðarinnar er að koma á samtali milli ólíkra menningarheima. Eitt af því var að fá listafólk til að fara í skóla og á meðferðarheimili. Þær náðu einnig að þjálfa kór á tveimur dögum til að syngja með þeim íslensk lög á hátíðinni og var það upphafsatriðið á tónleikunum.
Á hátíðinni kynntum við jafnframt Baskasetrið í Djúpavík. Héðinn Ásbjörnsson formaður Baskasetursins hélt erindi sem og Catherine Chambers og Alexandra Tyas hjá Háskólasetri Vestfjarða. Xabier Agote og Enara Novillo hjá Albaola voru einnig með erindi á hátíðinni,“ segir Ólafur en Novillo heimsótti Ísland í fyrra.
Denis Laborde, doktor í félagsfræði, stýrir hátíðinni en hann kom til Íslands um leið og Novillo og fór norður í Djúpavík í Reykjarfirði þar sem Baskasetrið er að taka á sig mynd. „Fjölskyldan frá Djúpavík sem unnið hefur að Baskasetrinu fjölmennti á hátíðina. Laborde gerði góðlátlegt grín þegar hann ávarpaði hátíðargesti. Laborde sagði að helmingur íbúa Djúpavíkur væri á hátíðinni en þau voru sem sagt átta sem mættu.“
Vestfirðingurinn Elfar Logi Hannesson hefur getið sér gott orð fyrir einleik um ýmis söguleg umfjöllunarefni. Elfar Logi var mættur til Baskalands og var með einleik hjá Albaola í Bayonne og hjá Albaola í Pasaia sem er í útjaðri San Sebastian. Hann las á íslensku en textar voru í boði á glærum á basknesku, spænsku og frönsku.
„Haizebegi-hátíðin er tónlistartengd eins og margt í þessum Baskaverkefnum. En öðrum þræði snýst þetta um endurgerðina á basknesku hvalveiðibátunum. Einn slíkur er kominn í gamla tankinn í Djúpavík og í framhaldinu verður gerð móttaka sem tengir tankana saman. Þá verður rýmra um fólk. Báturinn sem smíðaður var eftir leiðsögn frá Albaola eins og greint hefur verið frá er nú vel á veg kominn.“
Samstarf við Baska
Hugmyndin kviknaði fyrir fjórum árum
„Fyrir einu og hálfu ári hófst formlegt samstarf milli Haizebegi, Albaola-safnsins, Baskavinafélagsins á Íslandi og Háskólaseturs Vestfjarða. Kom það í framhaldi af því að árið 2020 kom fram hugmynd í átakinu Áfram Árneshreppur um Baskasetur í Djúpavík þar sem hægt væri að fræðast um tengsl Baska og Íslendinga. Baskavinafélagið fór í samstarf við Hótel Djúpavík og verkefnið hlaut árið 2022 styrk upp á 200.000 evrur, eða um 30 milljónir króna, frá Evrópusjóðnum Creative Europe í samstarfi við Háskólasetur Vestfjarða, Haizebegi í Bayonne, Albaola í Pasaia og fleiri aðila. Í gömlu síldartönkunum í Djúpavík verður sögusýning um samskipti Íslendinga og Baska. Einnig verður þar eftirlíking af léttabát eða „txalupa“ sem siglt var á í land úr skipunum sem liggja á botni Reykjarfjarðar. Skipasmiðir frá Albaola í Pasaia leiðbeina við smíði léttabátsins,“ segir Ólafur Engilbertsson um samstarfið.