Mótmæli Þúsundir söfnuðust saman við þinghús Georgíu í Tblisi undir kvöld og mótmæltu kosningaúrslitunum.
Mótmæli Þúsundir söfnuðust saman við þinghús Georgíu í Tblisi undir kvöld og mótmæltu kosningaúrslitunum. — AFP/Giorgi Arjevandize
Guðmundur Sv. Hermannsson gummi@mbl.is

Guðmundur Sv. Hermannsson

gummi@mbl.is

Þúsundir hlýddu kalli stjórnarandstöðuflokkanna í Georgíu og söfuðust saman utan við þinghúsið í miðborg Tblisi, höfuðborgar landsins, síðdegis í gær til að mótmæla úrslitum þingkosninga þar í landi á laugardag.

Stjórnarflokkurinn Georgíski draumurinn var lýstur sigurvegari í þingkosningum. Flokkurinn hefur verið bendlaður við yfirvöld í Rússlandi og er sagður ætla sér að efla tengsl Georgíu og Rússlands á kostnað tengsla Georgíu við Vesturlönd. Stjórnarandstaðan hefur sakað flokkinn um að hafa framið kosningasvik með aðstoð Rússa og neitar að viðurkenna úslitin og segir að fulltrúar hennar muni ekki taka sæti á þinginu.

Háþróuð kosningasvik

Salome Zurabishvili forseti Georgíu sagði í viðtölum í gær að háþróuð kosningasvik hefðu verið framin í þingkosningum í landinu á laugardag og úrslit þeirra endurspegluðu ekki vilja þjóðarinnar, sem vildi stefna að nánari tengslum við Evrópu.

Embætti forseta Georgíu er valdalaust en Zurabishvili fullyrti í viðtali við AFP-fréttastofuna að kosningaúrslitin væru ekki réttmæt. Hún sagði að skipulag kosningasvikanna hefði verið með þeim hætti að augljóst væri að Rússar hefðu komið þar að málum og rússneskir almannatenglar aðstoðað Georgíska drauminn við kosningaáróðurinn, sem ekki kæmi á óvart í ljósi tengsla flokksins við Rússa. Þá sagði hún erfitt að fást við Rússland vegna þess að landið virti ekki alþjóðlegar reglur og bætti við að Rússland væri ógnandi.

Dmitrí Peskov, talsmaður stjórnvalda í Kreml, sagði í gær að ásakanir um að Rússar hefðu beitt sér í kosningunum væru algerlega úr lausu lofti gripnar.

Stjórnvöld í ýmsum ríkjum, þar á meðal Þýskalandi, Frakklandi og Bandaríkjunum, auk Evrópusambandsins (ESB), sögðu í gær að verulegar brotalamir hefðu verið í framkvæmd þingkosningnna og hvöttu til þess að fram færi ítarleg óháð rannsókn. Fullyrt var að kjósendur hefðu sætt hótunum, reglum um leynilegar kosningar hefði ekki verið fylgt og ofbeldi verið beitt á kjörstöðum.

Viktor Orban forsætisráðherra Ungverjalands fór til Georgíu í gær í tveggja daga opinbera heimsókn til að sýna stjórnarflokknum stuðning en Ungverjaland fer nú með forsæti í Evrópusambandinu. Josep Borrell utanríkismálastjóri sambandsins sagði við fjölmiðla í gær að Orban væri ekki fulltrúi ESB í þessari heimsókn.

Georgía sótti árið 2022 um aðild að ESB. Irakli Kobakhidze forsætisráðherra Georgíu fullyrti í gær að flokkur hans stefndi áfram að aðild.